Er sanngjarnt að refsa Íslendingum fyrir að nota hreina orku?

Íslendingar nota nær alfarið hreina innlenda orku, heitt vatn og vatnsafl, en tiltölulega lítið af jarðefnaeldsneyti. Þetta er mjög ólíkt því sem víðast þekkist því að erlendis er langmest af orkunni framleitt með jarðefnaeldsneyti, kolum, olíu og gasi. Þrátt fyrir þetta mikla forskot Íslendinga hafa nú verið kynnt áform um að verja tæpum milljarði króna í orkuskipti hér á landi.

Umhugsunarvert er fyrir íslenska skattgreiðendur að á sama tíma hefur burðarríki Evrópusambandsins, Þýskaland, aukið kolanotkun sína til raforkuframleiðslu úr 30,2% árið 2021 upp í 33,3% í fyrra. Hér á landi er öll raforka framleidd með hreinum innlendum orkugjöfum.

Ein meginröksemdin sem notuð er hér á landi fyrir því að auka þurfi hraðann í orkuskiptum er að þrýstingur sé um það erlendis frá og jafnvel kvaðir frá Evrópusambandinu. Alvarlegast í þeim efnum er auðvitað það sem snýr að millilandaflugi. Og enn er allt of óljóst hvernig brugðist verður við ákveði Evrópusambandið að veita Íslandi ekki undanþágur.

En hvernig stendur á því að á sama tíma og Íslendingar, sem eiga líklega heimsmet í hreinni orkunotkun, reyna að ná enn meira forskoti með miklum tilkostnaði, skrúfar burðarríki Evrópusambandsins fyrir kjarnorkuofna sína en mokar þess í stað ómældu magni af kolum inn í kolaofnana? Telur einhver að þetta sé eðlilegt eða sanngjarnt?