Bjarni Haukur og SIggi Sigurjónsson ræða málin í Leifsstöð.
Bjarni Haukur og SIggi Sigurjónsson ræða málin í Leifsstöð. — Morgunblaðið/Eggert
Það sem við Bjarni höfum lagt áherslu á í samvinnu okkar er að öllu máli skiptir að það sé kjöt á beinunum.

Bjarni Haukur Þórsson og Sigurður Sigurjónsson, sem þjóðin þekkir sem Sigga Sigurjóns, hafa átt farsælt samstarf í fjölda ára í verkum eins og Hellisbúinn, Pabbinn, Afinn, Maður sem heitir Ove og Hvers virði er ég? Nú leggja þeir saman í sýninguna Pabbinn finnur afann sem frumsýnd verður 15. mars í Hörpu. Þar standa þeir í fyrsta sinn saman á sviði.

Þeir félagar eru fyrst spurðir um aðdraganda sýningarinnar og Siggi Sigurjóns verður til svara. „Ég leikstýrði Bjarna í Hellisbúanum árið 1998 og bæði sýningin og samstarfið gekk mjög vel. Það leiddi af sér ýmislegt. Bjarni byrjaði að skrifa sjálfur, þar á meðal leikritið Pabbinn sem hann lék í og ég leikstýrði. Svo eftir að hafa kynnst mér, og þar af leiðandi afanum í Sigga Sigurjóns, þá skrifaði hann leikritið Afinn og leikstýrði mér í því. Til að gera langa sögu stutta, þá skrifaði hann nýverið framhald af Pabbanum sem ætlunin var að setja á svið en ég vildi endilega blanda afanum þar inn í. Eftir að við fórum að vinna verkið endaði ég með á sviðinu og þessi tvíleikur varð til.“

Um efni leikritsins segir Bjarni Haukur: „Tveir vinir eru á leið í stutta sólarlandaferð. Þeir eru á flugvellinum og það er seinkun á vélinni. Sá eldri þjáist af flughræðslu og pabbinn er að ganga í gegnum ýmsa hluti í fjölskyldumálum. Þeir gefa hvor öðrum heilræði.“

Leikstjóri sýningarinnar er Guðjón Davíð Karlsson (Gói). „Þetta ferli hefur verið samvinna. Siggi og Gói miðluðu sínum reynsluheimi og ég fór heim og bætti við. Þannig á að vinna í leikhúsi og við hættum ekki fyrr en útkoman varð sú mögulega besta, að okkar mati,“ segir Bjarni Haukur. Báðir segja þeir það hafa verið mikinn feng að fá Góa sem leikstjóra. „Fyrir utan að vera ótrúlega hress og skemmtilegur þá er hann afar fær leikhúsmaður,“ segir Bjarni Haukur.

Sannar afaklisjur

Föðurhlutverkið kemur mjög við sögu í sýningunni en Bjarni Haukur er faðir tveggja drengja. Hvað kom honum mest á óvart við að verða faðir? „Ég var alveg úti að aka, vissi ekkert, en eftir einhver ár er maður vonandi orðinn betri í því. Það mikilvægasta við föðurhlutverkið er að vera til staðar. Að vita að börnunum líði vel og þau viti að þau hafi óskiptan aðgang að mér, þannig að þau geti upplifað sig sem öruggust í þessum heimi.“

Siggi Sigurjóns leikur afann í sýningunni en sjálfur á hann sjö barnabörn. „Ég er ríkur maður, barnabörnin eru öll vel af guði gerð og miklir vinir mínir og ég elska þau út af lífinu,“ segir hann. „Ég hafði heyrt alls konar afaklisjur um það að verða afi, að þá yrði maður svona og svona. Svo varð ég afi og þá varð ég svona, svona og svona. Nákvæmlega eins og klisjan segir til um.“

„Varðstu eins og smjör gagnvart þeim?“ spyr blaðamaður og fær svarið: „Já, algjörlega, bráðið smjör og það verður engin breyting á því – ég kann því svo vel.“

Smella saman

Um áralanga samvinnu þeirra tveggja segir Siggi Sigurjóns: „Við komum hvor frá sínum staðnum. Bjarni hefur verið mikið erlendis meðan ég hef verið í stofnanaleikhúsunum. Að upplagi erum við ólíkir og það er aldursmunur á okkur en ég held að mér sé óhætt að segja að við höfum smollið virkilega vel saman.“

„Engin spurning,“ samþykkir Bjarni Haukur. „Ég held líka að við séum með líkan húmor og höfum svipaðan smekk fyrir því hvernig á að segja sögur í leikhúsi.“

Samvinna þeirra hefur verið mjög gjöful og vinsældirnar ótvíræðar, eins og tölur yfir áhorf og miðasölu sýna glöggt. Þeir eru spurðir hvort þeir finni fyrir því að það að vera skemmtilegur og fyndinn þyki kannski ekki fínt í öllum menningarkreðsum.

„Þegar ég var að byrja í þessum bransa þá var ákveðinn hópur sem leit niður á skemmtikrafta og kallaði þá gaulara. Þetta viðhorf er ekki lengur við lýði,“ segir Siggi Sigurjóns. „Það sem við Bjarni höfum lagt áherslu á í samvinnu okkar er að öllu máli skiptir að það sé kjöt á beinunum. Við höfum verið að fjalla um manneskjur, börn og lífið sjálft. Við höfum ekki bara áhuga á því að láta fólk hlæja heldur viljum við búa til notalega stund þar sem fólk kinkar kolli til okkar annað slagið.“

Aldrei á vísan að róa

Eru þá einhvers konar skilaboð í Pabbinn finnur afann? „Fyrst og fremst eru skilaboðin í verkinu þau að ef maður vill að fólkinu sem maður elskar líði vel þá er nauðsynlegt að maður sé sjálfur í jafnvægi. Verkið fjallar ekki síst um mikilvægi þess að hreinsa til hjá sjálfum sér og góður vinskapur getur nýst í því,“ segir Bjarni Haukur.

Siggi Sigurjóns bætir við: „Vinskapur kemur mjög mikið við sögu í þessu verki. Við heitum reyndar Siggi og Bjarni í leikritinu og það má alveg sjá það sem vissa vísun í okkar prívat vinskap. Boðskapur verksins getur líka verið: Ræktaðu vinskapinn.“

Svo kemur að frumsýningu og gagnrýni. „Maður veit aldrei fyrirfram hvernig viðbrögðin verða. Þetta er það sem maður vinnur við og ég hef gert í rúm fimmtíu ár, “ segir Siggi Sigurjóns. Hann segist ekki taka gagnrýni inn á sig. „Ég hef örugglega tekið hana inn á mig þegar ég var yngri en ekki í seinni tíð. Ég reyni að hlusta á gagnrýni, læra af henni og sigta út hvað skiptir máli. Ég læt gagnrýni ekki pirra mig. Eins og ég segi, ég hlusta á hana, ekki bara frá þeim sem hafa atvinnu af því að gagnrýna heldur líka frá fólki almennt. Það er nauðsynlegt í okkar starfi.”

Bjarni Haukur tekur undir þetta. „Þegar ég var að byrja tók maður gagnrýni mjög bókstaflega en með árunum er hún farin að skipta minna máli. Það skiptir meira máli hvernig manni líður með það sem maður er að gera.” Siggi Sigurjóns bætir við brosandi: „En auðvitað viljum við góða gagnrýni. Mér finnst hundleiðinlegt að fá vonda gagnrýni. Það hefur reyndar oft gerst en ég er bara búinn að gleyma því!“

Miðað við fyrri reynslu mega þeir félagar búast við góðum viðtökum. Seldir miðar á leiksýningar þeirra og kvikmyndina Afinn eru yfir 300.000 á Íslandi og sjónvarpsáhorf á bíómyndina og leiksýningar þeirra er í svipaðri tölu.

Siggi Sigurjóns ítrekar þó að aldrei sé á vísan að róa. „Í þessu fagi okkar er maður alltaf á byrjunarreit og veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við vonum það besta og leggjum okkur alla fram. Við viljum allavega að verkið snerti við fólki, þess vegna erum við nú að þessu.“