Gunnsteinn Ólafsson
Gunnsteinn Ólafsson
Sinfóníuhljómsveit unga fólksins flytur 4. sinfóníu Mahlers á tónleikum í Langholtskirkju í dag, 11. mars, kl. 17. Einsöngvari verður Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir og stjórnandi Gunnsteinn Ólafsson

Sinfóníuhljómsveit unga fólksins flytur 4. sinfóníu Mahlers á tónleikum í Langholtskirkju í dag, 11. mars, kl. 17. Einsöngvari verður Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir og stjórnandi Gunnsteinn Ólafsson. Í tilkynningu segir að í öðrum kafla sinfóníunnar bregði konsertmeistarinn sér í líki djöfulsins og leiki á vanstillta fiðlu en í lokakaflanum syngi einsöngvarinn um hið ljúfa líf í himnaríki. Kvæðið er sungið í íslenskri þýðingu Gunnsteins og verða aðgöngumiðar seldir við innganginn. Ragnheiður útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2021 með tvöfalda bakkalársgráðu í söng og fiðluleik með hljómsveitar­stjórn sem aukafag. Frá árinu 2021 hefur hún stundað meistaranám í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og útskrifast nú í maí. Á lokahátíð Óperudaga í Eldborg í Hörpu í nóvember í fyrra söng hún og stjórnaði tólf manna kammersveit og frumflutti þrjú ný íslensk verk.