Ingólfi Ómari datt í hug að luma að mér einni vísu að gamni og þarfnast hún ekki skýringa. Alúð ríka guð mér gaf og glaðlyndi til bóta til að hafa unun af að elska lifa og njóta. Indriði Aðalsteinsson segir á Boðnarmiði „VETUR Á NÝ“: Nú er glötuð sumarsálin, sífrar Norðri dimmum róm

Ingólfi Ómari datt í hug að luma að mér einni vísu að gamni og þarfnast hún ekki skýringa.

Alúð ríka guð mér gaf

og glaðlyndi til bóta

til að hafa unun af

að elska lifa og njóta.

Indriði Aðalsteinsson segir á Boðnarmiði „VETUR Á NÝ“:

Nú er glötuð sumarsálin,

sífrar Norðri dimmum róm.

Stutta, góða, græna nálin

glímir við sinn skapadóm.

Jón Atli Játvarðarson yrkir og ber svipmót af því að brugðið hefur til norðanáttar:

Næsta hef ég nauman tíma,

næðir kalt um aðra línu,

einnig vandi við að glíma

vatnið frýs í glasi mínu.

Kvörtun send á sól og mána,

sálarkirnur engar heitar.

Landi voru gert að grána,

gömul mer' að stalli leitar.

Hallmundur Guðmundsson fer með „Drykkjuvísu frá Kanarí“:

Ef þorstinn sækir á út í eitt

er alltaf gott að vita

að teyga skal glas að toppi steytt

- í töttögu og fimm stiga hita.

Páll Imsland skrifar: „Það lyftir andanum örlítið að fífla saman einni limru af og til, þó hún vegi kannski ekki mikið í skáldskaparkílóum. Ég held það slagi hátt í eina meðalstóra krossgátu, þær eru svo slappar orðnar. Hér er ein“:

Sigvarður séra á Horni,

sem svaraði nafninu Forni,

fékk ágætis pest

fyrir áttræðan prest

og var dauður á mánudagsmorgni.

Þórunn Hafstein svaraði með „Bull limru“:

Það var eitt sinn kerling frá Kletti,

var kjáni’ og sig fetti og bretti.

Stundum hún kaus

að standa á haus,

var stolt er hún upp um sig fletti.

„Gullkálfur“ er limra eftir Guðmund Arnfinnsson:

Einn tarf átti Tóta frá Mel.

„Ég tuddann“ ,hún kvað, „ekki sel

fyrir silfur né gull,

þótt menn segi það bull,

hann er seinn, en hann gerir það vel“.

Hafsteinn Reykjalin Jóhannesson um norðurljósin:

Útlendingar ætíð hér,

undur þessi mynda.

Það sem fyrir augum er,

undir fögnuð kynda.
Einlægt gefið, óvænt hrós,
yljar í kuldahrinu.
Ótal hógvær, lítil ljós,
lýsa í skammdeginu.
Þórunn Hafstein yrkir „Knús“:
Knúsið þerrar trega tárin,
treystir böndin kær.
Læknar einnig sorgar sárin,
sanna ást það ljær.
Steinn G. Lundholm segir, að þessi hafi orðið til á Gran Canaria rétt í þessu:
Sæl í letilífi við
liggjum, meiri hitinn.
Sólin bakar bak og kvið,
brúnan gefur litinn.
Um sauðfjárfræðing orti Sturla Frriðriksson:
Hann skálmar með skaðræðis kuta
og sker alla vöðva í hluta.
Hann breddunni brá
á bein er hann sá
og nú gengur með grisju um puta.
Egill Jónasson orti á ferð um Skagafjörð:
Ljót er þessi hrossahjörð
hana vantar spikið.
Sólin skín á Skagafjörð
og skammast sín fyrir vikið.
Gömul vísa:
Nú er fjaran orðin auð,
öll í þara gróin.
Við skulum fara að reyna ´ann Rauð
og ríða ´onum bara í sjóinn.