Ánanaust Hringtorgið er vestast í Vesturbænum. Til stendur að auka umferðaröryggi þarna á næstunni.
Ánanaust Hringtorgið er vestast í Vesturbænum. Til stendur að auka umferðaröryggi þarna á næstunni. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg/Ragnar Th.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt áframhaldandi undirbúning, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á gönguþverun yfir Ánanaust og nýrra gönguljósa yfir Eiðsgranda. Fulltrúar meirihlutaflokkanna í ráðinu bókuðu að til…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt áframhaldandi undirbúning, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á gönguþverun yfir Ánanaust og nýrra gönguljósa yfir Eiðsgranda. Fulltrúar meirihlutaflokkanna í ráðinu bókuðu að til framtíðar væri æskilegt breyta hringtorginu við JL-húsið í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.

Tillaga um endurbætur á umræddu svæði í Vesturbænum barst frá skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Í greinargerð samgöngustjóra kemur fram að Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafi unnið að tillögunni í sameiningu með það að markmiði að bæta umferðaröryggi og aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda. „Umferð óvarinna vegfarenda hefur aukist á þessu svæði. Íbúar hafa kallað eftir bættu aðgengi að stígum við ströndina auk þess sem umferðarslys sem orðið hafa á undanförnum misserum gefa tilefni til breytinga,“ segir í greinargerðinni.

Tillagan gerir ráð fyrir nýjum gönguljósum á Eiðsgranda, vestan við innkeyrslu að Hringbraut 121. Samhliða nýjum gönguljósum er gert ráð fyrir að akreinum vestur Eiðsgranda verði fækkað.

Núverandi vinstribeygjuvasi verði fjarlægður og í staðinn verði núverandi vinstri akrein gerð að beygjuakrein. Tillagan gerir ráð fyrir að ekki verði unnt að taka vinstri beygju frá Hringbraut 121 (JL-húsi) inn á Eiðsgrandi.

Skjól fyrir gangandi fólk

Á Ánanaustum, næst hringtorgi á gatnamótum Ánanausta, Hringbrautar og Eiðsgranda, gerir tillagan ráð fyrir að settar verði upp miðeyjur milli akreina í og úr hringtorginu. Miðeyjunum er ætlað að veita gangandi vegfarendum á leið yfir götuna skjól. Tvær akreinar eru í hvora átt á Ánanaustum svo erfitt geti verið að átta sig á eða hafa yfirsýn yfir aðvífandi umferð.

Ánanaust og Eiðsgrandi eru þjóðvegir í þéttbýli og á forræði Vegagerðarinnar. Aðkoma Reykjavíkurborgar að væntanlegri framkvæmd felst í aðlögun og gerð stíga við gönguþveranirnar, segir í greinargerðinni.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, svo og Vinstri grænna, lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins: „Við samþykkjum til bráðabirgða tillögu um bætta ljósastýringu og gönguþverun við gatnamót Hringbrautar og Ánanausta. En betur má ef duga skal. Íbúðum fjölgar mikið á svæðinu næstu misseri. Hringtorgið og næsta nágrenni þess er afleitt og beinlínis hættulegt fyrir fótgangandi vegfarendur. Umferðin á þessum stað er of hröð og hættuleg. Æskileg væri að fækka akreinum með fram ströndinni og breyta hringtorginu í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.“

Á Byko-reitnum við Ánanaust er verið að byggja stórt fjölbýlishús. Þá er áformað að innrétta íbúðir í JL-húsinu beint á móti.