Tillögur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir hér tillögurnar í ráðherrabústaðnum í gær.
Tillögur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir hér tillögurnar í ráðherrabústaðnum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Freyr Bjarnason freyr@mbl.is Forsætisráðherra, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra kynntu í gær tillögur sínar um að koma á nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES, með það að markmiði að íslenskur vinnumarkaður verði aðgengilegri þeim sem hingað vilja koma.

Freyr Bjarnason

freyr@mbl.is

Forsætisráðherra, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra kynntu í gær tillögur sínar um að koma á nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES, með það að markmiði að íslenskur vinnumarkaður verði aðgengilegri þeim sem hingað vilja koma.

Er þar meðal annars lagt til að reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga verði rýmkaðar og að nýju kerfi verði komið á fót sem taki mið af mannaflaþörf landsins. Þá verði stjórnsýsla einfölduð með sameiningu dvalar- og atvinnuleyfa í eitt dvalarleyfi, sem skipt verði í ólíka flokka og gefin út af Útlendingastofnun.

Þá er lagt til að umsóknarferli um dvalarleyfi verði einfaldað og gert aðgengilegra fyrir umsækjendur með því að hraða stafvæðingu þess. Muni það einnig auðvelda úrvinnslu umsókna, tryggja styttri málsmeðferðartíma, auðvelda gagnaúrvinnslu og auka yfirsýn yfir gögn um umsækjendur.

Verið að bregðast við þörf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að stjórnarsáttmálinn væri skýr um að til stæði að setja fram tillögur um atvinnuleyfi útlendinga utan EES. Niðurstaðan eftir umfjöllun ríkisstjórnarinnar hefði verið sú að leggja til kerfisbreytingu um að atvinnuleyfi fylgdi einstaklingi en ekki atvinnurekanda. Þá yrðu einnig gerðar breytingar á dvalartíma.

Þá sagði Katrín að greining Samtaka atvinnulífsins gerði ráð fyrir að þörf væri á þúsundum fólks á vinnumarkað svo vel væri. „Við erum með þessu að mæta þeirri kröfu að leyfin mæti þörfinni fyrir vinnuafl. En við vitum einnig að þetta getur breyst og þess vegna er gott að vera með sveigjanlegt kerfi,“ segir Katrín.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, sagði við mbl.is að verið væri að stíga skref inn í nútímann. Þá væri verið að reyna að tryggja samkeppnishæfni Íslands miðað við önnur lönd. Guðmundur Ingi sagði jafnframt að breytingarnar gætu t.d. fjölgað hjúkrunarfræðingum, en skortur hefur verið á þeim hérlendis.

Auðveldara að starfa hér

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði að það sem skipti mestu máli væri að hér væri fólk til þess að vaxa út úr þeim vanda sem atvinnulífið ætti við að etja. Sagði hún að tillögurnar myndu t.d. auðvelda sérfræðingum að starfa á Íslandi.

„Þarna getur fólk tekið fjölskylduna með sér, verið sjálfstæðara og jafnvel verið sjálfstæðir atvinnurekendur með nýsköpunarfyrirtæki,“ sagði Áslaug Arna. Þá verði einnig lagt til að fólk sem ljúki námi við háskóla hér fái nú þrjú ár í stað sex mánaða áður til þess að finna sér atvinnu. Það skipti máli að hér sé reynt að halda í þá þekkingu sem fólk afli sér hérlendis.

Höf.: Freyr Bjarnason