Reynsla Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson, reyndustu leikmenn íslenska landsliðsins, ræða málin fyrir æfingu liðsins í Safamýri í gær. Leikurinn gegn Tékkum hefst í Laugardalshöll klukkan 16 á morgun.
Reynsla Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson, reyndustu leikmenn íslenska landsliðsins, ræða málin fyrir æfingu liðsins í Safamýri í gær. Leikurinn gegn Tékkum hefst í Laugardalshöll klukkan 16 á morgun. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það var lítið sofið nóttina eftir Tékkaleikinn og svo tók við langt ferðalag heim til Íslands þannig að maður hefur hugsað um lítið annað síðan á miðvikudaginn en þetta tap í Brno,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska…

EM 2024

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Það var lítið sofið nóttina eftir Tékkaleikinn og svo tók við langt ferðalag heim til Íslands þannig að maður hefur hugsað um lítið annað síðan á miðvikudaginn en þetta tap í Brno,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á æfingu liðsins í Safamýri í gær.

Íslenska liðið tapaði illa fyrir Tékkum í Brno, 22:17, á miðvikudaginn en sjálfur átti Aron ekki sinn besta dag og skoraði einungis eitt mark í leiknum. Ísland og Tékkland mætast á nýjan leik í Laugardalshöll á morgun og þarf Ísland að vinna með sex marka mun hið minnsta til þess að endurheimta toppsæti riðilsins á nýjan leik.

Brjálaðir eftir tapið

„Við erum búnir að fara vel yfir Tékkaleikinn og þetta hefur klárlega verið erfitt. Svo ég segi það bara eins og það er þá vorum við allir brjálaðir eftir Tékkaleikinn og við vorum mjög ósáttir með eigin frammistöðu. Við vorum mjög langt frá þeim gæðaflokki sem við viljum vera í og þeim gæðum sem við teljum búa í liðinu.

Ef við horfum á björtu hliðarnar þá var fínt fyrir okkur að þjást aðeins saman og það er ekki erfitt að greina það hvað fór úrskeiðis í Tékklandi. Það er stutt í næsta leik þannig að það er kominn tími til þess að segja skilið við tapið í Tékklandi og einbeita sér að leiknum á morgun, þar sem við ætlum okkur að gera miklu betur,“ sagði Aron.

Vitum alveg hvað við getum

Mikið var rætt og ritað um tapið í Tékklandi og sérstaklega þá staðreynd að liðið hafi einungis skorað 17 mörk alls sem þykir ekki mikið í nútímahandbolta.

„Við vitum langbest sjálfir hvað við getum og hvað við getum gert betur. Við getum ekki látið einhverja utanaðkomandi umræðu hafa áhrif inn í hópinn eða á okkur. Ég er búinn að vera ágætlega lengi í þessu og þetta er ekki í fyrsta skipti sem liðið spilar ekki nægilega vel, sérstaklega á útivelli.

Það er ekkert langt síðan við gerðum jafntefli í Grikklandi og Litháen þannig að við höfum áður verið í þessari stöðu. Við þekkjum þetta því ágætlega og eins og ég kom inn á þá erum við búnir að fara vel yfir allt það sem fór úrskeiðis. Við eigum alveg skilið að þjást aðeins eftir tapið en þetta er ekki mikið sem við þurfum að laga og við erum allir innstilltir á það að svara almennilega fyrir þetta í Höllinni á morgun.“

Liðsheildin er frábær

Frammistaða liðsins í Brno fór illa í landann og voru leikmenn liðsins meðal annars sakaðir um andleysi og að liðsheildin væri engin í liðinu.

„Liðsheildin er frábær í þessum hóp og það er ekkert út á hana að setja. Staðreyndin er sú að við lendum í sjötta sæti á EM 2022 og þá var allt í einu byrjað að tala um það að við yrðum heimsmeistarar í ár, án þess að það væri einhver innistæða fyrir því, enda höfðum við ekki verið að ná neinum sérstökum árangri þannig áður en kom að EM í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Við eigum svo slakan landsleik núna og þá erum við allt í einu komnir í 30. sæti yfir bestu landslið heims. Þessi umræða fellur um sjálfa sig að mínu mati. Við vitum upp á hár hvað við þurfum að gera og hversu erfitt þetta getur verið. Það er alltaf gaman í landsliðinu og við vitum nákvæmlega hvað við þurfum að laga.“

Get ekki beðið

Uppselt er á leikinn á morgun og má búast við mikilli stemningu í Laugardalshöllinni en liðið lék síðast landsleik í Laugardalnum gegn Litháen í undankeppni EM 2022 hinn 4. nóvember 2020.

„Ég hefði helst viljað spila bara strax á fimmtudaginn og það er oftast þannig þegar þú tapar leik. Ég er hrikalega sáttur með að vera kominn aftur í Laugardalshöllina og ég get satt best að segja ekki beðið eftir því að flautað verði til leiks. Það er uppselt á leikinn þannig að við skuldum sjálfum okkur og þjóðinni alvöruleik á sunnudaginn,“ bætti landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson við í samtali við Morgunblaðið.

Sex marka sigur mikilvægur

Tékkar eru efstir í 3. riðli undankeppni EM fyrir leikinn í Laugardalshöllinni á morgun. Eftir þrjár umferðir af sex eru Tékkar með 6 stig, Íslendingar 4, Eistar 2 stig en Ísraelsmenn eru stigalausir.

Í tveimur síðustu umferðunum í lok apríl leika Ísland og Tékkland seinni leiki sína við Eistland og Ísrael.

Vinni Tékkar leikinn á morgun hafa þeir þegar tryggt sér sigur í riðlinum vegna innbyrðis úrslita gegn Íslandi.

Vinni Ísland leikinn með sex marka mun eða meira fer íslenska liðið í efsta sætið á betri innbyrðis úrslitum.

Með jafntefli, eða íslenskum sigri með minna en sex marka mun, verða Tékkar með pálmann í höndunum, nema þeir tapi óvænt stigum gegn Eistlandi eða Ísrael.

Tvö efstu liðin fara á EM 2024 í Þýskalandi en efsta sætið skiptir miklu máli þar sem það tryggir viðkomandi liði efri styrkleikaflokk áður en dregið verður í riðla mótsins.

Þriðja sæti riðilsins getur líka gefið sæti á EM en þangað komast fjögur af þeim átta liðum sem enda í þriðja sæti undanriðlanna.