Ríkiseignir Lindarhvoll hafði umsjón með eignum sem ríkinu áskotnuðust eftir samninga við slitabú bankanna.
Ríkiseignir Lindarhvoll hafði umsjón með eignum sem ríkinu áskotnuðust eftir samninga við slitabú bankanna. — Morgunblaðið/Þorkell
Baksvið Andrea Sigurðardóttir andrea@mbl.is Fjármála- og efnahagsráðherra stofnaði félagið Lindarhvol árið 2016 um eignir sem ríkinu áskotnuðust í kjölfar samninga við slitabú bankanna, aðrar en Íslandsbanka. Félagið lauk í reynd verkefnum sínum árið 2018. Þá hafði öllum eignum félagsins verið ráðstafað og var þá tilkynnt um fyrirhuguð slit félagsins. Þau hafa síður en svo gengið klakklaust fyrir sig, enda hafa þau ekki enn komið til framkvæmda.

Baksvið

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Fjármála- og efnahagsráðherra stofnaði félagið Lindarhvol árið 2016 um eignir sem ríkinu áskotnuðust í kjölfar samninga við slitabú bankanna, aðrar en Íslandsbanka. Félagið lauk í reynd verkefnum sínum árið 2018. Þá hafði öllum eignum félagsins verið ráðstafað og var þá tilkynnt um fyrirhuguð slit félagsins. Þau hafa síður en svo gengið klakklaust fyrir sig, enda hafa þau ekki enn komið til framkvæmda.

Tekist á um tilboðsval

Slit Lindarhvols hafa einkum tafist vegna ágreinings um sölu á Klakka, áður Exista. Árið 2016 bárust þrjú tilboð í eignarhlut Lindarhvols í Klakka, frá BLM fjárfestingum, Ásaflöt og Kviku banka fyrir hönd félagsins Frigus II. Tilboði BLM fjárfestinga var tekið og gengið til samninga þrátt fyrir andmæli Frigus II.

Árið 2020 höfðaði Frigus II mál gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu vegna sölunnar á Klakka. Málið er enn í meðferð dómstóla. Frigus II, sem er í eigu Sigurðar Valtýssonar og bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, taldi tilboð BLM fjárfestinga m.a. ekki uppfylla skilyrði útboðsins. Tilboðið væri ekki hæst að núvirði, auk þess sem félagið gerði athugasemd við að vaxtaákvæði væri bætt við kauptilboðið sem ekki hafði verið hluti af upprunalegu tilboði. Fór félagið fram á 651 milljón króna í bætur.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um aðalmeðferð málsins kemur fram að Sigurður Þórðarson, þá settur ríkisendurskoðandi, hafi látið vinna verðmat á Klakka á meðan söluferlinu stóð þar sem hluturinn var metinn á 952 milljónir króna. Aftur á móti var gengið til samninga á grundvelli tilboðs sem hljóðaði upp á 505 milljónir í útboðinu en endanlegt söluverð nam 423 milljónum vegna lækkaðs eignaverðs í kjölfar útgreiðslu Klakka til kröfuhafa. Sigurður taldi hlutinn þar með hafa verið seldan 530 milljónum undir virði. Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrir héraðsdómi í lok janúar og er von á niðurstöðu í mánuðinum. Stefnt er að því að slíta félaginu þegar búið verður að leiða dómsmálið til lykta.

Leynd um greinargerð

Sigurður Þórðarson var á sínum tíma settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols vegna vanhæfis þáverandi ríkisendurskoðanda, Sveins Arasonar, en bróðir hans, Þórhallur Arason, sat í stjórn Lindarhvols. Þegar Sveinn Arason lét af störfum vegna aldurs og nýr ríkisendurskoðandi var skipaður var vanhæfi ekki lengur til staðar og ekki lengur þörf á settum ríkisendurskoðanda. Áður en Sigurður lauk störfum vann hann greinargerð um Lindarhvol sem hann sendi ríkisendurskoðanda, fjármála- og efnahagsráðherra, Lindarhvoli, Seðlabanka Íslands og umboðsmanni Alþingis. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu til Alþingis árið 2020 um starfsemi Lindarhvols sem Sigurður gerði fjölmargar athugasemdir við í bréfi til Alþingis.

Viðskiptablaðið hefur um árabil reynt að fá greinargerð Sigurðar afhenta án árangurs. Málið er flókið en í afar einföldu máli hafnaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) fyrst beiðninni vegna sérstaks þagnarskylduákvæðis sem gilti um starfsemi Ríkisendurskoðunar en forsætisnefnd Alþingis samþykkti í apríl árið 2022 að afhenda greinargerðina eftir að hafa aflað óháðs lögfræðiálits. Í álitinu var komst að þeirri niðurstöðu að afhenda bæri skjalið, þó þannig að upplýsingar væru afmáðar sem sanngjarnt og eðlilegt gæti talist að halda leyndum. Nefndin hefur þó frestað afhendingu skjalsins vegna mótbára Ríkisendurskoðunar og hins eina stjórnarmanns Lindarhvols sem eftir er. Þessir aðilar telja úrskurð ÚNU sem tók til starfsemi Ríkisendurskoðunar, en ekki þingsins, enn gilda um skjalið í meðförum þingsins. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir