Teikning af því er Þormóður leggur úr höfn á Bíldudal síðla nætur þriðjudaginn 16. febrúar 1943. Myndin er byggð á lýsingum sem fram koma í sjódómsbókum og blaðagreinum.
Teikning af því er Þormóður leggur úr höfn á Bíldudal síðla nætur þriðjudaginn 16. febrúar 1943. Myndin er byggð á lýsingum sem fram koma í sjódómsbókum og blaðagreinum. — Teikning/Jóhann Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjerfróðir menn, sem í gær skoðuðu stykki þau úr „Þormóði“, sem „Sæbjörg“ kom með telja greinileg merki þess, að skipið hafi tekið niðri.

Þau átakanlegu sorgartíðindi hefir Morgunblaðið að flytja, að M.s. „Þormóður“ frá Bíldudal hefir farist og með honum 30 manns, 7 skipsmenn og 23 farþegar. Meðal farþega voru 10 konur, eitt barn og tveir prestar.“

Með þessum orðum hófst frétt á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 20. febrúar 1943. Forsíðan var að mestu helguð slysinu en á þessum árum var þar alla jafna aðeins að finna smáauglýsingar. Í seinni tíma heimildum eru hinir látnu sagðir vera 31 en ekki 30.

Klukkan 22.35 miðvikudagskvöldið 17. febrúar barst Slysavarnafjelagi Íslands svohljóðandi skeyti frá skipstjóranum á Þormóði: „Erum djúpt út af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin er, að hjálpin komi fljótt!“

Framkvæmdastjóri Slysavarnafjelagsins gerði vitaskuld strax allar hugsanlegar ráðstafanir, að því er fram kom í Morgunblaðinu. En vegna fárviðris þá um kvöldið, var ekki viðlit að senda skip út til hjálpar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði Þormóður sennilega farist strax um kvöldið. „Hefir fundist brak úr skipinu skamt frá Garðskaga og einnig eitt lík,“ sagði í frétt blaðsins.

Þormóður var leigður skipaaútgerð ríkisins, til strandflutninga. Þessa síðustu ferð fór skipið til hafnar við Húnafjörð og sótti þangað rúmlega eitt tonn af kjöti, sem flytja átti til Reykjavíkur. Á leiðinni kom skipið við á tveimur höfnum á Vestfjörðum, Bíldudal og Patreksfirði.

M.s. Þormóður (áður Alden) var 101 tonn, byggt 1931. Fiskveiðafjelagið Njáll í Bíldudal keypti skipið 1942. Var þá nýbúið að setja í það 240 ha. díselvél, svo og nýja hjálparvél. Skipið var útbúið öllum fullkomnustu tækjum, svo sem dýptarmæli, talstöð o.fl. og hafði skoðunarvottorð til millilandasiglinga. Þetta var önnur ferð skipsins eftir gagngera viðgerð eða klössun.

Öllum leið vel

Loftskeytastöð gerði tilraun til að hafa samband við Þormóð snemma á miðvikudeginum, að beiðni skrifstofu Gísla Jónssonar, alþingismanns og eiganda skipsins, vegna þess að vonskuveður hafði verið um nóttina. Svar barst þó ekki fyrr en um kl. 19 um kvöldið og þá kvaðst skipstjórinn hafa slegið Faxabugt en gat ekki sagt til um hvenær skipið væri væntanlegt til hafnar.

Um svipað leyti og svarskeytið kom frá skipstjóranum bárust tvö skeyti frá farþegum til ættingja í Reykjavík og var í þeim sagt, að öllum liði vel og skipið væri væntanlegt næsta morgun. Í framhaldinu var björgunarskipið Sæbjörg beðið um að vera í sambandi við Þormóð. Það síðasta sem heyrðist frá skipinu var hins vegar fyrrnefnt skeyti frá skipstjóranum kl. 22.35 að kvöldi miðvikudags, þar sem hann bað um hjálp í skyndi.

Snemma að morgni fimmtudags var hafin skipulögð leit að Þormóði. Tóku þátt í leitinni aðallega togararnir Gyllir, Arinbjörn hersir og Rán, auk Sæbjargar. Ennfremur flugvélar frá bandaríska flugliðinu og ein íslensk vél. Leitarskilyrði voru ákaflega erfið, kom fram í Morgunblaðinu.

„Síðdegis á fimtudag fundu togararnir Gyllir og Arinbjörn hersir brak úr skipi ca. 7 mílur austur af Garðskaga. — Gyllir fann einnig eitt lík af konu þar á floti. Símuðu togararnir til Sæbjargar og báðu hana að koma á staðinn. Var svo ákveðið að Sæbjörg færi til Reykjavíkur með líkið og tvö allstór stykki úr skipi, sem þarna fundust. „Sæbjörg“ kom hingað kl. um 2 í gær. Hafði hún sent skeyti áður og bað framkvæmdastjóra Slysavarnafjelagsins og kunnugan mann frá skrifstofu Gísla Jónsson, að koma til móts við skipið á ytri höfnina,“ stóð í fréttinni.

Auk líksins hafði Sæbjörg með sér stórt stykki úr þilfari og annað álíka úr byrðingi. Vafalaust hvort tveggja úr Þormóði. Talsvert af smærra spýtnabraki var einnig í sjónum á sömu slóðum. Björgunarflekinn hafði hinsvegar ekki fundist.

„Í gær [föstudag] fanst talsvert af rekaldi á fjörunum milli Sandgerðis og Stafness. M.a. fanst afturhluti af björgunarbát, matvælageymslukassi (sem var á þilfari skipsins), vatnskútur, niðursuðudósir (sennilega úr björgunarbát; eða björgunarfleka).“

Um tildrög slyssins kom þetta fram í Morgunblaðinu: „Að lokum skal þess getið, að sjerfróðir menn, sem í gær skoðuðu stykki þau úr „Þormóði“, sem „Sæbjörg“ kom með telja greinileg merki þess, að skipið hafi tekið niðri. Er því giskað á, að skipið hafi orðið of grunt fyrir og rekist á svonefnda Flös við Garðskaga og brotnað þar í spón.“

Öll nöfnin birt

Nöfn allra sem fórust með Þormóði voru birt á forsíðunni. Þrír skipverja voru frá Bíldudal, tveir frá Reykjavík, einn frá Ísafirði og einn frá Flateyri. Unnusta eins þeirra hafði áður misst þrjá bræður í sjóinn. Þá fórust tengdaforeldrar skipstjórans með skipinu og eiginkona matsveinsins.

Meðal farþega sem fórust voru hjón með sjö ára gamlan son sinn. Þau áttu einnig yngra barn sem ekki var með í för. Önnur hjón sem fórust létu eftir sig sjö börn.

Af þeim 31 sem fórst voru 22 frá Bíldudal og meðal þeirra sóknarpresturinn, verslunarstjóri stærstu verslunarinnar, framkvæmdastjórar tveir og verkstjóri hraðfrystihússins. Fóru þama sem sagt flestir helstu forvígismenn staðarins. „Mun aldrei jafn tilfinnanlegt manntjón hafa komið fyrir eitt kauptún að tiltölu við fólksfjölda staðarins, þar sem í einu hverfa í sjóinn nál. 10. hver maður kauptúnsins,“ stóð í Morgunblaðinu.

Minningarathöfn var haldin í Dómkirkjunni 5. mars og á Bíldudal 16. mars og jarðsett þau lík sem fundust. Eftir slysið fluttu margir frá Bíldudal enda kauptúnið svo gott sem lamað eftir áfallið. En smám saman náði það sér aftur á strik.

Þormóðsslysið er eitt af verstu sjóslysum íslenskrar sjóferðasögu.