Sigrún Aðalgeirsdóttir er<strong> </strong>gæðastjóri og þýskukennari við MA.
Sigrún Aðalgeirsdóttir er gæðastjóri og þýskukennari við MA.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lestur er mitt aðaláhugamál. Ég hef lesið mikið allt frá barnæsku. Þær bækur sem ég met mest eiga það flestar sameiginlegt að kynna fyrir mér nýjar slóðir og framandi menningarheima eða tengjast því sem er að gerist í heiminum, bæði áður fyrr og á okkar tímum

Lestur er mitt aðaláhugamál. Ég hef lesið mikið allt frá barnæsku. Þær bækur sem ég met mest eiga það flestar sameiginlegt að kynna fyrir mér nýjar slóðir og framandi menningarheima eða tengjast því sem er að gerist í heiminum, bæði áður fyrr og á okkar tímum.

Ég les reglulega bók austurríska rithöfundarins Stefan Zweig Veröld sem var. En mig langar frekar að nefna tvær nýrri bækur sem tengjast lífinu í Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni og áhrifum hennar. Þetta eru Lesarinn eftir þýska rithöfundinn Bernhard Schlink, áhrifamikil bók um uppgjörið sem fram fór í Þýskalandi á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Þar er sögumanninum fylgt frá unglingsaldri, í gegnum ástarsamband hans við sér eldri konu, réttarhöld vegna stríðsglæpa og eftirstöðvar þeirra. Hin bókin gerist í Frakklandi og segir frá tveimur systrum, uppvexti þeirra, samskiptum og mismunandi aðferðum þeirra við að takast á við lífið eftir innrás Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni. Þetta er bókin Næturgalinn eftir Kristin Hannah, bók sem erfitt er að leggja frá sér.

Einnig langar mig að nefna bækur eftir suður-ameríska rithöfundinn Isabel Allende, sérstaklega fyrstu bækurnar sem gerast í Chile. Hús andanna og Eva Luna eru sérstaklega eftirminnilegar. Dásamlegar persónur bókanna verða eins og fjölskylduvinir og maður upplifir landið og stjórnmálaástandið í gegnum þær.

Morgnar í Jenín eftir Susan Abulhawa er mjög áhrifamikil og eftirminnileg bók sem fékk mig til að velta fyrir mér ástandinu í Palestínu og deilunum í löndunum við Miðjarðarhaf. Höfundurinn er dóttir palestínskra flóttamanna og þó að þetta sé skáldsaga þá kemst lesandinn ekki hjá því að trúa öllu sem þar kemur fram.

Í lokin langar mig að mæla með bókinni Stuldur eftir Ann-Helén Laestadius, bók ársins 2021 í Svíþjóð, um baráttu Sama fyrir lífsstíl sínum. Höfundurinn er Sami og skrifar af næmni og þekkingu um samfélagið. Frásögnin byrjar á dramatískan hátt og við fylgjumst síðan með söguhetjunni Elsu frá barnsaldri. Bókin er marglaga, barátta Sama við að halda sínu, barátta Elsu fyrir plássi sínu í samfélagi þar sem enn er ekki gert ráð fyrir að konur sinni öllum störfum og svo ekki síst margbrotin þroskasaga Elsu.