Sveinbjörn Birgisson fæddist 17. september 1968. Hann lést 2. febrúar 2023.

Útför hans fór fram 16. febrúar 2023.

Lífið getur verið svo stutt og svo óréttlátt. Það er svo sárt að ég sé að skrifa minningargrein um þig, elsku besti Bjössi minn. Ég er enn að átta mig á því að þú sért farinn frá okkur og ég hafi verið að kveðja þig á 11E. Að alast upp í næsta húsi við ykkur fjölskylduna og ömmu og afa á Eyrarbakka voru algjör forréttindi sem ég mun aldrei gleyma, góðar minningar hlýja mér.

Alltaf þegar ég kom í heimsókn í Merkistein til ykkar og hitti þig þá hélt ég að það væri bara eitt lið til í heiminum, Liverpool, og var ég oftast leyst út með gjöfum yfirleitt merktum Liverpool-liðinu þínu, það var bara til eitt lið.

Það var svo skemmtileg ferðin sem við fórum með ömmu Guggu út til Ørsta að hitta þig og Guggu og fjölskylduna, svo gaman að sjá hvað þú varst að vinna við, þetta eru dýrmætar minningar.

Eftir að við urðum eldri þá varstu alltaf Prinsinn eins og amma Gugga kallaði þig og við öll kölluðum þig. Samveran á Íslandi, Spáni og Noregi er það sem ég mun geyma í hjarta mínu.

Alltaf passaði Bjössi upp á okkur skutlaði okkur og hélt á öllum pokunum, fór með okkur í búðir og aldrei kvartaðirðu, stóðst með bros á vör og sagðir okkur að við værum bestar. Þolinmæðin, væntumþykjan og móttökurnar þegar við komum til Spánar, það var engu líkt. Gleymi því aldrei þegar þú Prinsinn stóðst með spjald á flugvellinum merkt Erla Perla og gellur. Ég var svo heppin og þakklát með frænda, þú peppaðir mig alltaf upp og stóðst með mér sama hvað ég tók mér fyrir hendur. Þú varst einstakur þegar ég ákvað að flytja til Osló. Þú hafðir alltaf trú á mér. Þegar við bjuggum á sama tíma í Noregi var svo gaman að fá símtal frá þér þar sem við töluðum um daginn og veginn.

Kaffihúsahittingarnir og síðast en ekki síst öll gleðin, hlátrasköllin og samveran. Ég gleymi því aldrei þegar þú komst í fertugsafmælið mitt og hvíslaðir að mér fallegum orðum, sagðir mér að ég væri flottust og ég gæti allt. Ég er búin að vera að fletta í gegnum allar myndirnar og vídeóin og skilaboðin - það mun ylja mér um hjartarætur. Það var gott að hitta þig þó ég vissi að ég væri að kveðja þig, það var gott að finna fyrir þér þegar ég lagði hönd mína á ennið á þér og þú sagðir Dagný mín. Þann tíma sem ég átti með þér geymi ég í hjarta mínu og mun aldrei gleyma. Elska þig að eilífu, Bjössi minn, þú varst Prinsinn okkar.

Þín

Dagný frænka.

Ég kynntist Bjössa eitt sumarið í afleysingatúr á Fróða ÁR-038. Það lá í augum uppi að hann var gerólíkur flestum sjómönnum sem ég hafði kynnst. Hann var yfirvegaður og nærveran svo hlý að ég var undrandi og dró fyrst í efa að hann væri einlægur.

Þegar leið á túrinn kom í ljós að við vorum nánast nágrannar í miðbæ Reykjavíkur og áttum margt sameiginlegt, m.a. áhuga á djassi, lestri góðra bóka, ferðalögum o.s.frv. Þessi kynni urðu síðan að einu mikilvægasta vinasambandi í lífi mínu.

Bjössi var fyrirmynd á svo margan hátt. Hann var örlátur og sá ekki eftir fénu sem hann lét af hendi. Oft var slegist um hvor okkar myndi greiða fyrir hressinguna í Eymundsson á Skólavörðustíg og rétti Bjössi þá fram seðla og ég símann að posanum, sem var afgreiðslustúlkunni til vandræða.

Hann hafði óhagganlega réttlætiskennd og við rifumst um pólitík og samfélagsmál af ástríðu. Hann mat fólk eingöngu út frá eiginleikum þess og kom eins fram við ráðherra og útigangsmenn. Hann dæmdi menn aldrei og fann enga þörf til að hefja sig upp yfir aðra. Þessi sjaldgæfi eiginleiki var birtingarmynd þroskans og kærleiksins sem lá innra með honum og gerði nærveru hans svo góða.

Ég á bágt með að koma orðum að því hvað Bjössi mótaði mig mikið. Hann sparaði ekki við mig hrósið og hvatti mig stanslaust áfram. Hann lét menn hvorki komast upp með að vaða yfir sig né yfir þá sem voru minni máttar.

Daginn sem Bjössi féll frá varð ég var við kyrrðina hans í umhverfinu og í sjálfum mér. Það fer ekki milli mála að þetta var kyrrðin hans Bjössa sem hann hvíldi svo vel í. Þó að jarðvist hans sé lokið og hann kveðji okkur langt fyrir aldur fram veit ég hvað hann naut þess að lifa og ég er sannfærður um að þörf sé á honum annars staðar.

Í hvert skipti sem ég geng Skólavörðustíginn sé ég hann fyrir mér: sallarólegan og íhugulan á svip, með sígarettu milli varanna og kaffibolla í hendi.

Hvíldu í friði, elsku vinur.

Páll Ásgeir Björnsson.