Breytt ásýnd Fyrirhuguð uppbygging á Suðurnesjum mun hafa mikil efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.
Breytt ásýnd Fyrirhuguð uppbygging á Suðurnesjum mun hafa mikil efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. — Teikning/Kadeco
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atvinnulíf á Suðurnesjum verður fjölbreyttara og byggðin mun vaxa saman ef fyrirhuguð uppbygging á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, verður að veruleika. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir þessa uppbyggingu munu skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf á svæðinu

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Atvinnulíf á Suðurnesjum verður fjölbreyttara og byggðin mun vaxa saman ef fyrirhuguð uppbygging á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, verður að veruleika.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir þessa uppbyggingu munu skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf á svæðinu. Þá fylgi henni íbúafjölgun sem feli í sér margvíslegar áskoranir.

Suðurnesin hafa gengið í gegnum krappar niðursveiflur á þessari öld. Brotthvarfi varnarliðsins árið 2006 fylgdi aukið atvinnuleysi og efnahagshrunið 2008 skóp fleiri vandamál. Uppbyggingu ferðaþjónustunnar, ekki síst eftir stofnun WOW air 2012, fylgdi uppgangur á Suðurnesjum. Gjaldþroti WOW air vorið 2019 fylgdi niðursveifla og svo kom kórónuveirufaraldurinn sem lamaði flugsamgöngur og ferðaþjónustuna. Nú eru Suðurnesin að rísa úr enn einum öldudalnum og er aftur rætt um skort á starfsfólki.

Rætt um hundruð milljarða

Samkvæmt áætlun Kadeco verður 134 milljörðum varið til uppbyggingar á þróunarsvæðinu, sem fengið hefur nafnið K64, fram til ársins 2050. Því til viðbótar kemur fjárfesting á vegum Isavia sem áætlar að þrjár stórar framkvæmdir á næstu tíu árum muni kosta alls um 150 milljarða.

Skipulagssvæðið sem er undir hjá Kadeco er um 400 þúsund fermetrar og er gert ráð fyrir að byggðir verði upp 24 þúsund fermetrar af þjónustu- og verslunarhúsnæði til ársins 2035

Kjartan Már segir aðspurður að ef áform Kadeco gangi eftir verði atvinnulíf á svæðinu ekki jafn viðkvæmt fyrir sveiflum og verið hefur.

„Stutta svarið er já. Við höfum einmitt það markmið að fá fleiri stoðir undir atvinnulífið. Flugvöllurinn er svo gríðarlega stór og að stærstum hluta farþegaflug. Samkvæmt kynningu Kadeco er horft til þess í þessu K64-plani að auka annars konar starfsemi, til dæmis fraktflug og aðra þjónustu, sem er kannski ekki jafn háð einum þætti eins og farþegaflugið.

Þungamiðjan í atvinnulífinu

Fasteignaþróun er líka einn liður, og svo koma til fleiri þættir, þannig að við munum dreifa áhættunni meira en við erum að gera í dag. Flugvöllurinn er uppspretta 40% efnahagsumsvifa á Suðurnesjum, sem er mjög mikið. Það er gott þegar vel gengur en ekki gott þegar á móti blæs, eins og í faraldrinum þegar flugvöllurinn svo til lokaðist. Því fylgdi mikið atvinnuleysi og niðursveifla.“

– Hvar sérðu fyrir þér að fjölgun starfa verði hvað mest? Í landeldi?

„Það eru til dæmis yfir 100 störf í pípunum hjá Samherja fiskeldi á Reykjanesi. Við erum að undirbúa stækkun Njarðvíkurhafnar og í kjölfarið mun Skipasmíðastöð Njarðvíkur setja upp nýja og mun stærri þurrkví. Það eru þegar komin fyrirtæki sem vilja staðsetja sig nálægt slíkri starfsemi. Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður í uppbyggingarfasa næsta áratuginn. Þannig að það mun vanta iðnaðarmenn. Svo erum við að horfa á grænan iðngarð í Helguvík, í því sem áttu að vera kerskálar Norðuráls. Þannig að það eru fjölmörg tækifæri fram undan.“

Kallar á fjárfestingu

– Hvað með innviðina? Hvernig er Reykjanesbær fjárhagslega í stakk búinn til að takast á við þessa uppbyggingu?

„Við búum við þann lúxus, ef svo má að orði komast, en það eru skiptar skoðanir um hvort það sé lúxus, að hér fjölgar fólki meira en annars staðar. Og hefur gert í langan tíma. Samtímis höfum við verið í ströngu aðhaldi af því að við skuldum mikið. Þá eru gerðar auknar kröfur um þjónustu sem mun meðal annars kalla á fjárfestingu í leikskólum og grunnskólum. Það er gott að fá fjölgun íbúa því þá næst aukin stærðarhagkvæmni í reksturinn, en það kostar líka heilmikið í fjárfestingum. Og það er skákin sem við erum að tefla alla daga.“

Kjósi að búa suður með sjó

– Sérðu fyrir þér að þið fáið marga aðflutta sem verði í vel launuðum störfum vegna þessarar uppbyggingar? Þannig að útsvarið verði hærra á hvern íbúa?

„Eitt af markmiðunum er að hækka meðallaunin. Við vitum að meðallaun á þessu svæði eru lægri en víða annars staðar. Við þurfum hvorki að deila um það né skoða lengi til að sjá það. Og það tengist meðal annars því að í kringum flugvelli eru mörg vellaunuð störf; flugmenn, flugumferðarstjórar, flugvirkjar og allir þessir hópar. Við þurfum að gera samfélagið okkar það mikið meira aðlaðandi að þeir sjái hag sínum betur borgið með því að búa hér en eins og er býr þetta fólk að stærstum hluta á höfuðborgarsvæðinu. Svo eru önnur og lægra launuð störf á flugvellinum og þá borgar sig ekki fyrir fólk að keyra á milli. Sá hópur býr hér.“

Frekari sameining í vændum

– Svæðið mun að óbreyttu vaxa meira saman. Til lengri tíma litið, sérðu fyrir þér frekari sameiningu sveitarfélaga?

„Já. Ég hef talað fyrir því í mörg ár. Ég hef orðað þetta þannig að ef Suðurnesin væru eitt sveitarfélag í dag, segjum það, þessi fjögur sveitarfélög sem eru hér: Grindavík, Vogar, Reykjanesbær og Suðurnesjabær, og einhver myndi leggja til að skipta þeim upp í fjögur held ég að menn myndu setja spurningarmerki við það. Í mínum huga er þetta ekki spurning um hvort heldur hvenær það verður frekari sameining. Ég veit ekki hvort það verða endilega öll sveitarfélögin í einu en það verða frekari sameiningar,“ segir Kjartan Már.

Hann sér fyrir sér að íbúafjöldinn í Reykjanesbæ verði kominn í 30 til 35 þúsund árið 2030 sem yrði þreföldun frá aldamótum og um 50% fjölgun frá því sem nú er. Alls búa nú ríflega 31 þúsund manns í Reykjanesbæ, Grindavík, Vogum og Suðurnesjabæ.

Ýmsar atvinnugreinar

Fjárfestar hafa sýnt því áhuga að byggja hótel á skipulagssvæði Kadeco, K64.

Þá eru t.d. hugmyndir um lóðrétt gróðurhús og landeldi.

Nálægð við flugvöll þykir skapa tækifæri til útflutnings.

Ef spár um fjölgun flugfarþega ganga eftir mun það eitt og sér kalla á fleira starfsfólk, en byggja þarf þúsundir íbúða á næstu áratugum.