Ferðamenn Við eftirlit ASÍ var rætt við starfsfólk í ferðaþjónustu.
Ferðamenn Við eftirlit ASÍ var rætt við starfsfólk í ferðaþjónustu. — Morgunblaðið/Ómar
Eftirlitsfulltrúum vinnustaðaeftirlits ASÍ og stéttarfélaganna er ekki alls staðar jafn vel tekið. Fram kemur í dagbók eftirlitsins sem ASÍ hefur birt á Facebook að eftirlitsfulltrúarnir heimsóttu í vikunni veitingastað á Suðurlandi „en fengu…

Eftirlitsfulltrúum vinnustaðaeftirlits ASÍ og stéttarfélaganna er ekki alls staðar jafn vel tekið. Fram kemur í dagbók eftirlitsins sem ASÍ hefur birt á Facebook að eftirlitsfulltrúarnir heimsóttu í vikunni veitingastað á Suðurlandi „en fengu fjandsamlegar móttökur frá eigandanum sem reyndi að koma í veg fyrir að eftirlitsfulltrúar ræddu við starfsfólkið. Honum var bent á heimildir þess efnis í lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnumarkaði frá 2010. Eftirlitsfulltrúum tókst að lokum að ræða við einn starfsmann staðarins og afhentu honum upplýsingabæklinga til að dreifa til samstarfsfólks síns,“ segir í dagbókinni um þessa heimsókn.

Fram kemur að ekki náðist að ræða við starfsfólk í eldhúsi veitingastaðarins en þar starfi einstaklingar sem hvorki tala íslensku né ensku og grunur leiki á að þeir fái ekki rétt laun. Hefur Vinnumálastofnun verið gert viðvart um þetta og segir í dagbók eftirlitsfulltrúanna að kallað verði eftir launaseðlum og ráðningarsamningum á veitingastaðnum.

Í ferðinni ræddu fulltrúar vinnustaðaeftirlitsins við leiðsögumenn frá Lettlandi, Ítalíu og Bretlandi og kom í ljós að þeir fá greitt jafnaðarkaup. Þeir eru því á sama tímakaupi hvort sem þeir vinna á dagvinnutíma, kvöldin eða um helgar og segir í dagbókinni að erfitt sé að átta sig á hvort þeir fá réttar launagreiðslur. Voru þeir hvattir til að fá aðstoð stéttarfélags við að reikna út hver launin eiga að vera. omfr@mbl.is