Dómsmál Eigendur nokkurra skrifstofurýma í Kringlunni munu mæta Rekstrarfélagi Kringlunnar í dómsal í maí.
Dómsmál Eigendur nokkurra skrifstofurýma í Kringlunni munu mæta Rekstrarfélagi Kringlunnar í dómsal í maí. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Björn Leví Óskarsson blo@mbl.is Hópur eigenda skrifstofuhúsnæðis í Kringlunni hefur stefnt Rekstrarfélagi Kringlunnar. Telja þeir að þeim sé óskylt að taka þátt í sameiginlegum markaðskostnaði, en samþykktir félagsins gera ráð fyrir því að allir eigendur taki þátt í þeim kostnaði. Málið verður tekið til meðferðar í héraðsdómi í maí.

Björn Leví Óskarsson

blo@mbl.is

Hópur eigenda skrifstofuhúsnæðis í Kringlunni hefur stefnt Rekstrarfélagi Kringlunnar. Telja þeir að þeim sé óskylt að taka þátt í sameiginlegum markaðskostnaði, en samþykktir félagsins gera ráð fyrir því að allir eigendur taki þátt í þeim kostnaði. Málið verður tekið til meðferðar í héraðsdómi í maí.

Hár markaðskostnaður

Markaðskostnaður Kringlunnar hefur á undanförnum árum verið á bilinu 100-140 milljónir króna á ári hverju. Fer sá kostnaður í auglýsingar og markaðsefni, til dæmis til auglýsinga á afsláttardögum í formi Kringlukasts, kynningu á veitingarýminu Kúmen, sem og kostnað við sölu á gjafabréfum í Kringlunni. Eigendur skrifstofurýma í turnum Kringlunnar taka þátt í þeim kostnaði, en telja sér hvorki vera skylt að taka þátt í honum né njóta á nokkurn hátt góðs af þessum kostnaði. Enda miða auglýsingarnar fyrst og fremst að því að kynna veitingastaði og verslanir í Kringlunni.

Skylduaðild að félagi

Samkvæmt lögum um fjöleignarhús er skylduaðild að húsfélögum, og er því öllum eigendum fasteigna í Kringlunni skylt að vera aðilar að Rekstrarfélagi Kringlunnar. Í samþykktum félagsins, sem var stofnað árið 2000, segir að hver eigandi skuli greiða hlutdeild í rekstrarkostnaði, þar á meðal vegna auglýsinga- og kynningastarfsemi. Þeim samþykktum var ekki og hefur enn ekki verið þinglýst.

Þinglýsingar þörf

Þessi hópur eigenda leitaði til kærunefndar húsamála, sem birti álit sitt í málinu í apríl 2020. Þá taldi nefndin að minnihlutaeigendum væri óskylt að taka þátt í fyrrnefndum kostnaði, sökum þess að samþykktunum var ekki þinglýst. Samkvæmt lögum um fjöleignarhús er sameigendum skylt að taka þátt í sameiginlegum kostnaði, en markaðskostnaður fellur ekki undir sameiginlegan kostnað í skilningi laganna og því þarf að semja um það sérstaklega. Samþykktirnar væru því aðeins bindandi fyrir þá eigendur sem undirrituðu samþykktirnar á sínum tíma.

Rekstrarfélag Kringlunnar er ósammála þessu áliti kærunefndarinnar og telur að þeim sem kaupi skrifstofurými í Kringlunni megi vera fullljóst hvernig málunum sé þar háttað.

Breytingartillögur felldar

Á síðasta aðalfundi Kringlunnar var lögð fram breytingartillaga, þar sem lagt var til að breyta samþykktunum svo skrifstofurými myndu ekki taka þátt í markaðskostnaði. Sú tillaga var felld með afgerandi meirihluta atkvæða. Meðal sjálfstæðra eigenda í Kringlunni er til dæmis ÁTVR, en fasteignafélagið Reitir á um 80% allra fasteigna, og hefur á undanförnum árum nýtt tækifærið þegar skrifstofuhúsnæði í Kringlunni býðst til sölu og fjárfest í þeim til útleigu.

Kringlan

Kringlan er samsett af þremur húsum og eru samtals 114 eignir með sér fastanúmer. Allar þessar eignir reka saman eina sameign.

Fasteignafélagið Reitir á yfir 80% allra fasteigna innan Kringlunnar.

Markaðskostnaður Kringlunnar var um 140 milljónir króna árið 2021.