Lögregla Styrkja og skýra á heimildir lögreglu í þágu afbrotavarna.
Lögregla Styrkja og skýra á heimildir lögreglu í þágu afbrotavarna. — Morgunblaðið/Eggert
Dómsmálaráðuneytið hafnar ýmsum athugasemdum sem gerðar hafa verið við lagafrumvarp til breytinga á lögreglulögum, afbrotavarnir, vopnaburð og eftirlit með lögreglu. Þetta kemur fram á minnisblaði ráðuneytisins til allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem brugðist er með ítarlegum rökstuðningi við umsögnum sem borist hafa Alþingi.

Dómsmálaráðuneytið hafnar ýmsum athugasemdum sem gerðar hafa verið við lagafrumvarp til breytinga á lögreglulögum, afbrotavarnir, vopnaburð og eftirlit með lögreglu. Þetta kemur fram á minnisblaði ráðuneytisins til allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem brugðist er með ítarlegum rökstuðningi við umsögnum sem borist hafa Alþingi.

Ráðuneytið tekur t.a.m. ekki undir þá fullyrðingu í umsögn Persónuverndar að frumvarpið feli í sér „miklar skerðingar“ á friðhelgi einkalífs. Þvert á móti feli það í sér skýrt afmarkaðar hemildir til eftirlits með tilgreindum einstaklingum. Sambærilegt eftirlit sé nú þegar heimilt á grundvelli sakamálalaga og krefjist ekki undangengins dómsúrskurðar.

Eftirlit um eftirlit

Ráðuneytið fellst heldur ekki á þá tillögu Persónuverndar að koma á fót utanaðkomandi eftirliti með aðgerðum á sviði afbrotavarna og það fellst ekki á tillögu Persónuverndar um að tilkynna skuli einstaklingi að hann hafi sætt eftirliti af hálfu lögreglu nema þegar rannsóknahagsmunir standa því í vegi. Eftirlit nefndar um eftirlit með lögreglu komi í stað þess að lögreglu beri að tilkynna einstaklingi eftir á um að hann hafi sætt aðgerðum í þágu afbrotavarna.

„Veruleg hætta yrði á að aðgerðir lögreglu næðu ekki tilgangi sínum ef meta þyrfti hverju sinni hvort tilkynna ætti einstaklingi um aðgerð sem að honum beinist, enda kann eftirlit af þessu tagi að tengjast öðrum sakamálarannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi og getur því verið afar erfitt fyrir lögreglu að framkvæma slíkt mat í kjölfar þess að eftirliti er hætt,“ segir á minnisblaðinu. Enn fremur fellst ráðuneytið ekki á þá tillögu Persónuverndar að skipaður verði gæðastjóri af hálfu þingnefndar eða annarra sem heyra undir löggjafarvaldið.

Ráðuneytið tekur ekki undir þau sjónarmið sem Lögmannafélag Íslands setti fram í umsögn, að 1. málsgrein 3. greinar frumvarpsins feli í sér óljósan lagagrundvöll fyrir eftirliti af hálfu lögreglu og ráðuneytið kveðst ekki fallast á þá tillögu lögmannafélagsins að allar aðgerðir í þágu afbrotavarna sem mælt er fyrir um í frumvparinu verði háðar úrskurði dómara. Enn fremur tekur ráðuneytið ekki undir þá athugasemd Landssambands lögreglumanna að frumvarpið muni flækja eftirlit með störfum lögreglu. omfr@mbl.is