Skot Eva Margrét Kristjánsdóttir hefur samið við Keilor Thunder í Ástralíu um að leika með liðinu í sumar þegar tímabilinu lýkur hér á landi.
Skot Eva Margrét Kristjánsdóttir hefur samið við Keilor Thunder í Ástralíu um að leika með liðinu í sumar þegar tímabilinu lýkur hér á landi. — Morgunblaðið/Eggert
Eva Margrét Kristjánsdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, skrifaði á dögunum undir samning við ástralska félagið Keilor Thunder. Hún mun ganga til liðs við félagið þegar Íslandsmótinu lýkur hér á landi en liðið leikur í næstefstu deild Ástralíu, NBL1-deildinni

Körfubolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Eva Margrét Kristjánsdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, skrifaði á dögunum undir samning við ástralska félagið Keilor Thunder.

Hún mun ganga til liðs við félagið þegar Íslandsmótinu lýkur hér á landi en liðið leikur í næstefstu deild Ástralíu, NBL1-deildinni.

Eva Margrét hefur leikið með Haukum í Hafnarfirði frá árinu 2015 en hún er uppalin hjá KFÍ, sem nú heitir Vestri, á Ísafirði.

„Umboðsmaðurinn minn hefur aðeins verið að pressa á mig hvort ég væri ekki tilbúin að spila annars staðar en á Íslandi,“ sagði Eva Margrét í samtali við Morgunblaðið.

„Ég fór aðeins að líta í kringum mig og planið var að reyna að finna lið sem ég gæti mögulega spilað með, án þess að það myndi skarast við tímabilið hjá Haukum. Keilor Thunder var það sem mér fannst mest spennandi af því sem kom upp en ég fer út um leið og tímabilið klárast hérna heima. Þetta er hálfgerð sumardeild þarna í Ástralíu þannig að ég reikna með því að tímabilið úti klárist um miðjan ágúst,“ sagði Eva Margrét.

Skref upp á við

Eva Margrét verður annar íslenski leikmaðurinn til þess að spila í Ástralíu á stuttum tíma en Isabella Ósk Sigurðardóttir lék með South Adelaide Panthers síðasta sumar.

„Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu tækifæri og auðvitað að prófa að búa í Melbourne líka. Ég viðurkenni það alveg að ég hef kannski ekki fylgst neitt sérstaklega vel með þessari deild í gegnum tíðina en þegar þetta kom upp þá fór ég að kynna mér þetta betur.

Þetta er skref upp á við þannig séð og deildin er sterkari en hérna heima. Hérna heima er ég líka búin að vera að vinna með körfuboltanum en ég þarf ekki að gera það þarna úti þannig að þetta er í raun bara atvinnumennska ef svo má segja. Þetta var tækifæri sem ég gat ekki hafnað.“

Eva Margrét hefur verið viðloðandi íslenska landsliðshópinn að undanförnu en alls á hún að baki tvo A-landsleiki.

„Ég er að fara þarna út til þess að verða betri og bæta mig sem leikmaður. Vonandi mun sú reynsla sem ég öðlast þarna nýtast mér bæði með Haukum í úrvalsdeildinni og svo auðvitað með landsliðinu í komandi verkefnum.

Ég spilaði á móti bæði Ungverjalandi og Spáni í undankeppni EM og það var ótrúlega gaman að kynnast því hvernig það er að mæta svona sterkum liðum og leikmönnum auðvitað og við sem spilum hérna heima erum meðvitaðar um það að það gerir okkur að betri leikmönnum að spila erlendis.“

Jöfn í allan vetur

Eva Margrét varð bikarmeistari með Haukum á dögunum en liðið er sem stendur í harðri baráttu við Keflavík um deildarmeistaratitilinn.

„Ég er mjög spennt fyrir lokametrunum á tímabilinu hérna heima. Deildin er búin að vera frekar jöfn í allan vetur og það eru nokkur lið sem munu berjast um deildarmeistarabikarinn alveg fram í lokaumferðina. Okkar stærsta markmið er að verða Íslandsmeistari en auðvitað væri gaman að vinna þrefalt.

Við tökum hins vegar einn leik fyrir í einu og það er mikilvægt að fara ekki fram úr sér. Tímabilið í fyrra fór ekki eins og við vildum og það sat aðeins í okkur. Við ætlum okkur því stóra hluti núna,“ bætti Eva Margrét við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason