Ásdís Sigríður Þorsteinsdóttir fæddist á Eyrarlandi á Akureyri 3. desember 1929. Hún lést á heimili sínu í Austurbyggð 17 á Akureyri 25. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Þuríður Guðmundsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson. Ásdís eignaðist tvö systkini sem bæði dóu í fæðingu.

Þann 4. nóvember 1950 giftist Ásdís eiginmanni sínum, Páli Benedikt Marteinssyni, f. 11.9. 1926 í Glerárholti í Glerárhverfi, d. 7.5. 2011. Foreldrar hans voru Kristín Sigurðardóttir og Marteinn Pétursson. Börn Ásdísar og Páls eru: 1) Sæmundur Örn, f. 10.12. 1949, giftur Guðbjörgu Þóru Ellertsdóttur, f. 19.7. 1950. 2) Þorsteinn Pétur, f. 5.9. 1951, giftur Bergþóru Björk Búadóttur, f. 11.5. 1953. 3) Kristinn Sigurður, f. 30.3. 1955, hans kona er Sólveig Alfreðsdóttir, f. 11.1. 1954. 4) Marta Þuríður Pálsdóttir, f. 3.12. 1961. Barnabörnin eru 11, langömmubörnin 26 en eitt er látið og langalangömmubörnin eru 12.

Ásdís var verkakona og starfaði á Gefjun og hjá K. Jónssyni ásamt því að sinna barnauppeldi og halda stórt heimili.

Útför Ásdísar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 9. mars 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Meira á:
https://www.mbl.is/andlat

Ein af mínum fyrirmyndum og leiðtogum í lífinu hefur nú kvatt þessa jarðvist, södd ævidaga og löngu búin að ganga frá sínum málum í sátt við Guð og menn. Siggu, eins og við í minni fjölskyldu kölluðum hana, höfum við þekkt alla ævi og ætíð ríkt mikil væntumþykja á milli fjölskyldna okkar sem aldrei hefur borið skugga á. Enginn veit með vissu hvernig þessi kynni hófust, en Sveinbjörg amma mín og Þura móðir Siggu voru vinkonur og síðan hefur sá vinskapur þróast og vaxið og dafnað mann fram af manni. Við Marta erum góðar vinkonur og höfum gjarnan verið spurðar hver skyldleiki okkar sé og höfum við þá jafnan svarað því til, að ömmur okkar hafi verið fermingarsystur.

Hjá Siggu var alltaf nóg pláss, nóg að borða og nóg hjartarými. Heimili þeirra Palla stóð jafnan öllum opið og hlýr faðmur, fallegt bros, umhyggja, kleinur, soðið brauð, rækjusalat og græna tertan, minningarnar hrannast upp.

Ég fékk að búa hjá þeim hjónum um tíma og eftir það varð ég eins og hluti af fjölskyldunni. Börnin mín kölluðu hana ömmu og þótti henni vænt um það og þó að hennar eigin ömmubörn væru fjölmörg, þá gat hún alltaf á sig blómum bætt.

Hún sýndi fólki af einlægni áhuga, samgladdist því og syrgði með því. Hún var óspör á hrósið en gat líka alveg látið fólk heyra það, ef henni fannst það ósanngjarnt eða vaða í villu síns vegar.

Sigga átti erfiða æsku og sagði mér ýmsar sögur af því og líf hennar var ekki alltaf dans á rósum. Hún valdi að lifa lífinu lifandi, nota hvorki áfengi né tóbak og vera jákvæð og leggja öðrum lið ef hún mögulega gæti.

Ég kveð elsku Siggu mína með þakklæti í hjarta fyrir að hafa átt vináttu hennar og umhyggju í rúm sextíu ár. Elsku stóra og góða fjölskylda, mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra. Minningin um góða konu og ættmóður lifir.

Hrefna Björg og fjölskylda.