Veðurbarðir Þessi sveit landgönguliða Bandaríkjanna fékk heldur betur að kynnast roki og leiðindum á göngu sinni um Þjórsárdal árið 2018.
Veðurbarðir Þessi sveit landgönguliða Bandaríkjanna fékk heldur betur að kynnast roki og leiðindum á göngu sinni um Þjórsárdal árið 2018. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Mjög náið og reglulegt samráð er við bandarísk hermálayfirvöld um eftirlit og varnarviðbúnað á Íslandi. Er þetta unnið á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Bandaríkjanna og Íslands. Til að mæta aukinni viðveru og viðbúnaði hér á landi hafa…

Í brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Mjög náið og reglulegt samráð er við bandarísk hermálayfirvöld um eftirlit og varnarviðbúnað á Íslandi. Er þetta unnið á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Bandaríkjanna og Íslands. Til að mæta aukinni viðveru og viðbúnaði hér á landi hafa stjórnvöld aukið gistiríkjastuðning og ráðist í verkefni sem styðja við vaxandi viðbúnað Atlantshafsbandalagsins (NATO) og Bandaríkjanna á Íslandi.

Kemur þetta fram í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins. Þar segir einnig að ekki sé hægt að upplýsa blaðið um einstakar útfærslur á varnarviðbúnaði, enda varðar slíkt öryggi ríkisins og mikilvæga almannahagsmuni.

Vika er nú liðin frá því að fyrrverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu steig fram hér í blaðinu og lýsti því yfir að Íslendingar yrðu að axla ábyrgð í eigin vörnum. Sagði hann Ísland standa frammi fyrir fjölþættum ógnum og alls óvíst hvernig hægt yrði að verja hernaðarlega mikilvæga innviði, verði Ísland fyrir óvæntri árás, þar til hjálp berst að utan. Fyrstu varnir Íslands séu því ekki góðar.

Ekki fást bein svör

Í ljósi ummæla skrifstofustjórans fyrrverandi óskaði Morgunblaðið eftir svörum utanríkisráðuneytisins við eftirfarandi spurningum:

Getur utanríkisráðuneytið veitt upplýsingar um fyrirkomulag herverndar Bandaríkjanna, komi til óvæntrar árásar, og Hvernig verða hernaðarlega mikilvægir innviðir varðir hér á landi á meðan beðið er eftir hjálp að utan, hjálp sem kann að berast eftir einhverja daga.

Ekki fengust bein svör við þessum spurningum, þau sögð varða öryggi ríkisins.

Segir ráðuneytið þó þær ráðstafanir sem nú eru til staðar hér á landi og þann viðbúnað og eftirlit sem bæði Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin hafa uppi á Norður-Atlantshafi tryggja, að mati íslenskra stjórnvalda, varnir lands og þjóðar. Varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins í okkar heimshluta hafi almennt verið aukinn og áfram unnið að því að efla eftirlit, varnir og viðbragðsgetu til samræmis við stefnumörkun og ógnarmat bandalagsins.

„Bandalagsríkin og samstarfsríki standa fyrir umfangsmiklu eftirliti sem miðar að því að meta hvar raunverulegar ógnir séu til staðar. Ef ógnarmatið breytist eru gerðar breytingar á viðbragði og liðsafli fluttur til í samræmi við þarfir,“ segir einnig í svari utanríkisráðuneytisins.

Boltinn nú hjá Alþingi

Þá hefur m.a. komið fram í fyrri umfjöllunum að veruleg þörf sé á aukinni þekkingu og rannsóknum á sviði öryggis- og varnarmála hér á landi. Tillaga að rannsóknarsetri liggur nú á borði Alþingis og vonast margir eftir jákvæðri afgreiðslu málsins.