Borghildur Kristín Magnúsdóttir fæddist 1. febrúar 1974. Hún lést 20. febrúar 2023. Útför hennar fór fram 7. mars 2023.

Elsku Bogga okkar er farin svo skyndilega að maður nær ekki utan um það. Við kynntumst Boggu þegar við hófum nám í rekstrarfræði á Bifröst haustið 1997. Á lokaári okkar í B.Sc.-náminu fórum við fimm samnemendur í skiptinám til Þýskalands og má segja að þá hafi vinskapur okkar hafist fyrir alvöru.

Helgarnar voru nýttar til ferðalaga og margir áhugaverðir staðir heimsóttir eins og Prag, Októberfest í München, Nürnberg, Krakow og Auschwitz og að ógleymdum ótal postulíns- og kristalsferðum til Selb og Tékklands. Bogga hafði mjög gaman af því að ferðast og sjá nýja hluti og þá sérstaklega hafði hún gaman af því að fylgjast með fólki og tók hún eftir hverju smáatriði í fari manna.

Bogga var mjög mikil ævintýramanneskja og dreif hópinn oft á tíðum áfram í allskonar ævintýri. Við eignuðumst líka marga erlenda vini í náminu sem enn halda sambandi og er skarð höggvið í þann hóp núna. Eftir námið í Þýskalandi héldum við áfram að hittast reglulega og stofnuðum ferðasjóð og ferðuðumst í tvígang á gamlar námsslóðir. Bogga miklaði ekki fyrir sér að keyra á hraðbrautunum í Þýskalandi um miðja nótt enda var Bogga áræðin og alltaf til í að kýla á hlutina og svo var alltaf stutt í smitandi hlátur hennar þegar eitthvað fór úrskeiðis.

Við erum þakklátar fyrir síðasta skiptið sem við náðum að heimsækja Boggu á nýja fína heimilið hennar sem hún var búin að nostra við bæði að innan og utan. Það var svo yndislegt að sjá hvað hún var búin að koma sér upp fallegu heimili og fallegu lífi með eiginmanni sínum. Það lýsir góðmennsku Boggu svo vel að hún gaf fuglunum í garðinum sínum daglega epli og annað góðgæti sem hún var búin að skera niður í bita handa þeim. Við munum hlýja okkur við minningarnar.

Elsku Yngvi, Maggi, Aase, Gísli, Kristín, Pétur, Hildur Una, Ellen og aðrir ástvinir, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur með von um að góðar minningar styrki ykkur í sorginni.

Þínir vinir og skólafélagar,

Elfa Ingibergsdóttir,
Magnea Lilja Þorgeirsdóttir, Róbert Marinó Sigurðsson.

Elsku fallega Borghildur mín. Þú varst sannur sólargeisli í lífi þeirra sem fengu að kynnast þér. Alltaf þegar maður fékk faðmlagið þitt upplifði maður kærleik og hlýju. Brosið þitt og fallegu augun, sem vörpuðu birtu í kringum þig. Nærvera þín var einstök. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt góða stund með þér áður en þú kvaddir þennan heim. Ég trúi því að þú sért komin í annað verkefni, að bæta annan heim, enda einstök í alla staði. Ég mun sakna þín, en skal gera mitt besta til að hugsa um „trjádrumbinn“ þinn eins vel og ég get. Þú færðir honum Yngva dásamleg ár, ég hef aldrei séð hann svona hamingjusaman. Að vera í kringum ykkur saman sýndi manni svo sannarlega „sanna ást“. Mun ávallt sakna þín, elsku Borghildur mín. Svo margt meira sem ég gæti skrifað til þín, en ég mun gera það fyrir mig í einrúmi. Góða ferð elskuleg, þín vinkona,

Ragnheiður Guðfinna.

Elsku vinkona. Ég er ekki búin að meðtaka að við séum ekki að fara að hittast aftur, spjalla yfir kaffibolla, kíkja saman á skemmtilega viðburði eða bara hvað sem er. Ég horfi út á svalir og sakna þess strax að fá þig ekki í heimsókn í sumar í kaffispjall úti í góða veðrinu, en ég mun klárlega hugsa til þín yfir kaffibollanum og þú verður með mér í anda.

Ég er búin að rifja upp svo margar skemmtilegar minningar okkar síðustu daga og sakna þess mikið að fá ekki að bæta fleirum í safnið. Minningarnar frá því á Bifröst, í Þýskalandi, við Hreðavatn, á ferðalögum til ýmissa landa og í góðum hittingum. Þegar við náðum að villast af leið í nýföllnum snjó, þegar við fórum í dansskóbúðina í Boston, þegar við skiptum um dekk á leið í Borgarnes, þegar við kíktum í vöfflukaffi á Menningarnótt og allar hinar minningarnar sem rifjast upp.

Í ferðalagi fyrir fáeinum dögum var ég stödd í mannmergð og þá varð mér oft hugsað til þín og hvað þú hefðir haft gaman af því að vera þarna með mér. Bara að vera innan um fólk, jafnvel sitja og horfa á fólk á ferli og sjá fjölbreytileika þess hefði verið eitthvað fyrir þig. Þú varst svo mikil félagsvera og naust þess að vera innan um fólk, hafðir í raun einlægan áhuga á fólki og mannlegri hegðun.

Mottóið þitt var að njóta lífsins og það gerðir þú svo sannarlega með honum Yngva þínum. Þið voruð svo dugleg að bæta í minningabankann, bæði ferðast og kíkja í leikhús og á aðra áhugaverða viðburði. Þú sagðir líka að maður ætti að njóta fallegu hlutanna sem maður ætti í stað þess að fylla skápapláss með þeim. Enda bauðst þú yfirleitt upp á kaffi úr bolla úr sparistellinu.

Elsku Bogga, ég vissi ekki þegar við hittumst fyrir áramót að það væri í síðasta sinn sem ég fengi að knúsa þig. Ég sakna þín svo innilega, ég vildi að ég gæti knúsað þig aftur og tekið gott spjall, en það verður að bíða þar til ég hitti þig á ný í sumarlandinu.

Elsku Yngvi, Magnús og fjölskylda, ég sendi ykkur öllum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Auður Steinarsdóttir.

Elsku hjartans Bogga „systir“ látin. Ég ligg andvaka og get ekki sofnað þar sem minningarnar streyma fram. Brosið hennar, hlátur og stríðni blossar upp aftur og aftur. Elsku Bogga mín. Ég trúi þessu varla enn þá. Þó ég hafi verið mjög meðvituð um sjúkdóminn hennar og Guð einn veit hvað ég hafði oft áhyggjur af henni, þá er maður aldrei undir það búinn þegar kallið kemur. Einhvern veginn átti ég von á að það yrði meiri fyrirvari. Ég var upptekin í rútínu lífsins með börn og heimili og fannst eins og tíminn yrði endalaus fyrir hitting, en svo er víst ekki og eftir sitja minningar sem ég verð að láta mér duga að ylja mér við. Bogga grínaðist oft með að við værum systur. Kynsystur, skólasystur og stjúpsystur. Ég kynntist Boggu fyrst á Bifröst árið 1997 en það var ekki fyrr en 2009 sem við hittumst í veislu og þá smullum við saman og vorum nánast óaðskiljanlegar allt þar til næsti kafli í lífi okkar byrjaði með „nýju mökunum okkar“. Við vorum nefnilega stundum eins og gömul hjón. Bæði vorum við mikið saman og svo tuðuðum við hvor í annarri eins og við værum búnar að vera saman í 100 ár. Hún gerði oft grín að mér fyrir að vera hvatvís og eitt sinn spurði ég á miðvikudegi hvort við ættum að skella okkur norður til Akureyrar á föstudeginum. Með semingi féllst hún á að leyfa mér að draga hana með, en hún var búin að ákveða að taka til í geymslunni þessa helgi, enda með eindæmum mikill snyrtipinni. En svo auðvitað skemmtum við okkur konunglega.

Það mætti þó segja að okkar stærsta ætlunarverk sem við framkvæmdum saman hafi verið að koma foreldrum okkar á stefnumót. Okkur fannst alveg tilvalið að þau myndu hittast þar sem þeim þótti báðum svo gaman að dansa, sem þau svo gerðu og hafa verið saman síðan. Hversu fallegt er það?

Bogga var með hjarta úr gulli og var höfðingi heim að sækja. Hún kunni að gera góða veislu og tók að sér að vera með mjög eftirminnilegan brunch þegar ég var gæsuð. Fyrir börnunum mínum er hún Bogga frænka.

Þrátt fyrir þennan sjúkdóm sem vofði yfir henni þá lét hún ekki deigan síga heldur hélt sínu striki og ef það er eitthvað sem ég ætla að tileinka mér meira af, þá er það æðruleysið hennar. Að ná að halda sínu striki og lifa lífinu til fulls eins og hún gerði ber vott um hugrekki, styrk og seiglu sem fáir leika eftir.

Enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Ég held það sé óhætt að segja að hún hafi lifað góðu lífi og þó það hljómi kannski skringilega, þá vil ég meina að hún hafi samt farið eins og hún vildi. Hún fór snögglega, á meðan hún gat gert það sem hana langaði til, og fór á þeim stað sem henni leið einna best og gaf henni mikið. Í miðri sorginni þá finnst mér það fallegt. Mér finnst líka fallegt að hugsa til þess að þarna hitti ég hana í síðasta skiptið og það ómar í hausnum „Sjáumst“. Þó ég vildi óska að stundirnar hefðu orðið fleiri er ég þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman og mun varðveita minningarnar um þær stundir um ókomna tíð.

Elsku hjartans Yngvi, megi Guð gefa þér styrk á þessum erfiða tíma og vísa þér veginn til bjartari vegar.

Kærleikskveðja, ykkar

Ellen.