Heimspekingurinn George Santayana sagði að þeir sem ekki gætu munað söguna væru dæmdir til þess að endurtaka hana, en meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur ákvað fyrirvaralaust að loka Borgarskjalasafni að tillögu borgarstjóra.
Heimspekingurinn George Santayana sagði að þeir sem ekki gætu munað söguna væru dæmdir til þess að endurtaka hana, en meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur ákvað fyrirvaralaust að loka Borgarskjalasafni að tillögu borgarstjóra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vikan hófst á hressilegri umræðu um varnarmál og hvort ráð væri að lýðveldið byði út her til þess að annast einhvern hluta eigin landvarna, líkt og Arnór Sigurjónsson, fráfarandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, stakk upp á

4.3-10.3

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Vikan hófst á hressilegri umræðu um varnarmál og hvort ráð væri að lýðveldið byði út her til þess að annast einhvern hluta eigin landvarna, líkt og Arnór Sigurjónsson, fráfarandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, stakk upp á.

Vestmannaeyingar tóku til við vinnslu loðnuhrogna á lokaspretti loðnuvertíðar, sem virðist ætla að verða ábatasöm.

Fyrirhugað er að breyta læknastofum í Domus Medica við Egilsgötu í gistirými fyrir 20 hælisleitendur fyrstu nótt þeirra í landinu.

Samkvæmt skýrslu Borgarskjalasafns eru skjalamál Reykjavíkurborgar í miklum ólestri og hefur farið versnandi síðustu ár. Aðeins 38% stofnana borgarinnar reyndust skrá erindi í málaskrá og innan við 30% vistuðu tölvupóst skipulega.

Landsbankinn undirbýr flutning í stuðlabergshöll sína í Austurhöfn og er talið að nokkrar vikur taki að flytja, sem er öllu skemmra en það tekur samfélagsbankann að klára greiðslumat.

Pólverjum er aftur farið að fjölga í landinu eftir nokkurt bakslag í heimsfaraldrinum. Hér á landi eru á þriðja tug þúsunda Pólverja, sem margir hafa sest að fyrir fullt og fast.

Það hlýnaði ögn. Það reyndist skammgóður vermir.

Diljá Pétursdóttir sigraði í söngvakeppninni í Gufunesi um framlag Ríkissjónvarpsins til Evrósjón.

Læknaheimsóknir borgarstarfsmanna skerða hina rómuðu styttingu vinnuviku þeirra, sem valdið hefur byltingu í þjónustu borgarinnar.

Húsnæðismarkaðurinn er hálffrosinn, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og spurði hvort hin græðandi hönd ríkisvaldsins þyrfti ekki að affrysta hann.

Samfylkingin hélt flokksstjórnarfund og kynnti nýtt merki flokksins, sem er rauð rós, en til þess að friða aldurhnigna róttæklinga í flokknum mátti finna krepptan hnefa falinn í merkinu.

Aftenposten í Noregi baðst afsökunar á grein í tímariti sínu, þar sem ýmislegt var sagt um Samherja og hið gerspillta Ísland, en hún byggðist mjög á frásögnum innlendra miðla, sem enn höfðu ekki beðist afsökunar þegar blaðið fór í prentun.

Skýrslutökum í enn einu stóra kókaínmálinu lauk í héraði, en þar eru fjórir menn ákærðir fyrir að stuðla að innflutningi á 100 kílóum af efninu.

Úr talnabrunni landlæknis mátti sama dag lesa að áfengisneysla hefur talsvert dregist saman undanfarin ár. Það má þó e.t.v. frekar rekja til aukins framboðs áfengis eftir því sem fleiri veita ÁTVR samkeppni í smásölu.

Fram kom að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) eyddi 8,3 milljónum króna í árangurslausan málarekstur gegn tveimur netverslunum með áfengi.

Ríkisendurskoðandi komst að þeirri niðurstöðu að Vegagerðin yrði að efla öryggisstjórnun, sem var um það bil tilefni þess að honum var falið að skoða sjoppuna.

Innheimtar tekjur Matvælastofnunar stóðu engan veginn undir kostnaði árið 2021 og þurftu skattborgarar að niðurgreiða þjónustu og eftirlit hennar um 482 m.kr.

Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, lést á 99. aldursári.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að leggja niður Borgarskjalasafn, sem varð það á að benda á misbrest í skjalavinnslu skrifstofu borgarstjóra þegar braggamálið stóð sem hæst.

Landsvirkjun kynnti methagnað á ársfundi sínum, en greindi frá því að raforka í landinu væri uppseld. Hörður Arnarson forstjóri kvaðst vonast til þess að framkvæmdir við Hvammsvirkjun gætu hafist með vorinu.

Hagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sagði brýnt að auka framboð á leiguhúsnæði, en varaði við hugmyndum um að setja á leiguþak sem myndi eflaust draga frekar úr því. Um leið benti hann á að leiguverð hefði aldrei verið lægra miðað við fasteignaverð og sjaldan lægra miðað við laun.

Formannskosning hófst í VR, en þar skorar Elva Hrönn Hjartadóttir formann félagsins á hólm, en Ragnar Þór Ingólfsson hefur setið þar undanfarin sex ár.

Áform eru uppi um mikla uppbyggingu ferðaþjónustu við Langasand á Akranesi.

Framtíð Listdansskóla Íslands er í óvissu, en öllum fastráðnum starfsmönnum þar var sagt upp um mánaðamótin.

Vegagerðin hefur boðið út tvöföldun á síðustu köflum Reykjanesbrautar, sem enn eru einbreiðir.

Jóhann Pálsson, fyrrverandi garðyrkjustjóri, lést 91 árs gamall.

Félagar í Eflingu samþykktu miðlunartillögu setts ríkissáttasemjara með 85% greiddra atkvæða, en það eru um 19% félagsmanna. Kjörsókn var 23%. 99% fyrirtækja í Samtökum atvinnulífsins samþykktu hana.

Vinnufriður á almennum markaði er þá tryggður út næsta janúar, en Efling á ósamið við Reykjavíkurborg og ríki.

Vinnufriður hjá Twitter var úti þegar sá hampkáti Elon Musk og rampakáti Haraldur (Halli) Þorleifsson tókust á um það á félagsmiðlinum hvort sá síðarnefndi ynni þar enn. Elon endaði á að biðjast afsökunar og fögnuðu eyjarskeggjar sigri síns manns ákaflega.

Ríkisstjórnin leggur til nýtt og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES. Stjórnsýslan verður einfölduð og atvinnuleyfin munu fylgja einstaklingnum en ekki vera bundin vinnuveitanda.

Menningarmálaráðherra og þjóðskjalavörð er þegar farið að dreyma um stórkostlega stækkun Þjóðskjalasafns við það að leifarnar af Borgarskjalasafni renni inn í það. Hugsanlega verður Alþingi spurt í fyllingu tímans.

Fjögur tilboð bárust í liðskiptaútboði Sjúkratrygginga og var meðalverðið um 1.150 þúsund krónur. Landspítalinn fær liðlega 2 milljónir fyrir sömu aðgerðir.

Endurbætur standa yfir í Skálholtskirkju, sem vonast er til að verði lokið skömmu eftir páska.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra kynnti stóreflda löggæslu um land allt, en fyrirhugað er að bæta við 70 lögregluþjónum og landamæravörðum.

Fjármálaráðherra stakk upp á að sala á hlut ríkisins í Isavia yrði könnuð, en andvirðið mætti nota til fjármögnunar innviða. Miklar framkvæmdir standa yfir á Keflavíkurflugvelli á vegum Isavia.

Mikið stendur einnig til hjá þróunarfélaginu Kadeco um aðra uppbyggingu á Miðnesheiði og hafa lífeyrissjóðir og fasteignafélög leitað fyrir sér um fjárfestingu þar.

Íslenska óperan sætti ámæli fyrir menningarlegar gripdeildir eða verra með uppsetningu Madame Butterfly, þar sem fölverjar leika Japani, svona eins og Puccini ímyndaði sér þá. Enginn gerði þó athugasemd við að þeir syngju hlutverk Bandaríkjamanna, sem í rauninni voru að vísu Frakkar.

Ragnar Þór Ingólfsson var sakaður um að hafa vanrækt skyldur sínar sem formaður VR þegar hann tók afstöðu gegn félagsmönnum sínum, sem sagt hafði verið upp á skrifstofu Eflingar. Hann og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa verið samherjar í valdatafli verkalýðshreyfingarinnar.

Rannsókn hefur leitt í ljós að mæðradauði er mun fátíðari hér á landi en víðast hvar.