Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Forsætisráðuneytið hefur ráðið Rósu Björk Brynjólfsdóttur, varaþingmann Samfylkingarinnar, sem verkefnastjóra alþjóðamála til sex mánaða. Ráðningin tengist leiðtogafundi Evrópuráðsins, sem haldinn verður hér á landi um miðjan maí.
Óvenjulegt er að varaþingmaður stjórnarandstöðu sé ráðinn til slíkra starfa hjá ríkisstjórn, en Rósa Björk tók síðast sæti á Alþingi nú í janúar og febrúar. Ekki verður séð að ráðningarinnar hafi verið getið í frétt á vef stjórnarráðsins, en Rósa Björk greindi sjálf frá henni á félagsmiðlum um miðjan febrúar. Bryndís Hlöðversdóttir ráðuneytisstjóri hefur ekki svarað fyrirspurnum um ráðninguna, auglýsingar og umsækjendur, en nokkur afbrigði voru í ráðningarferlinu.
Eftir því sem næst verður komist var starfið upphaflega auglýst í nóvember á liðnu ári og umsóknarfrestur til 7. desember. Þar var lögð áhersla á að umsækjandi gæti hafið störf sem fyrst, alls ekki síðar en 1. janúar. Síðan virðist eitthvað hafa gerst, því 2. desember, áður en upphaflegur umsóknarfrestur rann út, var umsækjendum sent bréf frá forsætisráðuneytinu um að hætt hefði verið við ráðninguna og beðist velvirðingar á ómakinu.
Athygli umsækjenda var hins vegar ekki vakin á því, að staðan yrði auglýst aftur nokkrum dögum síðar, en þrátt fyrir að nokkuð lægi á var umsóknarfrestur til 16. janúar. Sömuleiðis var þar slegið verulega af fyrri hæfniskröfum. Þar sem áður var krafist meistaragráðu var aðeins óskað háskólagráðu sem nýttist í starfi, þar sem krafist var „framúrskarandi og víðtækrar þekkingar“ á alþjóðamálum var þekking látin duga og þar sem fyrst var óskað haldgóðrar þekkingar á Evrópumálum þótti duga að þekkingin væri einhver.
Fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn á Íslandi 16.-17. maí, en í 75 ára sögu þess hefur aðeins verið efnt til þriggja slíkra áður. 46 ríki eru í ráðinu og viðbúið að mikið umstang fylgi komu leiðtoga þeirra.