Ingibjörg Hulda Samúelsdóttir fæddist á Jaðri við Vestmannabraut í Vestmannaeyjum 30. nóvember 1937. Hún lést 20. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Samúel Ingvarsson, bóndi frá Neðridal í Vestur-Eyjafjallahreppi, f. 7. september 1908, d. 15. desember 1993, og Ásta Gréta Jónsdóttir, húsmóðir frá Seljavöllum í Austur-Eyjafjallahreppi, f. 30. nóvember 1916, d. 6. ágúst 1945. Alsystur Huldu voru Jenný Sigríður, f. 23. febrúar 1936, d. 21. ágúst 2017, og Stúlka Samúelsdóttir, f. 10. júlí 1943, d. 8. desember 1943. Samfeðra systkini Huldu eru Ásta Gréta, f. 20. janúar 1949, Tryggvi Óskar, f. 16. febrúar 1952, og Bjarni, f. 3. ágúst 1956. Hulda átti einnig fósturbróður, Gísla Vigfússon, f. 16. maí 1951.

Hulda giftist Ágústi Hreggviðssyni húsasmíðameistara, f. 13.7. 1937, 26. desember 1959. Hulda og Ágúst eignuðust sex börn. Þau eru: 1) Ásta Jakobína, f. 18. janúar 1955, gift Jóhannesi Long og börn þeirra eru Lárus og Hulda. 2) Inga Steinunn, f. 21. apríl 1958, gift Jóel E. Gunnarssyni og börn þeirra eru Sigurður Ingi, Fanney og Júlía. 3) Hreggviður, f. 26. apríl 1963, giftur Guðrúnu Jónsdóttur og synir þeirra eru Ágúst Sölvi og Daníel. 4) Bjarki, f. 13. júní 1968, og dætur hans Tara Mist og Kiara. 5) Silja, f. 16. desember 1973, gift Axel Sveinbjörnssyni og börn þeirra eru Bjarki og Olga. 6) Leiknir, f. 16. desember 1973, giftur Tinnu Björk Halldórsdóttur og börn þeirra eru Kristian Oliver, Ágúst Arnar og Ólafía Sigrún.

Hulda var lengst af húsmóðir ásamt því að hafa starfað í fiskvinnslu. Eftir gos starfaði hún í eldhúsinu á Hraunbúðum í um það bil áratug. Hulda og Gústi bjuggu í Eyjum öll sín hjúskaparár, lengst af á Brimhólabraut 35 og Búhamri 4.

Jarðarförin fór fram í kyrrþey hinn 6. mars 2023 í Landakirkju.

„Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi sem Drottinn Guð þinn gefur þér.“ (II. Mósebók, 20. kafli, 12. vers.)

Þegar faðir minn hringdi og sagðist hafa leiðinlegar fréttir að færa, þá flaug allt annað í gegnum hugann en að mamma væri dáin. Hún sem hafði aldrei þurft að leggjast inn á sjúkrahús, nema þá til þess að leggja þessari veröld til sex ný líf. Mamma, sem kenndi sér aldrei meins nema mesta lagi kvefs og stöku flensu, var nú skyndilega hrifin burtu án þess að maður fengi færi á að kveðja hana í þessum heimi. En í samtölum okkar systkina, eftir á að hyggja, þá er þetta Guðs blessun að kveðja lífið á þennan hátt; að sofna að kvöldi í þessari veröld og vakna í faðmi Guðs að morgni. Fyrir það er ég þakklátur fyrir hennar hönd.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Ég á eftir að sakna hlýrra faðmlaga þinna elsku mamma mín og hjartahlýju sem tók ávallt á móti manni hvernig svo sem stóð á. Ég geymi í huganum allt það góða í mat og drykk, bananabrauðið og rjómaterturnar sem áttu engan sinn líka, bornar fram með heitu kakói. Kvöldstundir yfir rauðvínsglasi þar sem barnabörnin þín og börnin mín, Tara og Kiara, áttu einnig alltaf sinn sess hjá þér, sama um hvað var rætt. Og svo samtölin um síma yfir höf og lönd þar sem við skiptumst jafnan á upplýsingum um veður og vinda og samgöngumál, sem Vestmannaeyingum eru jú jafnan ofarlega í huga. Það var jú partur af okkar síðasta samtali sunnudaginn 11. febrúar þar sem þið pabbi sátuð saman og drukkuð síðdegiskaffi. Ég vil reyndar meina að þú hafir komið til mín og kvatt mig í líki dádýrs sem heimsótti mig á dánarstund þinni fyrir utan heimili mitt í Danmörku og horfði í augu mín þegar ég dró gluggatjöldin frá þann morguninn.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Elsku pabbi. Missir þinn er mikill og það kemur víst í þinn hlut að syrgja með okkur systkinunum. Þú áttir með henni Huldu þinni miklu barnaláni að fagna. Þess vegna ert þú nú aufúsugestur á mörgum heimilum sem geta létt þér erfiðar stundir fram undan, og vona ég að við fáum að veita þér gleði og nærveru um ókomin ár.

Bjarki Ágústsson.