Dr. Jean Balfour, bóndi, grasafræðingur og mikill Íslandsvinur, lést á heimili sínu í Skotlandi 27. febrúar sl., 95 ára að aldri. Jean fæddist í Skotlandi 4. nóvember 1927, dóttir James Syme Drew hershöfðingja og Victoríu Drew

Dr. Jean Balfour, bóndi, grasafræðingur og mikill Íslandsvinur, lést á heimili sínu í Skotlandi 27. febrúar sl., 95 ára að aldri.

Jean fæddist í Skotlandi 4. nóvember 1927, dóttir James Syme Drew hershöfðingja og Victoríu Drew. Eiginmaður hennar var John Charles Balfour, f. 1919, d. 2009, en þau giftust árið 1950. Jean og John eignuðust þrjá syni; Robert, David og Alan. John kom úr þekktri Balfour-ætt í Skotlandi. Afabróðir hans, sir Arthur Balfour, var lengi leiðtogi breska Íhaldsflokksins og varð tvisvar forsætisráðherra Bretlands, tók í síðara skiptið við af Loyd George árið 1923.

Þau hjón áttu saman Balbirnie-búgarðinn í Fife og Scourie Estate í Sutherland í Norðaustur-Skotlandi. Saman ráku þau Balbirnie, sem var stórt bú með blönduðum búskap mjólkurkúa og holdanauta. Þar ræktaði hún einnig skóg og hlúði að fallegum skrúðgarði herragarðsins.

Jean ólst upp í skosku hálöndunum, Perth-skíri. Hún lauk B.Sc.-gráðu í grasafræðum frá Edinborgarháskóla árið 1948 og hlaut síðar heiðursdoktorsnafnbót frá skólanum. Helsti starfsvettvangur hennar var á sviði náttúru- og umhverfisverndar og skógræktar og sinnti hún stjórnunarstörfum á því sviði, m.a. sem formaður skosku landvarðasamtakanna og forseti skosku skógræktarfélaganna.

Jean kom fyrst til Íslands árið 1970 í boði Skógræktar ríkisins og hitti þáverandi skógræktarstjóra, Hákon Bjarnason. Síðan þá kom hún árlega til Íslands, allt til 2019, og kynntist hér og eignaðist fjölda góðra vina sem hún hélt tryggum tengslum við.

Jean fékk riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 og fjölmargar aðrar viðurkenningar á erlendum vettvangi, t.d. CBE-orðuna, eina æðstu orðu sem breska krúnan veitir.

Auk Íslandsferða tók hún þátt í fjölda leiðangra til Grænlands, Svalbarða og norðurstranda Rússlands og Síberíu.

Útför Jean fór fram í kyrrþey en minningarathöfn fyrir fjölskyldu og vini fer fram í hennar sóknarkirkju, Markinch Parish Church, 11. apríl nk. kl. 15.