Carrie Mae Weems
Carrie Mae Weems
Bandaríska myndlistarkonan Carrie Mae Weems hlýtur hin virtu Hasselblad-verðlaun í ár. Þau eru árlega veitt ljósmyndara sem hefur haft víðtæk áhrif og nemur verðlaunaféð tveimur milljónum sænskra króna, jafnvirði 27,6 milljóna króna

Bandaríska myndlistarkonan Carrie Mae Weems hlýtur hin virtu Hasselblad-verðlaun í ár. Þau eru árlega veitt ljósmyndara sem hefur haft víðtæk áhrif og nemur verðlaunaféð tveimur milljónum sænskra króna, jafnvirði 27,6 milljóna króna. Að auki hlýtur Weems gullmedalíu og myndavél frá Hasselblad. Það er Hasselblad-stofnunin sem veitir verðlaunin og fer athöfnin fram í Gautaborg 13. október. Sama dag verður opnuð sýning á verkum Weems í Hasselblad-­miðstöðinni auk þess sem gefin verður út bók um listsköpun Weems.

Weems hefur í áratugi tekið á brýnum málefnum samtímans í verkum sínum, m.a. baráttu fyrir jafnrétti kynja og kynþátta og segir í tilkynningu vegna verðlaunanna að list hennar feli í sér aðgerðastefnu, sársauka og ljóðrænu.