Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Óþolandi er að mörg brýnustu verkefnin víða um land skuli um ókomin ár sitja á hakanum.

Guðmundur Karl Jónsson

Engum kemur á óvart að íbúar Fljóta og Fjallabyggðar skuli nú hafa misst þolinmæðina gagnvart slysahættunni sem aukið jarðsig á Siglufjarðarvegi skapar. Engin spurning er hvort aurskriður á þessari leið vestan Strákaganga eyðileggi alla vegtengingu nýja sveitarfélagsins á Tröllaskaga við byggðir Skagafjarðar heldur hvenær. Það er ekkert sem segir að núverandi vegur milli Dalvíkur og Múlaganganna sleppi betur við þetta vandamál næstu áratugina. Á meðan þingmenn Norðvestur- og Norðausturkjördæmis taka misheppnaða fjármögnun Vaðlaheiðarganga fram yfir þetta vandamál eykst hættan á að einangrun Fjallabyggðar frá landsbyggðinni komist á forsíður dagblaðanna fyrir næstu alþingiskosningar, íbúum nýja sveitarfélagsins til mikillar hrellingar sem geta ekki vegna slysahættunnar sunnan Múlaganga treyst á Akureyrarflugvöll.

Ég spyr: Vildi fyrrverandi yfirmaður samgöngumála, Kristján Lárus, sem stóð í hörðum deilum við Ögmund Jónasson um Norðfjarðargöng, aldrei flytja þingsályktunartillögu um að heimabyggðin hans á Tröllaskaga fengi strax greiðan aðgang að Grímseyjarferjunni eða innanlandsfluginu? Án Siglufjarðarflugvallar er það vonlaust. Óþolandi er að mörg brýnustu verkefnin víða um land skuli um ókomin ár sitja á hakanum eftir að útboð Héðinsfjarðarganga snerist upp í kostnaðarsöm málaferli sem íslenskir skattgreiðendur gjalda fyrir með stórauknum álögum. Af sínum fyrri mistökum hefur Vegagerðin ekkert lært.

Möguleiki á því að hægt sé að stöðva tímanlega einangrun Fjallabyggðar við bæði kjördæmin er ekki sjáanlegur eftir að Steingrími J. tókst með falsrökum að troða Vaðlaheiðargöngum fram fyrir brýnustu verkefnin á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Nógu vitlausir voru þingmenn Reykvíkinga til að leggja blessun sína yfir tillögu jarðfræðingsins úr Þistilfirði, sem blekkti Alþingi til að setja Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd, þegar þeir létu sem það skipti engu máli hvað meðalumferð á sólarhring þyrfti að vera mikil í þessum veggöngum undir heiðina gegnt Akureyri til að veggjald gæti staðið undir fjármögnun ganganna. Þjóðhagslega verða þau aldrei hagkvæm sem einkaframkvæmd án þess að meðalumferðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals verði minnst 26 þúsund bílar á dag.

Skoðanabræður Steingríms J. geta næstu áratugina þrætt fyrir að þessi heildarfjöldi ökutækja á sólarhring næst aldrei í Vaðlaheiðargöngum, sem Gunnar Ingi Birgisson, fyrrverandi þingmaður og síðar bæjarstjóri í Kópavogi, taldi skynsamlegra að ráðast í samhliða styttri göngum milli Siglufjarðar og Fljóta á undan Héðinsfjarðargöngum. Með hroka og útúrsnúningi felldu fyrrverandi þingmenn Norðurlands eystra og vestra tillögu Gunnars Inga vorið 2005 þegar þessir landsbyggðarþingmenn töldu Vaðlaheiðargöng alveg óþörf vegna þess að búið væri að byggja upp hindrunarlausan heilsársveg í Víkurskarði, sem enginn treystir. Á sömu nótum talaði Steingrímur J.

Önnur spurning: Hvað olli því sjö árum síðar að jarðfræðingurinn úr Þistilfirði talaði í hina áttina til að vekja falskar vonir kjósenda sinna um að 1.000 króna veggjald á hvern bíl í Vaðlaheiðargöngum myndi fjármagna þetta rándýra samgöngumannvirki á örfáum árum, án þess að fram kæmi hvað meðalumferðin gegnt Akureyri þyrfti að vera mikil á dag?

Þriðja spurning: Hefði ekki verið heppilegra fyrir alla þingmenn Norðausturkjördæmis að flytja sumarið 2012 þingsályktunartillögu um tvíbreið veggöng 1-2 km norðan Dalvíkur til að afskrifa endanlega slysahættuna á núverandi vegi sunnan Múlaganganna, sem er engu betri en vegurinn milli Fljóta og Siglufjarðar? Mín skilaboð til Kristjáns L. Möller eru þau að þessi fyrrverandi þingmaður Norðausturkjördæmis svari því strax hvort hann láti sig það engu skipta ef fréttir af einangrun Fjallabyggðar frá landsbyggðinni í heild birtast á forsíðum dagblaðanna við litla hrifningu heimamanna.

Önnur skilaboð sem greinarhöfundur sendir Kristjáni Lárusi eru þau að ástandið á núverandi vegi sunnan Múlaganganna kemur í veg fyrir að Dalvíkur- og Fjallabyggð komist inn á eitt samfellt atvinnusvæði. Enginn heimamaður á Akureyri keyrir daglega 150 km í vinnu til Siglufjarðar og aftur til baka vegna slysahættunnar norðan Dalvíkur.

Höfundur var farandverkamaður.