Guðrún Halldóra Oddsdóttir, Dóra, fæddist 25. september 1951 í Miðfirði á Langanesströnd. Hún lést 8. febrúar 2023 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldrar hennar voru Oddur Vilhelm Bjarnason, f. 4.11. 1918, d. 25.5. 1980, og Sólveig Klara Sigríður Eiríksdóttir, f. 2.12. 1910, d. 19.10. 1992, bændur í Miðfirði.

Guðrún Halldóra giftist Jóhanni Jóhannssyni, f. 13. júlí 1952. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Oddur Vilhelm, f. 8 maí 1974, fyrri eiginkona Odds er Rannveig Erlingsdóttir, eignuðust þau Eirík Óskar 28. apríl 1999, maki hans er Egill Friðriksson. Eiginkona Odds er Jóna Fríða Kristjánsdóttir, f. 26. ágúst 1973, átti hún fyrir dótturina Kristu Eik Harðardóttur, f. 23. mars 2001. 2) Svanur Freyr, f. 4. júlí 1976, kvæntur Hjálmfríði Björk Bragadóttur, f. 13. maí 1969, börn þeirra eru Halldóra Marín, f. 20. september 1999, Rebekka Rut, f. 23. september 2000 og Ísak Máni, f. 6. apríl 2005. Fyrir átti Hjálmfríður dæturnar Andreu Björk Möller, f. 12. desember 1989, maki hennar er Guðni Þór Jóhannsson, barn þeirra er Aldís Klara, og Rósu Margréti Möller, f. 8. júní 1993, maki hennar er Daníel Gíslason, börn þeirra eru Pétur Freyr og Elmar Aron. 3) Sólveig Klara, f. 14. febrúar 1978, gift Sveini Guðnasyni, f. 20. mars 1976. Synir þeirra eru Andri Björn, f. 9. júní 1998, Bjarki Freyr, f. 21. apríl 2000 og Guðni Jóhann, f. 23. október 2001. Maki Andra Björns er Emma Sæunn Blomfeldt og eru börn þeirra Egill Örn og Marín Lea. 4) Gunnar Ingi, f. 24. janúar 1979, kvæntur Eddu Hrund Austmann Harðardóttur, f. 8. febrúar 1979. Börn þeirra eru Karel Bergmann, f. 23. maí 1998, móðir hans er Halldóra Guðbjörg Sigtryggsdóttir, Líf Austmann, f. 19. febrúar 2010, Saga Austmann, f. 22. júní 2012, Vaka Austmann, f. 28. september 2013 og Hrói Austmann, f. 24. febrúar 2017. Maki Karels Bergmanns er Lovísa Lóa Annelsdóttir og eiga þau dæturnar Dalíu Rós og Huldísi Maríu.

Systkini Guðrúnar Halldóru eru Eiríkur, f. 18.12. 1941, d. 24.3. 1988 og Jón Marinó, f. 30.6. 1948.

Eftir að skólagöngu Guðrúnar Halldóru lauk lá leiðin á vertíð í Sandgerði. Guðrún Halldóra og Jóhann bjuggu fyrstu árin í Keflavík og vann Dóra m.a. á sjúkrahúsinu þar en fluttu svo til Bakkafjarðar þar sem þau bjuggu til 2001.

Á Bakkafirði stunduðu þau hefðbundna trilluútgerð og hófu svo síðar sína eigin fiskverkun. Guðrún Halldóra vann einnig ýmis önnur störf, s.s. í saltfiskvinnslunni í þorpinu. Þá gegndi hún ýmsum trúnaðarstörfum. Samhliða þessu annaðist hún stórt æðarvarp á Miðfjarðarjörðinni. Árið 2001 fluttist hún til Hafnarfjarðar og hóf störf hjá lyfjafyrirtækinu Actavis en fór öll sumur austur í Miðfjörð til að sinna æðarvarpinu. Eftir að hún lét af störfum flutti hún til Akureyrar en dvaldi ávallt sumarlangt í Miðfirði við umönnun æðarvarpsins, allt fram á síðasta haust.

Útför Guðrúnar Halldóru fór fram frá Höfðakapellu hinn 20. febrúar 2023.

Gengin er góð kona. Það eru eftirmæli sem hafa komið í huga margra. Kona sem í gegnum allt sitt líf leitaðist við að setja sjálfa sig í annað sæti og hafa auga á því hvernig hægt væri að bæta líf annarra. Ég er fyrir ekkert þakklátari en að hafa átt þig sem móður og hafa verið stuðningur og hvatning í öllum verkum. Sem barn að hafa átt góða fyrirmynd sem kenndi réttsýni og sanngirni og vakti fróðleiksfýsn, áhuga á lestri og samfélagslegum málefnum.

Við börnin munum öll eftir þverhandarþykkum bindum af sveitarómansinum Dalalífi eftir Guðrúnu frá Lundi, sem þú last aftur og aftur, svo oft að það vakti með okkur börnunum mikla forvitni að vita hvað væri svona merkilegt við þessar þykku bækur. Á endanum vorum við líka búin að ráðast í að lesa bækurnar allar. Að hverfa á vit ævintýra feðganna Jóns og Jakobs á Nautaflötum hafa verið þér kærkomin hvíld í amstrinu með okkur börnin, baslið í útgerðinni og öðru sem á herðum þínum hvíldi, sem var margt.

Eftir brottflutning frá Bakkafirði fluttum við saman til Hafnarfjarðar. Ég fór í háskólann en þú byrjaðir að koma aftur undir þig fótum í nýju umhverfi fjarri sveitinni, gömlum vinum og kunningjum. Tímarnir sem við áttum saman í Hafnarfirði voru einstaklega góðir. Þú hélst áfram að sinna æðarvarpinu í Miðfirði í sumarfríum. Enginn skilur enn hvernig þú hafðir orku í þetta allt.

Gleði þín yfir því sem vel gekk var óskapleg hvatning fyrir mig, ekki bara í námi heldur öllum störfum síðar. Gleðitíðindin urðu mörg, Edda kom inn í líf okkar og þú tókst henni svo einstaklega vel. Þú gast ferðast og minnisstæð er ferðin okkar til Frakklands og Mónakó. Svo fjölgaði barnabörnunum, sem héldu mikið upp á ömmu Dóru og ungana hennar.

Eitt vorið er æskuheimilið var horfið og höggvið var af þeim sem hlífa skyldi, hvergi rúm í húsi fyrir konuna sem hafði gert svo mikið fyrir aðra gegnum árin, var komið að börnunum að stíga upp. Á sjávarkambinum í Miðfirði reis, eins og hendi væri veifað, nýtt heimili í sveitinni. Það er mikið ævistarf sem þú skilur við þig á Miðfjarðarjörðinni. Það verður aldrei sama tilfinningin að koma þangað en þú stendur ekki á pallinum með útréttan arminn.

Þegar þú varðst þú sjötug var auðvitað afstaða þín gagnvart því hvernig því ætti að fagna, af þínu alkunna lítillæti, að það tæki því ekki að vera með neitt tilstand í kringum svoleiðis. En ég er óskaplega feginn að hafa ákveðið að fara norður og að við bræður skyldum láta vera dálítið tilstand. Ég held þér hafi ekki þótt það leiðinlegt og það skóp dýrmætar minningar.

Fjarlægðin milli okkar og lítillæti þitt gerði það að verkum að erfitt var að átta sig á því hve alvarlega veik þú varst orðin sl. haust. Því miður var sjúkdómurinn sem þá greindist vægðarlaus. En þú tókst þessu öllu af sama hugrekki og æðruleysi og þú sýndir alltaf þegar móti blés. Kallið kom í byrjun febrúar, nú ertu lögst til hinstu hvílu, samverustundirnar verða ekki fleiri. Eftir sitja dýrmætar minningar um bestu móður og ömmu barna sem hægt var að óska sér.

Guð geymi þig.

Gunnar Ingi.

Elsku hjartans Dóra. Ég fékk að þekkja þig í rétt rúm 15 ár sem er líka lengd sambands míns við son þinn Gunnar, nú eiginmann minn. Áður en ég hafði hitt þig í persónu skynjaði ég fljótt að þið Gunnar áttuð mjög sterkt og gott samband sem var í mikilli rækt. Ég var mjög þakklát þegar ég fékk að verða hluti af því tríói sem við síðar mynduðum sem gaf góðan samhljóm. Þegar ég fékk fyrsta boð heim til þín höfðum við Gunnar einungis verið saman í þrjá mánuði en ég fann strax þegar ég steig inn á þitt heimili að það var góður staður að vera. Það var hlýjan, hefðirnar, íslensku kræsingarnar, samfélagsspjallið, ástin á náttúrunni, dýrum og mönnum og okkar sameiginlega sterka réttlætiskennd sem hitti mig beint í hjartastað. Þínar sterku rætur í sveitina og starf þitt sem æðardúnsbóndi uppfyllti á sinn hátt draum sem ég átti sem lítil stelpa, að giftast bónda og gerast bóndakona. Við Gunnar fjárfestum saman í íbúð þegar samband okkar var einungis fimm mánaða. Þá varst þú fremst í röð að bjóða fram ómetanlega aðstoð þó þinn hagur hafi ekki verið sá sterkasti. Þegar þú bjóst í Reykjavík þá varst þú tíður gestur að gæta barna og aðstoða á heimilinu þegar nýir foreldrar voru að koma undir sig fótum.

Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Við fengum oft að njóta lengri samvista þegar þú komst að heimsækja okkur frá Akureyri eða við renndum norður til þín. Við fengum líka að hafa þig með í bústaða-, hjólhýsa- og utanlandsferðir. Eins komum við næstum árlega til þín í varpið í Miðfirði. Þú varst alltaf höfðingleg heim að sækja. Ævinlega var öllu tjaldað til, fang barnabarnanna fyllt með gjöfum og þú meira segja vékst úr rúmi svo betur færi um hjónakorn með litla gríslinga. Þú varst amman sem öll börn dreymir um. Þú prjónaðir sokka, vettlinga og peysur á börnin, gafst þér alltaf góðan tíma til að spjalla, spila eða leysa gátur, sendir alltaf gjafir á afmælisdögum, bakaðir og sást til þess að frystirinn væri alltaf fullur af ís fyrir litla fólkið. Þó við höfðum þurft að venjast því að sjá þig ekki nema lítinn hluta úr ári þá er tilhugsunin um tilveruna án þín óhugsandi. Og þó þú hafir verið veik síðustu árin þá steigst þú alltaf aftur úr rekkju og hristir af þér veikindin. En í þetta skipti fékkst þú óvæginn dóm. Þú varst baráttukona þó þú hafir ætíð verið raunsæ og sýnt mikið æðruleysi fram á hinsta dag. Þú kvaddir á afmælisdaginn minn sem var auðvitað mjög sárt en ég ákvað að sú hending væri skilaboð til mín að ég skyldi passa son þinn og barnabörn fyrir þig. Ég mun sakna svo ótrúlega margs sem fæddist með þér. Við lofum að gera okkar besta til að viðhalda því blíða og góða andrúmslofti sem var í kringum þig. Minningin um allar dásamlegu stundirnar lifir og við reynum að tileinka okkur mildi þína sem þú ávallt sýndir.

Þín tengdadóttir,

Edda.

Elsku amma.

Ó, hvað það er sorglegt að við fáum ekki að sjá þig meir. Þú hefur alltaf verið svo góð við okkur og sýnt lífi okkar mikinn áhuga. Þú hefur passað okkur svo vel og faðmað. Þú varst alltaf til í að leika við okkur, spjalla og kenna okkur allskonar. Þú hefur gefið okkur dýrmætar gjafir og fullt af góðgæti. Akureyri og sveitin verða aldrei söm án þín. Við munum gæta hagans, fóstra litlu æðarunganna og varðveita tengslin okkar við sveitina. Við munum aldrei gleyma þér elsku amma. Við vonum að þú sért á góðum stað.

Líf, Saga, Vaka og Hrói.

Elsku Dóra. Kveðjustundin er komin og það er erfitt að finna nógu góð og falleg orð til þín. Hver minning um þig er dýrmæt perla. Þú varst með rólega og góða nærveru, víðlesin, skarpgreind, mikill húmoristi, hafðir mjög gaman af allri sögu og kunnir ógrynni af þeim. Höfðingi heim að sækja og ótrúlega örlát, traust, skemmtileg, kærleiksrík og mögnuð kona. Þú dróst alltaf það jákvæðasta fram í öllum og áttir mjög auðvelt með að lynda við fólk. Fólki leið vel í kringum þig því þú hafðir yndislega nærveru.

Okkur þótti mjög vænt um þig því þú varst með stórt og göfugt hjarta, mér liggur við að halda að það hafi verið úr skíragulli. Við vorum svo heppin að fá þig inn í líf okkar þegar Edda systir og Gunnar sonur þinn urðu hjón. Sumar eitt vorum við Svavar að ferðast um landið með mömmu og Heiðari og okkur langaði ofboðslega mikið að koma til Bakkafjarðar, skoða ósnortna náttúruna, einstakt fuglalíf og heimsækja þig. Spurningin var hvar við ættum að gista því við vorum fjögur fyrir utan Eddu systur og Gunnar sem voru á Bakkafirði með börnin sín. Þú varst ekkert að flækja þetta og bauðst okkur öll velkomin, og sagðir að það væri alltaf nægt pláss.

Þú opnaðir heimili þitt fyrir okkur og bauðst okkur velkomin, bjóst upp rúm fyrir okkur og lést okkur finnast við mjög velkomin.

Það var mikil upplifun að koma til þín á Bakkafjörð, upplifa dásamlega fallega náttúruna og heimili þitt, sem var svo notalegt.

Um kvöldið var grillað og spjallað fram á nótt. Daginn eftir vöknuðum við upp við þvílíkar kræsingar sem þú varst búin að leggja á borð og svo skemmtilega vildi til að þennan dag átti ég afmæli svo ég fékk óvæntan afmælissöng og köku. Ég man að barnabörnin þín, Líf, Saga, Vaka og Hrói, voru önnum kafin í að sinna litlum æðarfuglsungum sem fæðst höfðu nokkrum dögum áður. Ungarnir fengu að vera inn í húsinu hjá okkur í kassa, sem vakti mikla lukku. Krakkarnir voru svo hugfangin af ungunum að þau máttu ekkert vera að því að gera neitt annað en sinna þeim.

En það var heldur ekkert auðvelt að kveðja ungana í lok ferðarinnar því krakkarnir vildu taka þá með í bæinn.

Ferðin okkar til Bakkafjarðar lifir lengi í hjörtum okkar og þá sérstaklega sú manngæska og það viðmót sem við fengum frá þér. Við áttum fleiri gæðastundir saman, á gamlárskvöld heima í Kvistalandi, ótal fjölskylduboð hjá Eddu og Gunnari og hittingur á Akureyri þar sem við borðuðum saman á veitingastað og nutum dagsins. Það er erfitt til þess að hugsa að þú sért farin og merkilegt að dánardagur þinn sé á afmælisdegi Eddu systur, tengdadóttur þinnar. Þú valdir fallegan dag, þín verður ávallt minnst með virðingu og þakklæti.

Elsku Gunnar, Edda, Karel, Líf, Saga, Vaka, Hrói og fjölskyldur. Okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð styðja ykkur og styrkja í gegnum þessa miklu sorg. Elsku Dóra, hafðu hjartans þökk fyrir allt.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Berglind og Svavar.