Hamborg Blóm og kerti eru fyrir framan húsnæði Votta Jehóva í Hamborg þar sem sex manns voru myrtir og fjöldi slasaður eftir skotárásina.
Hamborg Blóm og kerti eru fyrir framan húsnæði Votta Jehóva í Hamborg þar sem sex manns voru myrtir og fjöldi slasaður eftir skotárásina. — AFP/Tobias Schwarz
Óánægður fyrrverandi félagi Votta Jehóva skaut sex manns til bana úr söfnuðinum í þýsku borginni Hamborg áður en hann framdi sjálfsmorð á fimmtudagskvöldið. Átta aðrir særðust alvarlega í árásinni að sögn innanríkisráðherra borgarinnar, Andy Grote,…

Óánægður fyrrverandi félagi Votta Jehóva skaut sex manns til bana úr söfnuðinum í þýsku borginni Hamborg áður en hann framdi sjálfsmorð á fimmtudagskvöldið. Átta aðrir særðust alvarlega í árásinni að sögn innanríkisráðherra borgarinnar, Andy Grote, sem segir glæpinn einsdæmi í nýlegri sögu borgarinnar.

Lögreglan nafngreindi skotmanninn í gær sem hinn 35 ára Philipp F., sem hafði verið félagi í Vottum Jehóva en yfirgefið samfélagið fyrir átján mánuðum. Lögregla hefur ekki fundið neina ástæðu fyrir ódæðinu.

Nafnlaus ábending hafði þó verið send til eftirlitsnefndar um vopnaburð í janúar þar sem bent var á skotmanninn sem hugsanlega hættulegan því hann væri haldinn óstjórnlegri reiði út í Votta Jehóva og fyrrverandi vinnuveitendur sína. Þegar íbúð árásarmannsins var rannsökuð í gær kom í ljós talsvert magn af skotfærum.

Guðsþjónusta var í byggingu Votta Jehóva á fimmtudagskvöldið þegar Philipp F. hóf árásina. Fyrst hafði hann skotið á bíl sem var á leiðinni til safnaðarhússins, en kona undir stýri slapp með lítils háttar meiðsli og hafði samband við lögreglu. Árásarmaðurinn skaut á glugga byggingarinnar og fór þar inn og hóf skothríð á söfnuðinn, en um þrjátíu manns voru við athöfnina og aðrir 25 tóku þátt í athöfninni í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrstu tilkynningar bárust lögreglunni kl. 21:04 og lögreglan kom á staðinn nokkrum mínútum síðar. Það varð til þess að árásarmaðurinn flúði á fyrstu hæð hússins þar sem hann skaut sig til bana. Talið er að snögg viðbrögð lögreglu hafi bjargað mörgum mannslífum. Fyrstu fréttir frá lögreglu voru þær að átta manns hefðu látist, þar á meðal ófrísk kona. Konan lét ekki lífið en er alvarlega slösuð og fóstrið dó.

Þýsk yfirvöld og samtök Votta Jehóva í Þýskalandi hafa lýst yfir mikilli sorg yfir árásinni. Almenningur er sleginn en í Þýskalandi hafa árásir öfgahópa vakið mikinn óhug. Í desember 2016 óku íslamskir öfgamenn vörubíl inn í jólamarkað sem kostaði tólf manns lífið og í febrúar 2020 skaut öfgamaður tíu manns til bana og særði fimm í miðborg Hanau.