Landsréttur Vegna mikils álags er nauðsynlegt talið að bæta við dómara.
Landsréttur Vegna mikils álags er nauðsynlegt talið að bæta við dómara. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Felur það í sér að að dómurum við Landsrétt verði fjölgað varanlega um einn, úr 15 í 16. Fram kemur í greinargerð að frumvarpið…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Felur það í sér að að dómurum við Landsrétt verði fjölgað varanlega um einn, úr 15 í 16.

Fram kemur í greinargerð að frumvarpið grundvallist á upplýsingum og tillögum sem ráðuneytinu bárust frá dómstólasýslunni og Landsrétti sem eru þær stofnanir sem efni þess varðar helst.

Sú breyting sem frumvarpið felur í sér sé ótvírætt til þess fallin að þjóna almannahag og sé mikilvægt að hún fái þinglega meðferð hið fyrsta. Í þessu ljósi sem og þess að efnistök frumvarpsins séu mjög afmörkuð var ekki talið nauðsynlegt að kynna það í samráðsgátt.

Þá kemur fram að fjölgun um einn landsréttardómara miði að því að unnt verði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn. Launa- og starfstengdur kostnaður eins dómara við Landsrétt nemur um 30 milljónum króna árlega. Gert er ráð fyrir að þessi útgjaldabreyting rúmist innan útgjaldaramma dómstólanna.

Hinn 7. desember 2022 barst dómsmálaráðuneytinu erindi frá dómstólasýslunni, ásamt ítarlegu minnisblaði Landsréttar, þar sem stofnunin lýsir þeirri afstöðu sinni að brýn þörf sé á að fjölga dómurum við Landsrétt um að minnsta kosti einn svo unnt verði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn.

Í erindinu er meðal annars greint frá því að nú liggi fyrir að frá árinu 2019 og fram til september 2022 hafi um sex ársverk dómara við Landsrétt farið forgörðum. Þessa stöðu megi að nokkru rekja til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2019 um annmarka á skipan dómara við réttinn og heimsfaraldurs kórónuveiru, en ekki að öllu leyti.

Viðvera í dómsal eykst

Þannig hafi frekari greining á stöðu mála hjá Landsrétti leitt í ljós að álag við réttinn hafi vaxið töluvert undanfarin ár og í því sambandi verði að horfa til þess að í nýlegri dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu sé gerð ríkari krafa um skýrslutökur fyrir Landsrétti og spilun á upptökum af skýrslutökum úr héraði en gert hafi verið ráð fyrir við undirbúning stofnunar réttarins.

Málsmeðferð Landsréttar hafi tekið mið af þessari réttarþróun og af greiningu Landsréttar sjálfs megi ráða að sá tími sem dómarar verji í dómsal við meðferð sakamála hafi af þessum sökum aukist umtalsvert.

Þá bendir dómstólasýslan á að af frumvarpi því sem varð að gildandi dómstólalögum megi ráða að við ákvörðun um fjölda dómara við réttinn hafi verið tekið mið af lögbundnum rétti dómara til að fara í námsleyfi.

Reyndin sé að vegna námsleyfa geti aðeins starfað fjórar þriggja manna deildir við Landsrétt. Ef dómarar við réttinn væru 16 væri hægt að fjölga deildum um eina.

„Talið er rétt að leggja framangreindar upplýsingar dómstólasýslunnar og Landsréttar til grundvallar og standa sterk rök til þess að fjölga dómurum Landsréttar. Að öðrum kosti er hætta á því að málsmeðferðartími við Landsrétt lengist frá því sem nú er. Lagt er til að fjölgunin verði varanleg í ljósi þeirra atriða sem að framan eru rakin,“ segir enn fremur í greinargerðinni.