Beðið eftir strætó Í mörgum skýlum borgarinnar er lítið skjól að finna.
Beðið eftir strætó Í mörgum skýlum borgarinnar er lítið skjól að finna. — Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is „Borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík. Slíkum skýlum verði komið fyrir á fjölförnum biðstöðvum í öllum hverfum borgarinnar í því skyni að bæta aðstæður farþega og fjölga viðskiptavinum Strætó.“

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

„Borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík. Slíkum skýlum verði komið fyrir á fjölförnum biðstöðvum í öllum hverfum borgarinnar í því skyni að bæta aðstæður farþega og fjölga viðskiptavinum Strætó.“

Þannig hljóðar tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem Kjartan Magnússon hugðist flytja á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Kjartan segir að meirihluti borgarstjórnar hafi hins vegar ákveðið í krafti atkvæða að taka tillöguna af dagskrá fundarins. Kjartan var ósáttur við það og telur að meirihlutinn hafi brotið gegn lögvernduðum rétti borgarfulltrúa til að setja mál á dagskrá. Hann vonast til að tillagan verði tekin fyrir á næsta fundi borgarstjórnar.

Kjartan segir að mikil þróun hafi átt sér stað varðandi biðskýli víða um heim á undanförnum árum. Margar erlendar vetrarborgir leggja sig nú fram um að reisa nýja tegund biðskýla, sem verja farþega fyrir veðri og vindum. Fyrstu skýlin af þessari gerð hafa nú risið í Garðabæ og Hafnarfirði og er hið fyrrnefnda með upphitunarbúnaði. Skynjari setur búnaðinn af stað þegar farþegi kemur í skýlið.

Í glærukynningu sem Kjartan hefur látið útbúa segir að helsti tilgangur biðskýlis sé að verja farþega fyrir veðrum, vindum og hávaða. Sannað sé að góð hönnun biðskýla og skiptistöðva bæti heildarupplifun farþega og stuðli að jákvæðu viðhorfi almennings til þjónustunnar. „Ef biðskýli þjóna ekki þeim grunntilgangi að verja farþega fyrir regni og vindum og eru þar að auki ljót og óaðlaðandi, eykur það líkur á slæmri upplifun farþega og almennt neikvæðu viðhorfi gagnvart almenningssamgöngum.“

Í tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að lagt til að upphituðum strætóskýlum verði komið fyrir á fjölförnum biðstöðvum í öllum hverfum borgarinnar í því skyni að bæta aðstæður farþega og fjölga viðskiptavinum Strætó. Eru taldir upp 14 staðir, m.a. í nágrenni við fjölmenna vinnustaði og skóla. Þeir eru: Ártún, Borgarspítalinn, FB, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Hlemmur, Kringlan, Lækjartorg, Landspítalinn, MH, MR, Mjóddin, Spöngin og Verzló.

Í glærukynningunni er minnt á að árið 2008 voru gerðar tilraunir með upphituð biðskýli í borginni og viðbrögð farþega voru jákvæð. Ekkert hafi heyrst af verkefninu eftir 2011.