Ég legg áherslu á að Ísland standi vel og myndarlega að þeim verkefnum þar sem við getum orðið að liði í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins.

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Atburðir síðustu ára hafa eðlilega vakið okkur til umhugsunar um stöðu alþjóðamála. Tveggja ára tímabili sem einkenndist af innilokun og einangrun vegna farsóttar lauk á sama tíma og innrás Rússlands í Úkraínu vakti nýjar áhyggjur af öryggi og friðsæld í okkar heimshluta. Fyrir fólk af minni kynslóð má segja að sá veruleiki sem nú blasir við sé ekki í samræmi við þær vonir og væntingar sem við vorum alin upp við. Engu að síður stöndum við frammi fyrir honum og við tökum hann alvarlega.

Frá því ég tók við embætti utanríkisráðherra hef ég lagt mikla áherslu á að tala máli alþjóðlegrar samvinnu og alþjóðalaga. Því miður hefur mér stundum þótt skorta skilning á mikilvægi þessara þátta fyrir Ísland. Allt fram að innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 mátti heyra nokkuð háværar raddir í opinberri umræðu á Íslandi sem töluðu á þann veg að Ísland gæti setið hjá þegar kæmi að afstöðu til landvinningatilburða Rússa í Úkraínu. Lítill en hávær hópur í samfélaginu gagnrýndi þátttöku Íslands í refsiaðgerðum og kvartaði undan því að með því að sýna samstöðu með okkar bandalagsþjóðum væri tækifærum til viðskipta við Rússland fórnað. Enn í dag heyrast öðru hverju raddir sem vilja meina að samstaða okkar með bandalagsríkjum sé of dýru verði keypt; að það sé raunhæfur valkostur að Ísland standi á hliðarlínunni og maki krókinn á því að vera í sérstöku vinfengi við þau ríki sem freklegast brjóta gegn alþjóðalögum og mannréttindum.

Í störfum mínum hef ég lagt ofuráherslu á mikilvægi þess fyrir sjálfstætt og fullvalda Ísland að við tökum virkan þátt í varðstöðu líkt þenkjandi ríkja um þá meginreglu að samskipti ríkja grundvallist á lögum og venjum, en lúti ekki hótunum og aflsmun. Í því samhengi hef ég margsinnis bent á að fámenn ríki á borð við Ísland eigi allt undir þeirri meginreglu að landamæri og lögsaga ríkja séu friðhelg. Þetta er mikilvægasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og er grundvöllur bæði öryggis okkar og efnahagslegrar farsældar. Í þeim efnum getur Ísland lagt lóð á vogarskálar rétts málstaðar með því að tala af skynsemi og yfirvegun.

Undanfarna daga hefur farið fram mikilvæg og áhugaverð umræða um framlag Íslands til eigin varna. Í því samhengi skiptir miklu að halda því til haga að þrátt fyrir breytta heimsmynd njótum við Íslendingar þeirrar gæfu að búa í friðsælasta landi heims. Sem betur fer eru engin teikn á lofti um að umtalsverð ógn steðji að Íslandi, þótt vitaskuld sé mikilvægt að vera ætíð á varðbergi og hugsa til langs tíma. Við þurfum að halda því til haga að hinar raunverulegu tryggingar á öryggi Íslands, sem felast í aðild að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða samningi við Bandaríkin, eru líklega eitt besta og tryggasta fyrirkomulag varna sem hugsast getur. En það er heldur ekki eins og Ísland sé sér á báti að því leyti að treysta á alþjóðlegt samstarf og samvinnu í öryggis- og varnarmálum. Flest lönd í okkar heimshluta treysta fyrst og fremst á alþjóðlegt samstarf til þess að tryggja öryggi sitt, enda myndu margfalt fjölmennari þjóðir en hin íslenska mega sín lítils gagnvart ofurveldi stórveldis ef til innrásar kæmi. Nýlegar aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu undirstrika þennan veruleika.

Ég legg áherslu á að Ísland standi vel og myndarlega að þeim verkefnum þar sem við getum orðið að liði í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins. Með því að vera verðugir bandamenn í öflugasta varnarbandalagi veraldarsögunnar tryggjum við best hagsmuni íslensku þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma. Í þeim efnum tel ég tilefni til þess að Ísland auki framlag sitt og nýti kosti smæðarinnar þegar því verður við komið. Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur verið tekið eftir framlagi Íslands þótt það sé smátt í sniðum. Ísland brást til að mynda mjög hratt, og hraðar en flestir, við ákalli um nauðsynlegar sendingar á hergögnum til Úkraínu við upphaf innrásarinnar. Það var framlag sem skiptir raunverulegu máli. Lega Íslands á miðju Atlantshafi er þar að auki mikilvæg og við verðum að sinna skyldum okkar sem gistiríki svo að bandalagsríki okkar geti athafnað sig. Hvað áhrærir okkar eigin varnir þá er rétt að undirstrika að Ísland á nú í nánara og þéttara samstarfi við bandalagsríki okkar en verið hefur um langt árabil. Það birtist í þéttu pólitísku og hernarðarlegu samstarfi en einnig í auknu eftirliti og viðbúnaði á Norður-Atlantshafi sem við leggjum til með upplýsingamiðlun, varnarinnviðum og þjónustu.

Umræða um stöðu öryggismála á Íslandi, sem byggist á raunsæju og yfirveguðu mati á raunverulegri hættu, gefur að mínum dómi ekki tilefni til hræðslu eða upphrópana. Hins vegar er hún góð áminning um að Ísland tekur ábyrgð á eigin öryggi og eigin stöðu í heiminum með því að taka virkan þátt í að verja þau grundvallargildi alþjóðakerfisins sem öryggi okkar – og heimsins alls – byggist á. Ég tel hins vegar mikilvægt að sú kynslóð leiðtoga á Íslandi sem ég heyri til hafni sjónarmiðum um að Ísland sitji hjá í stórum alþjóðamálum. Ísland á að koma fram af hógværu sjálfstrausti og víkja sér ekki undan þeim skyldum sem felast í því að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð meðal þjóða. Í því mun einnig felast aukin þátttaka í varnartengdum verkefnum í samvinnu og sátt við þær þjóðir sem við eigum mesta samleið með.