Samstarf Hjónin Guðrún og Javier hafa lengi unnið með tónskáldinu David del Puerto og kynnst honum vel.
Samstarf Hjónin Guðrún og Javier hafa lengi unnið með tónskáldinu David del Puerto og kynnst honum vel. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Áralangt samstarf söngkonunnar Guðrúnar Jóhönnu Ólafsdóttur og gítarleikarans Francisco Javier Jáuregui við spænska tónskáldið David del Puerto hefur leitt af sér útgáfu plötunnar Með þér – David del Puerto Vocal Works

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Áralangt samstarf söngkonunnar Guðrúnar Jóhönnu Ólafsdóttur og gítarleikarans Francisco Javier Jáuregui við spænska tónskáldið David del Puerto hefur leitt af sér útgáfu plötunnar Með þér – David del Puerto Vocal Works. Í dag, laugardaginn 11. mars kl. 16, munu Guðrún og Javier fagna útgáfunni í Hannesarholti.

David del Puerto er að sögn Guðrúnar mikilsvirt tónskáld á Spáni og er handhafi Þjóðarverðlauna Spánar í tónlist, Premio Nacional de la Música. Hann er sjálfur gítarleikari og segir Guðrún að það geri það að verkum að hann skilji hljóðfærið mjög vel og geri því góð skil í tónsmíðunum. Flest tónskáld sem semji kammertónlist skrifi fyrir píanó eða sinfónísk hljóðfæri en það sé sérhæfðara að skrifa þess konar tónlist fyrir gítar. „Það er skemmtilegt hvað David þekkir hljóðfærið vel og hefur gaman af því að skrifa fyrir það,“ segir hún.

„Við byrjuðum að vinna með honum árið 2013 í rauninni bara eftir að við heyrðum verk eftir hann á tónleikum og komumst í samband við hann. Svo urðum við bara góðir vinir og höfum unnið að ýmsum verkefnum saman. Hann samdi til dæmis óperu þar sem hann skrifaði titilhlutverkið með mína rödd í huga. Ég frumflutti hana og Javier spilaði einmitt á gítar.“

Náið samstarf við tónskáldið

Á plötunni eru hlutar úr stærra verki sem heitir Cantos de Quirce eða söngvar Quirce. Það er kennt við ljóðskáldið, Paco Quirce, sem á textann. „Þetta eru stutt ljóð í þessum japanska hækustíl, nokkurs konar spænskar hækur.“

Hlutar verksins eru fluttir af raddkvartett en þeim er sleppt á plötunni. „Við höfum það ekki með því við vildum að diskurinn yrði sneiðmynd af verkunum sem David hefur samið fyrir einsöngsrödd frekar en fjölradda, hans kammertónlist fyrir rödd.“ En auk þess eru tvö stutt forspil fyrir sólógítar inni á milli sönglaganna. Þá eru einnig verk á plötunnni við ljóð heilags Jóhannesar af krossinum, San Juan de la Cruz.

„Öll lögin sem ég syng eru samin sérstaklega fyrir mig,“ segir Guðrún en samstarf þeirra Javiers við tónskáldið del Puerto hefur verið náið. Þau hafa hist reglulega, æft saman og pælt í tónlistinni með honum. Hún segir tónskáldið vera orðið góðan vin í gegnum samstarfið og það sé eiginkona hans líka. Fyrstu þrjú lögin á plötunni eru einmitt tileinkuð henni og samin við ljóð tónskáldsins sjálfs.

„Hann var farinn að þekkja mína rödd mjög vel og hvernig hún virkar. Lögin eru samin út frá röddinni og hvernig hún hljómar og út frá þeirri raddlegu sem hann vill að ég sé í í þessu samspili við gítarinn,“ segir Guðrún.

Titilljóðið er íslenskt

„Eftir alla þessa vinnu þá erum við líka farin að þekkja hans stíl mjög vel. Þetta er tónlist sem er kannski svolítið flókin, það eru miklar taktbreytingar og maður er ekki endilega í einni tóntegund. Þetta myndi flokkast sem nútímatónlist en er samt alltaf með ákveðnu, ef ég má sletta, „grúvi“.“

Texti við eitt lag á plötunni er eftir íslenskt ljóðskáld, Kristján Þórð Hrafnsson, og er það einmitt titillag plötunnar, „Með þér“. Ljóðið er úr bókinni Húsin og göturnar frá 1993. „Þetta er ljóð sem ég er mjög hrifin af og kynnti fyrir David því hann langaði til þess að semja lag við eitt ljóð á íslensku. Við unnum saman í því, ég las ljóðið inn á hljóðupptöku fyrir hann svo hann gæti heyrt hvernig hrynjandin væri í íslenskunni og útskýrði fyrir honum hvert orð, hvernig þau eru borin fram og hvað þau þýða,“ segir Guðrún.

„Bæði er Kristján gott ljóðskáld og svo er hann mágur minn. Þetta eru svolítið fjölskyldutengsl. Upptökustjórinn Árni Möller er maður mömmu minnar svo þetta er fjölskylduverkefni. Við vinnum líka oft með systur Javiers sem spilar líka á disknum. Við vorum öll saman í námi í London og þannig þekki ég nú eiginmanninn.“

Guðrún og Javier fengu styrki til útgáfunnar frá Hljóðritunarsjóði og hafa þau bæði verið á starfslaunum listamanna. „Það hefur hjálpað okkur bæði með þetta verkefni og önnur. Við erum líka núna á starfslaunum listamanna og hluti af því sem við erum að fara að flytja á tónleikunum er úr þeim verkefnum sem við erum að vinna að. Svo við sýnum líka smá sýnishorn af því,“ segir hún.

Slá tvær flugur í einu höggi

„Við erum að vinna að lögum eftir Atla Heimi Sveinsson þar sem Javier er að gera og hefur gert mjög margar útsetningar fyrir rödd og gítar. Við erum að vinna í útsetningunum og að taka upp fyrir næsta disk. Svo höfum við verið að grúska í bandarískum þjóðlögum sem John Jacob Niles safnaði og söng. Þar er Javier líka að gera sínar eigin útsetningar á þeim lögum sem hafa sterka texta sem segja oft mikla sögu. Það er mjög ólíkt tónlistinni hans Davids, miklu melódískari. Þannig að við blöndum saman ólíkum tónlistarstílum á tónleikunum í Hannesarholti.“

Opnunarlagið á tónleikunum verður síðan „Blessuð sólin elskar allt“ sem Javier samdi við ljóð eftir Hannes Hafstein og vann með því til 3. verðlauna í Lagakeppni Hannesarholts og Stöðvar 2 haustið 2020. „Það eru margir sem þekkja annað lag við sama ljóð en Javier kemur með svolítið nýja sýn á þetta lag,“ segir Guðrún, en ljóðið er að sögn Javiers áhugavert fyrir Spánverja sem hefur prófað að dvelja vetrarlangt á Íslandi og komist í kynni við mikilvægi sólarinnar og ljóssins hér á landi.

„Það hafa margir verið mjög hrifnir af þessu lagi, það er mjög fallegt,“ segir Guðrún. „Textinn og tónlistin eiga vel saman, textinn fer á flug í tónlistinni. Hluti af verðlaununum var að halda tónleika í Hannesarholti þannig að þarna sláum við tvær flugur í einu höggi.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir