Barnalán Hver kona fæddi að meðaltali 1,82 lifandi börn hér á landi árið 2021. Hlutfallið hefur lækkað síðustu ár.
Barnalán Hver kona fæddi að meðaltali 1,82 lifandi börn hér á landi árið 2021. Hlutfallið hefur lækkað síðustu ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta hefur verið þróun á Norðurlöndunum í lengri tíma en Ísland hefur alltaf skorið sig úr. Lægri fæðingartíðni hér síðustu tíu ár virðist sýna að Ísland er að ná nágrannalöndunum. Við förum kannski að komast á sama stað og hin norrænu…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hefur verið þróun á Norðurlöndunum í lengri tíma en Ísland hefur alltaf skorið sig úr. Lægri fæðingartíðni hér síðustu tíu ár virðist sýna að Ísland er að ná nágrannalöndunum. Við förum kannski að komast á sama stað og hin norrænu löndin,“ segir Sunna Kristín Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði.

Í nýrri samantekt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, kemur fram að frjósemi íslenskra kvenna var 1,82 börn á ævi hverrar konu árið 2021. Meðaltal í ríkjum Evrópu var hins vegar 1,53 börn á ævi hverrar konu. Frjósemin jókst bæði hér og í öðrum Evrópuríkjum. Hér á landi var frjósemin 1,72 árið 2020.

Íslendingar eru með frjósamari þjóðum en Frakkar bera þó af með 1,84 börn á ævi hverrar konu árið 2021. Þar á eftir kemur Tékkland með 1,83, Rúmenía með 1,81 og Írland með 1,78. Í Danmörku var hlutfallið 1,72, Í Noregi var það 1,55 og í Svíþjóð 1,67. Lægst var hlutfallið á Möltu, 1,13, en litlu hærra á Spáni, 1,19, og á Ítalíu, 1,25.

Í samantekt Eurostat kemur fram að heilt yfir hafi fæddum börnum fækkað í Evrópu síðustu ár. Árið 2008 fæddust alls 4,68 milljónir barna en þau voru 4,09 milljónir árið 2021. Hér á landi náði frjósemin hámarki árið 2009, í kjölfar efnahagshrunsins, þegar meðaltalið var 2,2 börn en hefur síðan farið lækkandi, fyrir utan Covid-tengda hækkun árið 2021. Sunna segir aðspurð að bráðabirgðatölur fyrir árið 2022 bendi til þess að fæðingartölur muni aftur ná sögulegum botni. „Hvort við sígum enn þá meira niður við á næstu árum verður að koma í ljós. Það er erfitt að spá hvar botninn verður,“ segir hún.

Sunna leiðir um þessar mundir hóp fræðafólks við Háskóla Íslands sem rannsakar lækkandi fæðingartíðni á Íslandi og hvort eitthvað í stefnumótun og menningu hér á landi stuðli að henni. Hún kveðst ekki hafa forsendur til að svara því af hverju Ísland er áratugum á eftir öðrum löndum í þróun fæðingartíðni. Þó megi geta sér til að hluti af ástæðum þróunarinnar síðustu ár sé vegna breyttra viðhorfa til barneigna. Æska fólks sé farin að teygjast vel inn á fullorðinsár, fólk sé lengur í námi en áður og erfitt sé að koma sér fyrir á húsnæðismarkaði.

Almennt viðmið er að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Sunna segir að innflytjendur og flóttafólk hjálpi til í löndum sem séu langt frá þessari tölu. „Við munum ekki sjá afleiðingar af svona þróun strax. Ef fæðingartíðni fellur núna geta afleiðingarnar komið fram eftir 50-60 ár. Þá verður nýja kynslóðin orðin of lítil til að halda uppi velferðinni. Þetta verður því alltaf vandamál framtíðarinnar. Lausnir á þessu þurfa að vera margvíslegar. Við þurfum að taka vel á móti fólki sem vill koma og vinna hér. Og svo þarf kerfið að virka vel þannig að fólk sem langar til að eignast börn upplifi að það geti það og hafi til þess stuðning.“