Sakborningar Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Landsréttur staðfesti í gær frávísun hryðjuverkamálsins.
Sakborningar Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Landsréttur staðfesti í gær frávísun hryðjuverkamálsins. — Morgunblaðið/Eggert
Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um að vísa hryðjuverkamálinu svokallaða frá. Er það gert í ljósi þess að miklir ágallar eru á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi þeirra Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um að vísa hryðjuverkamálinu svokallaða frá. Er það gert í ljósi þess að miklir ágallar eru á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi þeirra Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar. Einn dómari af þremur vildi að frávísunarúrskurður héraðsdóms yrði felldur úr gildi.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. febrúar var tveimur liðum ákærunnar gegn Sindra og Ísidóri vísað frá. Í ákæruliðunum tveimur er Sindra gefið að sök tilraun til hryðjuverks og Ísidóri gefið að sök hlutdeild í tilraunarbroti með Sindra. Snertir þessi frávísun því ekki seinni liði ákærunnar sem snúa að vopnalagabroti og stórfelldum vopnalagabrotum, ásamt fíkniefnabroti.

Í úrskurðinum segir að ákæruvaldinu hafi átt að vera unnt að tilgreina mun skýrar og nákvæmar í ákæru hvaða orðfæri og yfirlýsingar í samskiptum tvímenninganna sýndu að Sindri Snær hefði tekið ákvörðun um hryðjuverk. Þá sé enga frekari lýsingu eða útlistun að finna í ákæru á ætluðum hvatningarorðum og undirróðri Ísidórs.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs, segir niðurstöðu Landsréttar ekki hafa komið á óvart. Hann gerir ráð fyrir því að hryðjuverkaþætti málsins sé lokið með endanlegum fullnaðarsigri.

„Auðvitað er það tæknilega hægt fyrir ákæruvaldið að gefa út nýja ákæru þar sem þeir ná utan um þetta en ég sé ekki hvernig það er hægt,“ segir Sveinn Andri.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segist ekki eiga von á því að frávísun Landsréttar verði kærð til Hæstaréttar. Hann segir næstu skref eftir að búið verði að skoða úrskurðinn að meta hvort látið verði staðar numið eða gefin verði út ný ákæra.

Enginn hjá embætti ríkislögreglustjóra mun tjá sig frekar um hryðjuverkamálið á meðan það er á borði héraðssaksóknara, að sögn Gunnars Harðar Garðarssonar, samskiptastjóra ríkislögreglustjóra. Þá mun Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri ekki tjá sig yfir höfuð vegna tengsla föður hennar við málið.