Gísli Hann var framsækinn blaðamaður, ritstjóri, rithöfundur og teiknari.
Gísli Hann var framsækinn blaðamaður, ritstjóri, rithöfundur og teiknari. — Ljósmynd/Úr myndasafni Gísla
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigga Vigga á enn erindi og það er margt sem kemur saman í henni. Mér finnst athyglisvert að það hittist svona á að bækurnar um þessa fiskverkakonu komi út núna á þeim tíma sem verkalýðsdeilur um kvennastörf standa sem hæst

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Sigga Vigga á enn erindi og það er margt sem kemur saman í henni. Mér finnst athyglisvert að það hittist svona á að bækurnar um þessa fiskverkakonu komi út núna á þeim tíma sem verkalýðsdeilur um kvennastörf standa sem hæst. Óvart alveg brilljant tímasetning. Auk þess hafa sjónvarpsþættirnir Verbúðin nýlega slegið í gegn og á yfirstandandi sýningu á verkum Hildar Hákonardóttur getur að líta frægt veflistaverk af fiskverkakonum. Veruleiki Siggu Viggu í frystihúsinu forðum kallast því á við ýmislegt sem er í kastljósi nútímans,“ segir Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur og sérfræðingur í myndasögum, en hún sér um að rita formála að nýrri útgáfu bókanna um Siggu Viggu. Úlfhildur vann sjálf í fiski eitt sumar þegar hún var á sextánda ári og segist hafa gleypt sögurnar í sig á sínum tíma.

„Mér finnst ótrúlega gaman að lesa þær aftur núna. Þegar ég las þetta sem stelpa þá fannst mér sjálfsagt að til væri íslensk myndasöguhetja, hún Sigga Vigga, því ég var vön að lesa þýddar myndasögur um Tinna, Sval og Val og fleiri. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég áttaði mig á hversu merkilegar myndasögurnar um Siggu Viggu eru, því þetta er fyrsta íslenska myndasagan sem virkilega nær í gegn til fjöldans. Stebbi stælgæ var kominn fram á sjónarsviðið fyrr, en hann varð aldrei eins þekktur og Sigga Vigga. Gísli náði til stærri hóps með Mogganum og hann var snjall að gefa myndasögurnar líka út á bókum. Þá heldur þetta áfram að lifa.“

Úlfhildur segir áhugavert að Gísli hafi ekki tekið þátt í flokkapólitík.

„Hann birti myndasöguna um Siggu Viggu fyrst í Alþýðublaðinu en fór svo með þessa miklu ádeilu á kapítalismann yfir á Morgunblaðið. Einnig er merkilegt að hann karlmaðurinn taki upp hanskann fyrir fiskverkakonu í þessum sögum. Ég hefði gjarnan viljað hitta Gísla og spjalla við hann, því mér finnst áhugavert hvernig hann tekur kvenleikann fyrir í sögunum af Siggu Viggu. Þar eru ekki aðeins konur versus karlar, heldur líka blankar verkakonur versus fólk sem á peninga. Fiskverkakonan Sigga Vigga á aldrei aur og hún er á sífelldum flótta undan of hárri leigu. Ein bókin gerist að hluta til í fangelsi því þá er hún búin að missa húsnæðið og til að hafa þak yfir höfuðið þá gerir hún eins og ýmsir hafa verið þekktir fyrir, hún brýtur rúðu á lögreglustöð til að fá húsaskjól.“

Hann gerir karla hlægilega

Úlfhildur segir Siggu Viggu vera kvenhetju sem standi uppi í hárinu á yfirvaldinu. „Þó hún sigri aldrei, þá hefur hún sínar leiðir, segist til dæmis alltaf þurfa að fara í jarðarför ömmu þegar það eru landsleikir. Hún er algjörlega óhrædd við yfirvaldið, hún er með stöðugt múður og hendir þorskhausum í þá sem henni líkar ekki við, líka í stóru karlana. Fiskverkakonurnar sem hópur eru annað slagið að stríða yfirmanninum Gvendi, fela sig til dæmis fyrir honum. Húmorinn í þessum sögum er allsráðandi og þegar ég var að lesa þær allar aftur núna, þá rifjuðust upp fyrir mér hin fleygu orð: Konur eru hræddar við að karlar drepi þær, en karlar eru hræddir við að konur hlæi að þeim. Gísli gerir einmitt þetta í bókunum um Siggu Viggu, hann gerir karlana hlægilega, þeir eru allir algjörir aumingjar og lúsablesar. Þeir stjórnamálamenn sem koma í heimsókn í frystihúsið eru svo blindfullir að fiskverkakonurnar þurfa að keyra þá um í hjólbörum. Þær hlæja stöðugt að Gvendi og vissulega er Blíða líka stundum hlægileg með sína snúðaást og tilraunir til að ná sér í mann. Sigga Vigga er aftur á móti aldrei aðhlátursefni, hún er bara fyndin. Hárklúturinn hennar er ofurhetjubúningur, því starfssystur hennar eru með harða hatta til varnar, enda var þetta öllu áhættumeira umhverfi sem þær störfuðu í þá en er í dag, þær voru í slorinu. Þegar nýjar stúlkur spyrja hvers vegna Sigga Vigga sé ekki með harðan hatt, þá sýnir Blíða vinkona hennar ástæðuna, lemur hana í hausinn með skrúflykli, sem snarbeyglast en Sigga Vigga snýr sér við og spyr alls ósködduð hvort eitthvað hafi verið. Hún er með harðan haus, í víðustu merkingu, ekkert bítur á hana.“ Yfirlitssýning á verkum Gísla verður opnuð í Bókasafni Kópavogs 16. mars nk.

Gísli Ástþórsson

Fjölhæfur

Gísli J. Ástþórsson var blaðamaður, ritstjóri, rithöfundur og teiknari. Fæddur 1923 og lauk BA-prófi í blaðamennsku frá University of North Carolina 1945. Hann var fyrsti Íslendingurinn með háskólamenntun í því fagi. Blaðamennskuferill Gísla spannaði nær hálfa öld og hann lagði áherslu á óháða blaðamennsku. Fyrstu árin að loknu námi starfaði Gísli á Morgunblaðinu. Hann stofnaði og ritstýrði blaðinu Reykvíkingi, var ritstjóri Vikunnar og síðar Alþýðublaðsins. Á Alþýðublaðsárunum birtust fyrstu ádeiluteikningar Gísla, t.d. ævintýri Siggu Viggu. Gísli sneri aftur til Morgunblaðsins 1973, stýrði m.a. Sunnudagsblaðinu og hélt áfram að birta ádeilumyndir, t.d. Þankastrik. Eftir hann liggja átta bækur, skáldsögur og smásagnasöfn, fjögur leikrit, pistlar, teikningar, bækurnar um Siggu Viggu og teiknimyndasafnið Plokkfiskur.