Rafskútur Vandað verði til verka.
Rafskútur Vandað verði til verka.
Frumvarp um breytingu á umferðarlögum nær ekki utan um þann alvarlega vanda sem tengist lagningu á deilirafskútum í þéttbýli. Þetta kemur fram í umsögn Landssambands hjólreiðamanna sem sent hefur verið Alþingi en þar er umrætt frumvarp nú í meðförum

Frumvarp um breytingu á umferðarlögum nær ekki utan um þann alvarlega vanda sem tengist lagningu á deilirafskútum í þéttbýli. Þetta kemur fram í umsögn Landssambands hjólreiðamanna sem sent hefur verið Alþingi en þar er umrætt frumvarp nú í meðförum. Hjólreiðamenn vilja að skýrt verði kveðið á um frágang rafskúta en með uppgangi þeirra hafa margir lýst yfir óánægju með hvernig notendur skilja við þær á göngustígum og víðar.

„Skýrt þarf að vera hvar og hvernig eigi að ganga frá smáfarartækjum, sérstaklega svokölluðum deilirafskútum. Rafskútum frá leigum er illa lagt á stígum og gangstéttum um allt höfuðborgarsvæðið og getur stafað hætta af þeim fyrir þá sem hjóla um stígana,“ segir í umsögn Landssambands hjólreiðamanna sem Árni Davíðsson ritar undir.

Hjólreiðamenn vilja að sett verði í lög ákvæði um lagningu smáfarartækja og að ekki megi skilja þau eftir þar sem þau geti valdið hættu á stígum. Rafskútur geti auðveldlega dottið í vindi og því þurfi að leggja þeim utan stíga í nægilegri fjarlægð.

Þá þurfi að einfalda það ferli þegar leiga bregst ekki við ábendingum um illa lagðar rafskútur með nógu skjótum hætti. Skerpa þurfi á ábyrgð veghaldara. „Að þrátt fyrir afnotaleyfi frá sveitarfélagi til smáfarartækjaleigu um afnot af landi sveitarfélagsins fyrir stöðvarlausa leigu sé veghaldari engu að síður áfram ábyrgur fyrir hindrunum á akbrautum og stígum.“

Jafnframt er þess getið í umsögninni að gera mætti kröfu um það að í verklagsreglum sveitarfélaga fyrir rafskútuleigur verði sett skýrari skilyrði um að rafskútum eigi að leggja að minnsta kosti tveimur metrum frá stíg eða skilgreindar verði skilastöðvar með rafrænum girðingum þar sem skilja verði tækin eftir, ella borga hátt aukagjald. hdm@mbl.is