Snorri Eyþór Einarsson náði frábærum árangri á heimsmeistaramótinu í Planica í Slóveníu í 50 km skíðagöngu þegar hann hafnaði í 15. sæti.
Snorri atti í göngunni kappi við bestu skíðagöngumenn heims og hefur enginn Íslendingur náð því áður að vera í hópi 15 bestu í þessari erfiðu grein.
Rætt er við Snorra um árangurinn á íþróttasíðum Morgunblaðsins í gær og gefur það viðtal góða innsýn í það við hvað Snorri átti að etja. Snorri býr á Ísafirði og veturinn hefur verið þannig að hann hefur lítið getað æft utandyra.
„Ég held að ég geti í sannleika sagt að enginn sem ég var að keppa á móti á HM fór sjaldnar á skíði en ég í aðdraganda mótsins. Ég steig á skíðin kannski sjö sinnum allt í allt sem er ekki mikið og árangurinn eftir því er ákveðið afrek út af fyrir sig,“ segir hann í hógværu svari sínu. „Vissulega náði ég einhverjum æfingum utandyra í vetur en þær voru ekki margar og oft og tíðum þurfti ég að gera mér að góðu að æfa í ísköldum bílskúrnum heima á Ísafirði.“
Í viðtalinu kemur einnig fram að samkeppnin sé mikil og stórþjóðir í greininni eins og Norðmenn verja milljónum króna í sitt afreksfólk í skíðagöngu. „Við heima á Íslandi höfum ekki sama fjármagn og það má því alveg segja sem svo að þeir séu að keppa í allt öðrum heimi en við, allavega þessar stærstu þjóðir í skíðagöngunni,“ segir Snorri.
Ef knattspyrnulið Magna á Grenivík kæmist í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu yrði uppi fótur og fit. Að Snorri skuli hafa náð þessum árangri í skíðagöngu við þær aðstæður, sem hann hefur búið við, er einstakt.