Sigurjón Birgir Ísfeld Ámundason fæddist á Ísafirði 12. maí 1939. Hann lést á líknardeild LHS á Landakoti 25. febrúar 2023.

Hann var sonur Stellu Jórunnar Sigurðardóttur ljósmóður og Ámunda Kristbjörns Jónssonar Ísfeld skósmiðs. Sigurjón ólst upp hjá ömmu sinni og afa, Aðalheiði Dýrfjörð og Sigurði Bjarnasyni. Sigurjón var elstur sjö systkina.

Sigurjón fór að vinna sem sjómaður strax að skyldunámi loknu, þá 15 ára gamall, og var að mestu leyti á togurum. Hann fór til Reykjavíkur og lá leið hans í Stýrimannaskólann þar sem hann útskrifaðist 1962 með fiskimannaréttindi. Hann hlaut skipstjórnarréttindi 1964.

Árið 1968 fór hann í Iðnskólann og lagði stund á múriðn. Hann útskrifaðist þaðan sem múrari og vann við iðn sína þar til hann komst á eftirlaun.

Sigurjón kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurbjörgu Ástu Hálfdánardóttur, þann 2. nóvember 1963. Þau eignuðust tvo syni, Hálfdán, f. 1964, í sambúð með Leslie Ann Harracksingh, og Pál, f. 1969, unnusta hans er Alyse Nicastro.

Útför Sigurjóns verður gerð frá Digraneskirkju í dag, 9. mars, klukkan 13.

Þá er hann Sigurjón „pabbi“ lagður af stað í sína síðustu siglingu, já eða ferðalag.

Mig langar aðeins að ræða við hann svona í síðasta skiptið.

Það er ég reyndar viss um að þú náðir að ná niður fargjaldinu hjá ferjumanninum yfir Stix með því að rökræða við hann á þinn skemmtilega hátt. Ertu annars ekki ennþá að reyna að vera ósammála öllum þar sem þú ert og hlærð síðan þegar þeir fara að rífast sín á milli?

Ertu ekki líka að togast á við Míru og Castro? Ég veit að þau bíða eftir þér þarna við brúna í Valhöll.

Þá ertu vonandi líka búinn að ná þér í öflugan bíl og að sjálfsögðu bát.

Alltaf hefur sjórinn heillað og þar kanntu best við þig, nema þá í stólnum þínum að horfa á handbolta og fótbolta með góðan hamborgara í hendinni og kólaglas við hliðina á þér.

En svona í fullri alvöru, þá er hann Rocco ennþá að leita að þér og skilur ekkert í því hvert þú fórst.

Já, svona er þetta, kannski ég fari að tala um þig en ekki við þig?

Þú hefur alltaf staðið með okkur bræðrunum í allri þeirri vitleysu sem við höfum tekið upp á og við gátum meira að segja dregið þig út í bílasportið og þú endaðir á því að verða formaður Kvartmíluklúbbsins og síðan einn af örfáum heiðursfélögum klúbbsins.

Þá varstu ekki fyrr hættur í bílasportinu en þú fékkst þér bát og fórst að veiða á sjóstöng.

Ekki varstu fyrr byrjaður á því en þú þurftir að fá nokkur kör undir fiskinn þar sem þú veiddir svo mikið á stöngina.

Allt tekið með trompi eins og vanalalega.

Þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum, til dæmis þegar þér var boðið gott starf í Kanada árið 1975, þig langaði að taka því tilboði en það var ljón á veginum því miður og þú vildir gera gott úr þessu öllu og tókst ekki starfinu, en sást alltaf eftir því.

Þá gerðist þú líka einu sinni veitingamaður og stóðst vaktina á nóttunni í Grensásbæ og „kjaftaðir kaffið“ ofan í leigubílstjórana eins og þú sagðir alltaf.

Já, það er margt sem þú hefur haft fyrir stafni og varst aldrei hræddur við að prófa nýja hluti og ég er þér þakklátur þegar þú hvattir mig til að flytja til Kanada fyrir um fimm árum.

Þegar þú veiktist það mikið að þér var vart hugað líf þá komum við að sjálfsögðu heim með næsta flugi.

En þú vilt örugglega ekki að ég hætti við hálfnað verk þannig að leiðin mun aftur liggja vestur fljótlega.

Það er skrítið að vita ekki af þér hérna hjá mömmu lengur, en eins og þú sagðir „það venst“.

Það er margt sem kemur upp í hugann á þessum tímamótum, svo margt að það væri of langt að setja það allt á prent þannig að best er að láta staðar numið.

Ég vonast til að við sjáumst í Valhöll í fyllingu tímans og ég ætla bara að segja eins og alltaf: Bless í bili, pabbi minn.

Hálfdán.