Robert Blake átti langan feril í Hollywood.
Robert Blake átti langan feril í Hollywood. — MyndAFP/
Leikarinn Robert Blake er látinn, 89 ára að aldri. Hann er þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndinni Með köldu blóði og sjónvarpsþáttunum Baretta en fyrir þá fékk hann Emmy-verðlaunin. Hann hóf leikferil sinn strax á barnsaldri

Leikarinn Robert Blake er látinn, 89 ára að aldri. Hann er þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndinni Með köldu blóði og sjónvarpsþáttunum Baretta en fyrir þá fékk hann Emmy-verðlaunin. Hann hóf leikferil sinn strax á barnsaldri. Æska hans var afar erfið, foreldrar hans beittu hann ofbeldi, læstu hann inni í skáp og neyddu hann í refsingarskyni til að borða mat af gólfinu. Fjórtán ára gamall strauk hann að heiman. Sem ungur maður var hann um tíma háður heróíni og kókaíni og seldi eiturlyf. Hann tók sig á og framundan var farsæll ferill í sjónvarpsmyndum og kvikmyndum. Hann lék morðingja mjög sannfærandi árið 1967 í kvikmyndinni Með köldu blóði þar sem byggt var á raunverulegum atburðum.

Árið 1999 kynntist hann Bonny Lee Barkley sem hafði þegar verið gift níu sinnum. Hún varð seinni eiginkona hans og saman áttu þau dóttur. Tæpum tveimur árum síðar fóru á hjónin á veitingastað, þegar þau yfirgáfu hann sagðist Blake hafa gleymt byssu sinni og sneri við til að sækja hana. Hann sagði við yfirheyrslu að hann hefði síðan komið að eiginkonu sinni látinni í bíl þeirra, hún hafði verið skotin til bana. Réttað var yfir Blake en hann sýknaður vegna skorts á sönnunargögnum. Sá úrskurður var umdeildur en tvö vitni komu fram við réttarhöldin sem sögðu Blake hafa boðið þeim fé fyrir að myrða konu hans. Börn Bonny Lee fóru í einkamál gegn Blake og unnu það, hann borgaði þeim háar skaðabætur. Stuttu seinna var hann úrskurðaður gjaldþrota.

Eftir morðið hélt Blake sér til hlés. Árið 2012 tók Piers Morgan viðtal við hann á CNN og spurði hann um morðið. Blake brást hinn versti við en Morgan sagðist pollrólegur einungis vera að spyrja sjálfsagðra spurninga.

kolbrun@mbl.is