Grétar Bæring Ingvarsson fæddist 11. ágúst 1933. Hann lést á heimili sínu 17. desember 2022.

Foreldrar hans voru Sveinsína Þuríður Bæringsdóttir, f. 21. apríl 1890 og Ingvar Kristjánsson, f. 11. október 1894, lengst af bændur á Hafursstöðum á Fellsströnd.

Bæring var yngstur 6 systkina sem í aldursröð voru: Kristín, Jón, Guðmundur, Sigurbjörg Kristjana og Árni.

Eftirlifandi eiginkona Bærings er Mundhildur Birna Guðmundsdóttur, f. 23. janúar 1951. Þau bjuggu fyrst á Hóli í Hvammssveit en fluttu síðan að Þorbergsstöðum í Laxárdal og hafa búið þar í 48 ár.

Börn þeirra eru: Ingvar Kristján, f. 1972, Ragnheiður Helga, f. 1974, Guðmundur Sveinn, f. 1981 og Þuríður Kristjana, f. 1982. Barnabörnin eru orðin níu.

Útför hefur farið fram.

Árin 1941-1956 bjuggu á Hafursstöðum hjónin Sveinsína Þuríður Bæringsdóttir og Ingvar Kristjánsson, hann var föðurbróðir minn. Þau áttu sex börn, Kristínu, Jón, Guðmund, Sigurbjörgu Kristjönu, Árna og yngstur var Grétar Bæring, f. 11. ágúst 1933, d. 17. desember 2022. Eftirlifandi eiginkona Bærings er Mundhildur Birna Guðmundsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn, Ingvar Kristján, Ragnheiði Helgu, Guðmund Svein og Þuríði Kristjönu.

Það er stutt á milli Breiðabólstaðar og Hafursstaða, ég kom þar oft á æskuárum mínum og alltaf var mér vel tekið. Það var fimm ára aldursmunur á okkur Bæring svo við vorum ekki leikfélagar að ráði, en með árunum er eins og munurinn minnki og samstarf okkar fór vaxandi.

Fljótt kom í ljós færni hans og lagni við hrossin. Hann var kjarkmikill, laginn og þolinmóður við tamningar, vann lengi við tamningar og vann glæsta sigra á hestamannamótum sem knapi.

Við brölluðum ýmislegt saman t.d. í ungmennafélaginu Dögun, við stækkun félagsheimilisins á Staðarfelli, vorum saman vetrartíma á vertíð í Grindavík, spiluðum á sveitaböllum á harmóniku og trommur og unnum ýmis störf í sveitinni. Eitt sinn fluttum við folald í rússajeppa frá Staðarfelli norður yfir Þorskafjarðarheiði að Arngerðareyri, þar sem það var sett um borð í Djúpbátinn áleiðis að Botni í Súgandafirði. Skruppum síðan á réttarball á Barðaströnd á heimleiðinni, sem var nú aðeins meiri krókur en við höfðum áætlað. Allt slapp þetta nú nokkurn veginn heilt, menn, hrossið og bifreiðin, sem var reyndar mjög skítug en að mestu óskemmd. Kannski hefðum við stundum á þessum árum átt að hugsa aðeins meira fyrir fram en allt slapp þetta samt stórslysalaust.

Bæring útskrifaðist búfræðingur frá Hvanneyri 1954. Þar lagði hann sig mikið eftir að læra að byggingardæma bæði sauðfé og hross og var oft leitað til hans um ráðleggingar t.d. við hrútakaup og hrossarækt.

Öll umgengni hans við dýr var til fyrirmyndar, hann var rólegur og yfirvegaður og afbragðsgóður skepnuhirðir. Hann var alltaf ákveðinn í að verða bóndi og 1956 keyptu þeir bræður Bæring og Árni jörðina Hól í Hvammssveit af Theodóru og Óskari Kristjánssyni föðurbróður okkar. Flutti þá fjölskyldan frá Hafursstöðum að Hóli.

Þar bjuggu þeir bræður góðu búi um árabil, en eftir að Bæring og Mundhildur giftust seldu þau Árna sinn hlut í Hólnum og fluttu að Þorbergsstöðum í Laxárdal, en þar hafa þau búið í 48 ár.

Bæring hafði mikla og góða bassarödd og söng mikið í kórum, kirkjukórnum, Þorrakórnum, Vorboðanum o.fl. Hann lærði alla texta utan að og leit sjaldan á blöð í söngnum, kunni líka mikið af vísum. Var alltaf glaðlegur og glettinn með húmorinn í góðu lagi.

Við hittumst síðast tveimur dögum áður en hann dó. Þá áttum við gott spjall í eldhúsinu á Þorbergsstöðum. Bæring var hress að vanda og við ræddum margt, en honum var samt efstur í huga dugnaðurinn í konu sinni við bústörfin.

Ég þakka frænda mínum vináttu, samstarf og margar góðar samverustundir á liðnum árum og sendi fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hans.

Halldór Þ. Þórðarson, Breiðabólstað.