Kjalarnes Unnið að frágangi við undirgöngin sem eru nærri Saltvík.
Kjalarnes Unnið að frágangi við undirgöngin sem eru nærri Saltvík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Góður gangur er í framkvæmdum við tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi sem Ístak hf. hefur með höndum. Alls eru 20-25 manns frá fyrirtækinu við störf á vettvangi. Tvöföldun vegarins, það er 4 km frá Kollafirði að Grundarhverfi, er langt komin

Góður gangur er í framkvæmdum við tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi sem Ístak hf. hefur með höndum. Alls eru 20-25 manns frá fyrirtækinu við störf á vettvangi. Tvöföldun vegarins, það er 4 km frá Kollafirði að Grundarhverfi, er langt komin. Ólokið er 1,5 km vegkafla sem hefur verið undir fargi í vetur. Því verður senn mokað burt, burðarlög sett á og svo malbikað í vor. „Þetta er allt á áætlun og ég vænti þess að vegurinn verði tilbúinn áður en sumarumferðin hefst,“ segir Þröstur Sívertsen, staðarstjóri hjá Ístaki.

Á tveimur stöðum er nú verið að setja undirgöng í vegstæðið, það er við Varmhóla við Kollafjörð, og nærri Saltvík. Á síðarnefnda staðnum, þar sem meðfylgjandi mynd var tekin, eru undirgöng sem verða tilbúin á næstu dögum. Þá verður mokað svo ganga megi frá veginum, sem er einn sá umferðarþyngsti á landinu. sbs@mbl.is