Hólmfríður Jónsdóttir fæddist á Merkigili í Eyjafirði 23. nóvember 1926. Hún lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð, Akureyri, 22. febrúar 2023. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Rósinberg Sigurðsson, f. 11. júlí 1888, d. 11. apríl 1954, og Rósa Sigurðardóttir, f. 1. júlí 1893, d. 19. september 1987. Systkini Hólmfríðar voru: Guðrún Rósa, f. 20. maí 1919, d. 2. nóvember 2000, Gunnar, f. 7. maí 1921, d. 12. júlí 1997, Þorgerður Jóhanna, f. 7. júní 1924, d. 7. febrúar 2003, og Páll, f. 1. nóvember 1931, d. 17. júlí 2014.

Hólmfríður giftist 22. október 1949 Kristjáni Margeiri Jónssyni, f. 22. október 1915, d. 1. júní 1996. Börn þeirra eru: Ólöf Guðbjörg, maki Ingimar Snorri Karlsson; Jónheiður, maki Rúnar Hafberg Jóhannsson; Óskar, maki Mikkalína Björk Mikaelsdóttir og Bjarni, maki Ragnheiður Bragadóttir.

Fyrir átti Kristján dótturina Huldu, móðir hennar var Stefanía Finnbogadóttir.

Barnabörn Hólmfríðar eru 12, barnabarnabörn 23 og barnabarnabarnabörn fimm.

Útför Hólmfríðar fór fram í kyrrþey, að hennar ósk, 10. mars 2023.

Fallin er frá tengdamóðir mín, Hólmfríður Jónsdóttir, en hún lést þann 22. febrúar sl. Kynni okkar hófust fyrir rúmum 45 árum þegar við Bjarni, sonur hennar, felldum hugi saman og hann kynnti mig fyrir foreldrum sínum, Hólmfríði og Kristjáni, á heimili þeirra á Akureyri. Þar var mér vel tekið og dvöldum við Bjarni hjá þeim sumarlangt þar sem þau sýndu mér einstaka hlýju og gestrisni. Þótt Hólmfríður og Kristján byggju á Akureyri og við í Reykjavík, voru samskipti okkar alla tíð mikil og góð.

Hólmfríður var fædd og uppalin á Merkigili í Eyjafirði og gekk í skóla á stórbýlinu Grund skammt frá, þar sem ættingjar hennar bjuggu. Átti hún margar dýrmætar minningar fá þeim æskudögum sem hún sagði okkur frá. Sem unglingur vann hún á berklahælinu í Kristnesi og hafði það djúp áhrif á hana. Á fullorðinsárum vann hún lengst af utan heimilis auk þess að ala upp fjögur börn. Hafa vinnudagarnir því eflaust oft verið langir og strangir.

Tengdamóðir mín var mjög bókelsk kona, sem hafði mikinn áhuga á sögu, þjóðlegum fróðleik og ættfræði. Hún var hafsjór af fróðleik um sveitirnar fyrir norðan og þekkti þar hvern dal og bæ. Kynntist ég því vel þegar ég dvaldi nokkur sumur á Akureyri ásamt Ragnheiði, eldri dóttur okkar Bjarna, þegar hún var á barnsaldri. Hólmfríður hafði yndi af að ferðast og ófáar ferðirnar fórum við með henni um Eyjafjörð, Hörgárdal og Fnjóskadal og þræddum alla afdalavegi sem unnt var að komast. Þá naut frásagnargleði hennar sín vel, þegar hún sagði frá fólkinu sem þar bjó, ævi þess og örlögum. Margar ferðirnar fórum við í Kjarnaskóg þar sem nóg var af skemmtilegum stöðum fyrir börn að leika sér á og þegar haustaði fórum við í berjamó með girnilegt nesti sem Hólmfríður útbjó. Nokkrum árum síðar dvaldi Hólmfríður hjá mér í Kaupmannahöfn, þegar ég var þar vegna vinnu minnar, og gætti Ragnheiðar sem þá var orðin tíu ára. Fóru þær þá margar skemmtilegar gönguferðir um nágrenni okkar á Kristjánshöfn, fylgdust með mannlífinu og lentu í ýmsum ævintýrum sem Hólmfríður sagði síðan frá á sinn einstaka hátt. Þegar Hólmfríður var komin á efri ár fór hún margar ferðir með okkur Bjarna til Evópu, þar sem við ferðuðumst víða, bæði í borgum og um sveitir. Dvaldi hún hjá okkur um tíma þegar við bjuggum í Englandi og síðar Þýskalandi og eiga dætur okkar Bjarna margar góðar minningar um ömmu sína frá þeim tíma.

Hólmfríður var einstaklega gestrisin og tók alltaf vel á móti okkur þegar við komum til Akureyrar. Skipti þá engu hvort með í för væru ættingjar mínir og vinir, allir voru jafn velkomnir. Hún var alltaf hress og kát og hafði einstakan hæfileika til að sjá það spaugilega og skemmilega í tilverunni. Mesta gleði hennar voru afkomendur hennar. Hún var hreinskiptin, glaðvær, mátti ekkert aumt sjá, vildi öllum vel og var þakklát fyrir það sem henni hlotnaðist í lífinu.

Að leiðarlokum kveð ég tengdamóður mína með þakklæti og hlýju. Blessuð sé minning hennar.

Ragnheiður Bragadóttir.

Við andlát ömmu okkar, Hólmfríðar Jónsdóttur, lýkur ákveðnum kafla í lífi okkar. Þótt við söknum hennar gleðjumst við þegar við hugsum um farinn veg og þær fjölmörgu ánægjustundir sem við áttum saman.

Fyrir okkur var amma tengiliður við gamla tíma. Hún fæddist í torfbæ en þess var alltaf gætt að allt væri hreint og þrifalegt og vel var tekið á móti gestum og gangandi. Foreldrar hennar byggðu nýjan bæ og langafi kom upp rafstöð í ánni við bæinn, sem dugði til að sjá honum fyrir rafmagni, sem ekki tíðkaðist almennt á þeim tíma. Þarna voru Íslendingar að brjótast úr viðjum fátæktar en á tuttugustu öld færðist Ísland frá því að vera eitt fátækasta land Evrópu í að vera eitt hið ríkasta. Með frásögnum ömmu fengum við lýsingu á þessari þróun og lærðum að lífsgæði samtímans eru ekki sjálfsögð heldur afrakstur mikillar vinnu og þrautseigju.

Við heimsóttum ömmu oft á Akureyri og komum aldrei að tómum kofanum hjá henni. Hún átti alltaf, að því er virtist, endalaust magn af heimagerðum kræsingum. Við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, ekki síst um uppvaxtarár hennar í Eyjafirði og uppátæki pabba og bróður hans þegar þeir voru litlir. Amma kom líka oft til okkar í Reykjavík og við ferðuðumst mikið um landið saman, en hún hafði unun af ferðalögum. Það var alltaf glatt á hjalla þegar amma var með í för. Þegar við fórum til útlanda kom amma líka oft með. Hún dvaldi hjá okkur í Danmörku, Englandi og Þýskalandi þegar við bjuggum þar og var með okkur þegar við keyrðum um Mið-Evrópu og alla leið til Danmerkur. Þá voru tíu lönd heimsótt á þremur vikum. Í Danmörku kom dönskukunnáttan sér vel og landafræðin vafðist ekki fyrir henni í Evrópuferðum. Þegar við systur urðum fullorðnar og fórum til náms erlendis var amma hætt að treysta sér til að fara í svona löng ferðalög. Við sendum henni þá alltaf póstkort frá þeim stöðum sem við dvöldum á og ferðuðumst til, svo hún gæti notið þessa með okkur.

Síðustu ár ævi sinnar dvaldi amma á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Þá var heilsunni farið að hraka og minnið að gefa sig. Þar naut hún góðrar umönnunar og talaði oft um hvað þar væri gott að vera, þess fullviss að ekki væri til betra elliheimili, eins og hún kallaði það upp á gamla mátann. Dætur hennar hlúðu líka einstaklega vel að henni með reglulegum heimsóknum og synirnir hringdu frá Reykjavík og Noregi. Afkomendurnir voru henni allt og það sem veitti henni mesta ánægju var hvað börnin hennar voru samrýmd. Þegar hún var spurð hvernig henni liði sagði hún að sér liði vel, hvernig væri annað hægt, vel væri séð um hana, allt gengi vel hjá afkomendum hennar svo hún hefði engar áhyggjur.

Við kveðjum ömmu okkar með kærri þökk fyrir þá gleði og góðu minningar sem hún veitti okkur.

Ragnheiður og Unnur.