Florence Pugh þykir kunna eitt og annað fyrir sér í leiklist.
Florence Pugh þykir kunna eitt og annað fyrir sér í leiklist. — AFP/ Isabel Infantes
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lífið leikur við hina ungu Allison. Hún er nýtrúlofuð, vinmörg og vegnar vel í leik og starfi. Þá kemur skellurinn. Hún verður völd að umferðarslysi þar sem tilvonandi mágkona hennar bíður bana. Örvænting grípur um sig, sambandið liðast í sundur og brúðkaupinu er aflýst

Lífið leikur við hina ungu Allison. Hún er nýtrúlofuð, vinmörg og vegnar vel í leik og starfi. Þá kemur skellurinn. Hún verður völd að umferðarslysi þar sem tilvonandi mágkona hennar bíður bana. Örvænting grípur um sig, sambandið liðast í sundur og brúðkaupinu er aflýst. Allison flýr á náðir flöskunnar og harðra efna. Meðan hún sekkur dýpra og dýpra er henni rétt hjálparhönd úr óvæntri átt, það er ekkillinn og fyrrverandi hermaðurinn Daniel – sem fyrir slysið var á góðri leið með að verða tengdafaðir hennar. Getur hann hjálpað henni? Getur hún hjálpað honum?

„Mig langaði að skrifa um sorg og hvernig fólk rífur sig upp úr henni. Mig langaði að skrifa um eitthvað sem gæti hafa gerst hvar sem er og er ekki endilega um hræðilegt bílslys, heldur miklu frekar um lágpunktinn í lífi hvers og eins áhorfanda,“ segir Zach Braff, höfundur og leikstjóri bandarísku kvikmyndarinnar A Good Person í samtali við breska blaðið The Guardian en myndin verður frumsýnd síðar í mánuðinum.

Með helstu hlutverk fara breska leikkonan Florence Pugh og bandaríska goðsögnin Morgan Freeman en Molly Shannon, Chinaza Uche og Celeste O’Connor koma einnig við sögu.

Það er engin tilviljun að Braff skuli glíma við sorgina í A Good Person en margt hefur gengið á í hans eigin lífi frá því að hann gerði sína síðustu mynd, Going in Style, árið 2017. Hann missti nefnilega föður sinn, systur og tvo nána vini með skömmu millibili.

„Ég var ekki bara bugaður af sorg sjálfur, heldur líka að upplifa hvernig fólk sem stendur sorginni næst nær að komast aftur á fætur eftir harmleikinn,“ segir hann við miðilinn EW og bætir við að hann hvorki skrifi handrit né leikstýri mynd nema að efnið höfði mjög sterkt til hans.

Eins hörmulegar og aðstæður í A Good Person eru fannst Braff mikilvægt að nálgast efnið á sinn hátt, ekki síst gegnum húmorinn. „Ég tilheyri mjög fyndinni fjölskyldu og við finnum alltaf leið til að hlæja okkur gegnum hluti, jafnvel þá sársaukafullu.“

Hann vonar að myndin höfði til sem flestra. „Auðvitað hafa ekki allir misst fjórar manneskjur á jafnmörgum árum en öll höfum við samt gengið í gegnum erfiðleika vegna heimsfaraldursins. Það þarf ekki endilega að vera andlát – heldur gæti skilnaður, atvinnumissir eða hvað sem er komið í staðinn enda er myndin í grunninn um ferlið sem fer af stað þegar fólk reynir að standa aftur upp eftir bölvanlega tíma.“

Voru par en hætt saman

Braff og Pugh voru par meðan á gerð A Good Person stóð en sambandi þeirra er nú lokið. Þau hófu að slá sér upp árið 2019 en sama ár unnu þau einmitt saman í fyrsta sinn, að stuttmynd Braffs, In the Time It Takes to Get There. Í EW-viðtalinu kemur fram að hann vildi ólmur vinna aftur með Pugh og A Good Person er skrifuð með hana í huga. „Við vorum bara þrjá daga að taka upp stuttmyndina en skemmtum okkur konunglega.“

Braff er 21 ári eldri en Pugh og fyrir vikið fundu einhverjir að sambandi þeirra meðan þau voru saman. Svo langt gekk það raunar að Pugh kom askvaðandi inn á samfélagsmiðilinn Instagram dag einn og lýsti yfir því að enginn hefði rétt á að segja henni hvern hún ætti að elska og hvern ekki.

Í nýlegu viðtali við tímaritið Vogue kveðst Pugh enn vera að ná áttum eftir sambandsslitin.

Þrátt fyrir að leiðir hafi skilið hafa Braff og Pugh ekkert nema gott hvort um annað að segja. „Myndin sem við gerðum saman er ein besta reynsla sem ég bý að. Allt var svo eðlilegt,“ hefur EW eftir Pugh.

Braff segir hana á móti gallalausa. „Í tilviki flestra leikara þá er leikstjórinn á staðnum til að móta þá og stýra en Florence gerði nákvæmlega allt eins og ég sá það fyrir mér þegar ég skrifaði handritið.“

Í blóðinu og sálinni

Hann líkir þeim við hljómsveitarstjóra og virtúós í EW. „Maður er ekki að kenna og segja fyrstu fiðlu hvernig hún á að leika, heldur horfir bara opinmynntur á hana, vegna þess að hún er stórfengleg. Þannig líður mér með Florence.“

Hann er á sömu nótum í Guardian-viðtalinu. „Orð fá henni ekki lýst. Vonlaust er að finna leikara, allt frá Meryl Streep til þeirra sem hafa nýlokið námi, sem finnst Florence ekki einstaklega hæfileikarík. Það er bara eitthvað við hana, hún hefur yfirbragð kvikmyndastjörnu. Og allt kemur það svo eðlilega. Hún er ekki klassískt þjálfuð, heldur er þetta bara í blóðinu, sálinni.“

Braff ber ekki síður lof á Freeman en hann lék einnig í Going in Style. „Ég bjóst aldrei við að fá Morgan um borð en hann hafði mjög gaman af að gera Going in Style með mér og ég lét aftur á það reyna. Hann hringdi fljótt til baka, löngu áður en ég átti von á, og sagði: „Ég sé mig á hverri einustu blaðsíðu handritsins.“ Þýðir það að þú segir já? spurði ég og hann svaraði um hæl. „Já, ég segi já.““

Þess má til gamans geta að Braff og Freeman eiga það sameiginlegt að vera með flugmannsréttindi. Ekki veitir líklega af í þessum háfleyga bransa.

Freeman, sem verður 86 ára í sumar, er hvergi farinn að rifa seglin og lætur sig ekki muna um að bera enn heilu bíómyndirnar uppi. Ekkert frekar en jafnaldri hans, Sir Anthony Hopkins. Og röddin, maður lifandi. Hún bara dýpkar og styrkist með árunum.

Þekktastur fyrir leik í Scrubs

Leikarinn, handritshöfundurinn og leikstjórinn Zach Braff er líklega þekktastur fyrir að hafa leikið aðalhlutverkið í hinum vinsæla gamanmyndaflokki Scrubs frá 2001 til 2010 en fyrir framgöngu sína var hann bæði tilnefndur til Emmy- og Golden Globe-verðlaunanna. Hann hefur einnig leikð í fjölda kvikmynda, svo sem The Last Kiss og In Dubious Battle.

Braff leikstýrði sinni fyrstu mynd árið 2004, Garden State, auk þess að skrifa handritið og fara með aðalhlutverkið. Myndin hlaut góðar viðtökur og dóma og skilaði mjög ríflegum hagnaði en hún var gerð af miklum vanefnum. Áratugur leið þangað til að Braff settist aftur í leikstjórastólinn í Wish I Was Here. A Good Person er fjórða myndin sem hann leikstýrir.