Vopn Fjölskotabyssa vafin inn í skotbelti sést hér bíða átaka í borginni Bakhmút, en harðir bardagar hafa staðið um borgina undanfarna mánuði.
Vopn Fjölskotabyssa vafin inn í skotbelti sést hér bíða átaka í borginni Bakhmút, en harðir bardagar hafa staðið um borgina undanfarna mánuði. — AFP/Anatolii Stepanov
Hratt gengur á skotfærabirgðir hersveita Rússlands og Úkraínu. Hið sama á við um sveitir Wagner sem hliðhollar eru Rússum, skotfæri þeirra virðast af skornum skammti. Eins hefur varnarmálanefnd neðri deildar þings Bretlands varað við því að…

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Hratt gengur á skotfærabirgðir hersveita Rússlands og Úkraínu. Hið sama á við um sveitir Wagner sem hliðhollar eru Rússum, skotfæri þeirra virðast af skornum skammti. Eins hefur varnarmálanefnd neðri deildar þings Bretlands varað við því að skotfærabirgðir breska hersins séu orðnar hættulega litlar, en Bretar hafa sent Úkraínumönnum gríðarlegt magn vopna og skotfæra.

Til að bregðast við þessu hefur yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins (NATO) hvatt til aukinnar framleiðslu. Tryggja verði Úkraínumönnum áframhaldandi stuðning á sama tíma og fylla verður á birgðir aðildarríkja NATO. Rússar vinna einnig að því að auka framleiðslu auk þess sem þeir freista þess að kaupa vopn og skotfæri frá Kína og Norður-Kóreu.

Ógn við breskt þjóðaröryggi

Fram kemur í nýrri skýrslu varnarmálanefndar Bretlands að það muni að óbreyttu taka Breta minnst áratug að koma sér upp nægjanlegum skotfærabirgðum á ný. Þessi staða sé ógn við þjóðaröryggi Bretlands.

Segir þar einnig að NATO hafi alvarlega vanrækt að tryggja nægar skotfærabirgðir. Vopnasendingar til Úkraínu hafi gengið hættulega á birgðir bandalagsins.

Bretar munu auka fjármagn til varnarmála strax í næstu fjárlögum í þeirri von að hægt verði að auka framleiðslu vopna og skotfæra á ný.

Þá bendir skýrslan einnig á að þótt Rússland, Úkraína og aðildarríki NATO eigi erfitt með að fylla á skotfærabirgðir sínar eigi slíkt hið sama ekki við um helsta bandamann Rússlands, þ.e. Kína. Þeir búi ekki við þvinganir og aðstæður sem dregið geta úr framleiðslu. Við bætist að vopnabirgðir Kína standa að líkindum vel.

Breskur sjálfboðaliði sem berst við hlið úkraínska hersins segir þá eiga „fullt í fangi“ með að halda víglínunni og að verulegur skortur sé á vopnum.

„Við verðum að fá hjálp. Við þurfum skriðdreka. Eins og staðan er nú þá er þetta pattstaða. Rússar virðast ekki leggja allan sinn þunga í sókn því þeir telja okkur betur vopnaða.“

Höf.: Kristján H. Johannessen