Kristjana Valgeirsdóttir
Kristjana Valgeirsdóttir
Sleggjudómar formanns VR um mig, félagsmann VR, voru aldrei byggðir á neinum haldbærum rökum. Sjónarmið hans var brot á öllum siðareglum í stéttarfélagi.

Kristjana Valgeirsdóttir

„Til félagsmanna innan raða ASÍ vil ég segja að átökin innan Eflingar snúast um hatramma valdabaráttu. Valdabaráttu sem á rætur sínar að rekja til SALEK-hópsins, sömu fjölmiðla og standa fremstir í því að tala niður baráttu vinnandi fólks. Valdabaráttu sem snýr að ásökunum um fjárdrætti og aðra glæpi sem innihalda lítið annað en efni í góðar fyrirsagnir sérhagsmunamiðla. Valdabaráttu sem er drifin áfram af botnlausu og óútskýrðu hatri.“

Ofangreind tilvitnun er úr grein sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifaði á Vísi.is 9. mars 2022. Greinin fjallar nánast öll um átök sem hann lýsir innan ASÍ og verður ekki umræðuefni hér.

Vakin er hins vegar hér athygli á því að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, velur þá leið að tengja réttindabaráttu nokkurra starfsmanna Eflingar við það sem hann kallar valdabaráttu innan ASÍ. Enginn fótur var fyrir þessum fullyrðingum. Orsakasamhengið var augljóslega ekkert. Hvergi kemur fram hvernig við starfsmenn Eflingar tengdumst valdabaráttu sem hann nefnir. Ekkert okkar hefur tengst stjórnmálabaráttu eða verið félagslega kjörið innan stéttarfélaga og við látið þannig að okkur kveða með pólitískri baráttu innan félaga ASÍ, VR eða Eflingar.

Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR. Einn af fyrrverandi starfsmönnum Eflingar sem hann vísar hér til er félagsmaður VR og er undirrituð, Kristjana Valgeirsdóttir. Ég hafði á þessum tíma verið félagsmaður VR í hartnær 40 ár. Ég átti mér áratugum saman feril sem gjaldkeri Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og síðar fylgdi ég félaginu inn í sameiningarferil eldri félaga sem sameinuðust í Eflingu.

Það má vel halda því fram að ég hafi ásamt félögum mínum átt farsælan feril sem gjaldkeri Dagsbrúnar og síðar fjármálastjóri sameinaðra stéttarfélaga, síðast Eflingar – stéttarfélags um 18 ára skeið. Ég blandaði mér aldrei í félagsmál stéttarfélaganna eða samtaka þeirra. Skipti mér aldrei af deilum um SALEK. Ég hef aldrei nokkurn tímann skipt mér af meintri valdabaráttu innan ASÍ. Aldrei voru gerðar athugasemdir við starf mitt hjá Eflingu eða Dagsbrún og endurskoðendur fyrirtækisins Deloitte sem enn starfar fyrir Eflingu luku alla tíð lofsorði á störf mín sem gjaldkera og fjármálastjóra.

Það er ekki fyrr en Sólveig Anna Jónsdóttir varð formaður Eflingar og Viðar Þorsteinsson varð framkvæmdastjóri sem þau hófu skipulagða aðför að mér þannig að ég hrökklaðist í veikindaleyfi og komst vegna veikinda og vanlíðunar eftir starfstíma undir þeirra stjórn aldrei til starfa að nýju hjá Eflingu.

Formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, taldi sér sæmandi að lýsa því sjónarmiði sem formaður í stéttarfélagi félagsmanns VR að enginn fótur væri fyrir stefnum starfsmanna Eflingar á hendur forystumönnum félagsins. Hann tók sér stöðu gegn félagsmanni sínum í máli þar sem félagsmaðurinn er að krefjast réttinda og kjara samkvæmt kjara- og ráðningarsamningum. Þarna tók hann stöðu með öðrum formanni innan ASÍ, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem og Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdstjóra Eflingar, sem bæði hafa verið borin sökum um andlegt ofbeldi, einelti og kynbundna áreitni gagnvart starfsmönnum sínum. Þetta hlýtur að vera algerlega einstakt tilvik í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Þegar félagsmaður hefur barist fyrir réttindum sínum og kjörum árum saman og málið er komið til dómstóla, þá kveður formaður VR upp dóm í máli félagsmannsins. Þarna fór formaður VR gegn félagsmanni sínum sem hann átti að verja.

En meira en það. Formaður VR heldur því fram „að barátta starfsmanna Eflingar undanfarin ár sé hluti af valdabaráttu sem rekja megi til SALEK-hópsins og fjölmiðla sem tala niður baráttu vinnandi fólks, valdabaráttu sem drifin er áfram af botnlausu og óútskýrðu hatri“. Engar af þessum fullyrðingum er hægt að sanna með röksemdum eða tilvitnunum í ummæli eða gerðir fyrrverandi fjármálastjóra eða starfsmanna Eflingar. Tónninn í þessum ummælum er auðþekkjanlegur. Hann er sá sami og forsvarsmenn Eflingar hafa viðhaft um starfsmenn félagsins. En þessar tengingar formannsins eru út í hött.

Það er sorglegt í þessu máli að Ragnari Þór Ingólfssyni var vel kunnugt um alla málavexti í máli mínu hjá Eflingu. Ég leitaði aðstoðar VR í málinu á sínum tíma. Málið kom ítrekað inn á borð hans og forsvarsmenn VR hafa fjallað um það. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvort þetta mál mitt var nokkurn tíma rætt á stjórnarfundum í VR.

Dómur var kveðinn upp í máli mínu í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember. Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, var þar dæmd fyrir meingjörð og vonda framkomu gagnvart tveimur félagsmönnum Eflingar og einum félagsmanni VR, mér, Kristjönu Valgeirsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra.

Sleggjudómar formanns VR um mig, félagsmann VR, voru aldrei byggðir á neinum haldbærum rökum. Sjónarmið hans var brot á öllum siðareglum í stéttarfélagi. Hann tók afstöðu með Sólveigu Önnu Jónsdóttur í mannréttindabrotum hennar gagnvart starfsmönnum Eflingar.

Þessa ömurlegu afstöðu tók hann fram yfir réttindi félagsmanns sem honum bar að verja.

Allt er þetta mál honum til mikillar vansæmdar.

Höfundur er fv. fjármálastjóri Eflingar og félagsmaður í VR.

Höf.: Kristjana Valgeirsdóttir