Hatur Mons Kallentoft gerir sér mat úr hatri í bók sinni Himinópið.
Hatur Mons Kallentoft gerir sér mat úr hatri í bók sinni Himinópið. — Ljósmynd/Pär Olsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spennusaga Himinópið ★★★★· Eftir Mons Kallentoft. Jón Þ. Þór íslenskaði. Ugla, 2023. 373 bls.

BÆKUR

Steinþór

Guðbjartsson

Samfélagsmiðlar geta verið varasamir og ekki er hægt að treysta öllu, sem þar er borið á borð. Þeir geta valdið óbætanlegum skaða, eins og mörg dæmi eru um, og þess vegna er brýn ástæða til að vera á varðbergi. Sænski spennusagnahöfundurinn Mons Kallentoft gerir sér mat úr hatri, bæði hatri fólks sem ræður ekki við sig og lætur til skarar skríða að hætti morðingja, og hatri sjálfumglaðra netverja, sem telja sig æðri lögum, í glæpasögunni Himinópinu, 12. bókinni um Malin Fors lögregluforingja, og hittir í mark að vanda.

Öllum verða á mistök og þar er Malin Fors ekki undanskilin. Hún kallar ekki allt ömmu sína, en á sama tíma og hún glímir við harðsvíraða glæpamenn á hún í harðri baráttu við sjálfa sig, sér jafnvel samsvörun í mistökum sínum og afbrotamanna. Þessi sjálfsskoðun er sem líflína í söguþræðinum og heldur lesandanum við efnið, en hún er ekki ný af nálinni. Mons Kallentoft hefur byggt á þessari tengingu í fyrri bókum og hamrar eðlilega járnið meðan það er heitt.

Samskiptaforrit á netinu hafa þotið upp sem gorkúlur, en þar er ekki allt sem sýnist. Persónur í bókinni hafa kynnst því og frásagnirnar ríma við sambærilegar upplifanir sumra í raunheimum. Önnur áhrifarík tenging við lesendur, því ekki er allt gull sem glóir og of seint er að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í.

Sjálfsagt jafnast ekkert á við móðurástina, en mynd hennar getur birst með misjöfnum hætti. Enn og aftur snertir Mons Kallentoft viðkvæma strengi og þó sínum augum líti hver á silfrið og bregðist misjafnlega við, eru skilaboðin skýr. Mæður eru tilbúnar að vaða eld og brennistein fyrir börn sín og þá skipta lög og réttur engu máli, en eru þær hafnar yfir lög eins og sjálfumglaða fólkið á netinu telur sig vera?

Auðvelt er að dæma aðra en erfiðara að líta í eigin barm og reyna að læra af mistökunum. Áskoranir leynast víða, hættur og hindranir, og þó fólki skriki fótur eru það ekki endalok. Malin Fors veit upp á sig sökina, hún er óvirkur alkóhólisti og þó hún vilji stundum helst detta ærlega í það og gleyma stað og stund er hún sterkari á svellinu en það og lætur hillingar ekki blinda sig. Batnandi manni er best að lifa og þessi nálgun Mons Kallentofts fær eflaust marga lesendur til þess að hugsa á sömu nótum og Malin Fors, iðrast gjörða sinna og lofa bót og betrun. Himinópið er ekki aðeins góð spennusaga með vísun í sálfræði og félagsfræði heldur þörf áminning um hættur sem leynast víða.