Erna Bjarnadóttir
Undanfarið hefur framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) verið á faraldsfæti um höfuðborgina m.a. til að hitta fjármálaráðherra og matvælaráðherra og krafist breytinga tollaumhverfi landbúnaðarvara. Allt er þetta gamalt efni með nýjum formerkjum. Ein hugmynd framkvæmdastjórans er að breyta framkvæmd á útboði tollkvóta fyrir landbúnaðarafurðir. Ótrúleg röksemdarfærsla á borð borin í því sambandi. Þannig fullyrðir framkvæmdastjórinn í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 2. mars sl. að innlendir framleiðendur hafi „…misnotað útboðsfyrirkomulagið til að hækka verð á innflutningi og hindra þannig samkeppni við sjálfa sig“. Óhjákvæmilegt er að taka þetta til skoðunar.
Órökstuddar fullyrðingar hafa ekkert gildi
Staðhæft er að innlendar afurðastöðvar hafi „misnotað útboðsfyrirkomulagið til að hækka verð á innflutningi og hindra þannig samkeppni við sjálfa sig“. Nú er það svo að fullyrðingar sem þessar verða ekki endilega sannar við það að þær séu endurteknar aftur og aftur. Þrátt fyrir að greinarhöfundur telji sig fylgjast vel með skrifum framkvæmdastjórans hefur sú sem þetta ritar hvergi séð lagðar fram tölur þessu til stuðnings hvað þá hagfræðilega greiningu á þeim. En þessar fullyrðingar hafa náð eyrum fólks og jafnvel Samkeppniseftirlitið studdist við söguburð af þessu tagi í bréfi sem sent var matvælaráðuneytinu í desember 2022. Inntak þess komst síðar inn í sali Alþingis og í aðsenda grein þingmanns Viðreisnar í Morgunblaðið. Enginn þeirra sem þarna eru nefndir hefur lagt fram töluleg gögn máli sínu til stuðnings heldur virðast allir styðjast við fyrrnefndan söguburð FA.
En hvað er þá hið sanna í málinu?
Hið sanna og rétta birtist í bréfi sem Skatturinn ritaði framkvæmdastjóra FA þann 31. janúar 2023 sem er svar við formlegu erindi FA þar sem spurt var um nýtingu á tollkvótum árin 2020, 2021 og fyrstu átta mánuði ársins 2022. Í bréfinu kemur fram að afurðastöðvar hafa nýtt tollkvóta sína með örfáum undantekningum og því auðvelt að vísa ásökunum um kerfisbundna misnotkun til föðurhúsanna.
Það sem hins vegar er áhugavert er að af þeim 27 fyrirtækjum sem fengu úthlutað tollkvótum á umræddu tímabili voru 18 fyrirtæki sem nýttu ekki úthlutaðan tollkvóta í einhverjum tilvikum úthlutun sem á þeim tíma sem svarið tekur til. Af þessum 18 fyrirtækjum eru 13 sem hafa innflutning og heildsölu á matvörum að aðalstarfsemi, teljast ekki til „innlendra framleiðenda“ og eru jafnvel innan vébanda FA.
Hverjar geta skýringarnar verið?
FA lætur einnig hjá líða að nefna að á umræddu tímabili geisaði heimsfaraldur eins og öllum er kunnugt. Ferðamönnum fækkaði og erfiðara var að útvega ýmsar vörur erlendis frá. Því gátu margar viðskiptalegar ástæður verið fyrir því að fyrirtæki, þ.m.t. félagsmenn FA, nýttu illa eða ekki sína tollkvóta. Er þess skemmst að minnast að FA óskaði sjálft eftir því við matvælaráðherra að framlengja tímabil til ráðstöfunar tollkvóta á fyrri hluta árs 2022, einmitt af slíkum ástæðum. Varð ráðherra við þeirri beiðni í apríl 2022. Það þarf því varla að koma á óvart að á þessu tímabili finnist dæmi um að fyrirtæki hafi endað í þeirri stöðu að sitja uppi með ónotaða tollkvóta sem jafnvel hafði verið greitt fyrir.
Að því virtu að FA hefur nú undir höndum mánaðargamalt svar frá Skattinum við eigin fyrirspurn um nýtingu tollkvóta er með ólíkindum að haldið sé áfram dylgjum um kerfisbundna misnotkun á núgildandi fyrirkomulagi, á hendur „innlendum framleiðendum“. Málflutningur Félags atvinnurekenda er í raun með öllu óboðlegur. Má segja að undrum sæti að hægt sé að gera út „heila ferðaskrifstofu“ í ferðir milli ráðherra til að bera þennan málflutning á borð.
Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá MS.