List Sterkur svipur og sterkir litir. Bjarni Þór Bjarnason hér með nýjustu Akrafjallsmyndina á trönunum.
List Sterkur svipur og sterkir litir. Bjarni Þór Bjarnason hér með nýjustu Akrafjallsmyndina á trönunum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Línurnar eru skarpar og litirnir skærir. Á vinnustofunni eru myndir á veggjum af umhverfi í Húsafelli, Vestmannaeyjum, Skorradal og á Þingvöllum. Andspænis útidyrum er Jimi Hendrix á þilinu, í mikilli sveiflu með gítarinn góða

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Línurnar eru skarpar og litirnir skærir. Á vinnustofunni eru myndir á veggjum af umhverfi í Húsafelli, Vestmannaeyjum, Skorradal og á Þingvöllum. Andspænis útidyrum er Jimi Hendrix á þilinu, í mikilli sveiflu með gítarinn góða. „Rokkarar eru litríkir og mér finnst skemmtilegra að mála slíka. Núna langar mig til þess í ríkari mæli að mála eftir eigin höfði, síðustu árin hef ég að mestu unnið eftir pöntunum og þá gjarnan myndir af húsum, sveitabæjum og fjöllum. Núna er kominn sá tími að ég muni róa á ný mið,“ segir Bjarni Þór Bjarnason, listmálari á Akranesi.

Listin er mitt hálfa líf

Á besta stað í bænum, segir Bjarni Þór um vinnustofu sína sem er neðst á Kirkjubraut á Skaganum, rétt hjá Akratorgi. Þar sem áður var skóbúð eru nú myndir og málverk á veggjum. Bakherbergið er veröld sköpunar með penslum og málningardósum. Allt er að gerast. „Listin er mitt hálfa líf,“ segir Bjarni sem er Skagamaður í húð og hár. Starfsferil sinn hóf hann í slippnum á Akranesi en kominn vel á þrítugsaldur fór hann í myndlistarnám. Hann starfaði lengi við myndlistarkennslu, meðal annars í Brekkubæjarskóla á Akranesi, en sneri sér alfarið að eigin list og verkum fyrir um áratug.

Árstíðir, ljós og skuggar

Myndir Bjarna eru orðnar margar, þótt lífið sé stutt og listin löng. „Ég hef ábyggilega málað þúsund myndir af Akrafjalli og slíkar er víða að finna hér í bæ. Svipur fjallsins er sterkur séð frá vitanum hér niður á Breið en fallegast finnst mér það vera horft frá golfvellinum hér ofarlega í bænum. Og Akrafjallið breytist sífellt; hver árstíð hefur sinn svip, ljós, skugga og fleira slíkt. Hvernig maður hugsar hlutina skilar nýrri Akrafjallsmynd sem getur verið ólík þeirri síðustu. Þetta gerir listina líka svo skemmtilega,“ segir Bjarni sem annars málar myndir víða frá og hefur reynt ýmis form.

„Kjarval fór vítt um með trönurnar sínar, en ég læt mér stundum duga að gúggla staði og sjá svip þeirra. Svo mála ég út frá því,“ segir listamaðurinn sem í fyrrasumar sýndi myndir sínar af tónlistarmönnum, Hendrix, Bítlunum og fleirum, á sveitahótelinu á Vogi á Fellsströnd í Dölum. Rokk á flakki heitir serían sú sem Bjarni hefur í hávegum.

Menning og mannamót

Bjarni Þór Bjarnason er fæddur árið 1948. Á ferli sínum hefur hann haldið einkasýningar og tekið þátt í ýmsum samsýningum, bæði á Akranesi og víðar. Stærri útilistaverk hans, skúlptúra, má finna víða. Vinnustofan sem öðrum þræði er gallerí er svo líka vettvangur skemmtilegra prjónastunda sem Ásta Salbjörg Alfreðsdóttir kona hans stendur fyrir og eru jafnan á laugardögum.

„Samskiptin við fólkið eru skemmtileg. Þá eru Neðri-Skaginn og miðbærinn hér mjög að styrkjast í sessi sem staður menningar og mannamóta. Óli Palli í Rokklandi, sem býr hér rétt hjá, hefur gert góða hluti í því sambandi og vonandi gerist eitthvað meira í framtíðinni,“ segir Bjarni listmálari.