Flotinn Nokkrir af bílum ÞÞÞ fyrir utan afgreiðsluna við Smiðjuvelli á Akranesi. Alls eru 36 bílar af ýmsum stærðum í útgerð hjá fyrirtækinu og Mercedes-Benz þar í aðalhlutverki.
Flotinn Nokkrir af bílum ÞÞÞ fyrir utan afgreiðsluna við Smiðjuvelli á Akranesi. Alls eru 36 bílar af ýmsum stærðum í útgerð hjá fyrirtækinu og Mercedes-Benz þar í aðalhlutverki. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Á Akranesi er nú efst á baugi að nýir eigendur taka á næstu dögum við einu elsta fyrirtæki bæjarins; Bifreiðastöð ÞÞÞ. Snókur eignarhaldsfélag ehf., sem bræðurnir Hrafn og Kristmundur Einarsson eiga, kaupir bifreiðastöðina, þar sem fráfarandi eigendur starfa áfram og hafa daglegan rekstur með höndum.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á Akranesi er nú efst á baugi að nýir eigendur taka á næstu dögum við einu elsta fyrirtæki bæjarins; Bifreiðastöð ÞÞÞ. Snókur eignarhaldsfélag ehf., sem bræðurnir Hrafn og Kristmundur Einarsson eiga, kaupir bifreiðastöðina, þar sem fráfarandi eigendur starfa áfram og hafa daglegan rekstur með höndum.

„Flutningastarfsemi er í raun ekki flókin. Vörunni þarf að koma með öryggi frá sendanda til viðtakenda á sem skemmstum tíma. Í þessa keðju þarf sterka hlekki en fyrst og fremst fólk með rökræna hugsun og þjónustulund. Góð mannleg samskipti skipta öllu í svona rekstri og hve trygga viðskiptavini við eigum er frábært og nokkuð sem ber að þakka,“ segir Guðmundur Ingþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri ÞÞÞ.

Samofið þróun atvinnulífs á Skaganum

Mikilvægt er hér að byrja með stuttum sögulegum formála. Bifreiðastöð ÞÞÞ var stofnuð 23. ágúst árið 1927 af þeim Þórði Þ. Þórðarsyni, sem ávallt var kallaður Steini á Hvítanesi, og Sigríði Guðmundsdóttur, eiginkonu hans. Steini var lengi við reksturinn og svo tók við sonur hans, Þórður Þórðarson (1930-2002), velþekktur sem knattspyrnumaður í gullaldarliði Skagamanna. Þórður og Ester Teitsdóttir kona hans áttu sjö börn og á fyrri stigum hafa fimm þeirra selt hluti sína í ÞÞÞ. Nú síðast hefur eignarhaldið á fyrirtækinu verið með því móti að Þórður, sem er elstur systkinanna sjö, á 2/3 í fyrirtækinu og Ólafur, sem er yngstur og þekktur sem knattspyrnuþjálfari, á 1/3.

Ólafur hefur staðið utan rekstrarins en Þórður verið þar í fullu starfi. Finnur sig þar best í daglegum störfum og akstri með sendingar. Við stjórninni eru tekin dóttir Þórður og tengdasonur, þau Anna María og Guðmundur Ingþór Guðjónsson

„Saga ÞÞÞ er mjög samofin allri þróun atvinnulífs hér á Skaganum. Reksturinn hefur haldist í hendur við margvíslega aðra starfsemi hér í bænum,“ segir Þórður Þórðarson.

Sjávarútvegur og stóriðjan

Þórður rifjar upp að afi sinn, Steini í Hvítanesi, hafi byrjað bílaútgerð sína með sendiferðum innanbæjar á Skaganum en fljótlega fært út kvíarnar. Í stórum bæ hvar eru mikil umsvif og fjölbreytt starfsemi þarf margs með. Flutningar til og frá Reykjavík hafa til dæmis alltaf verið ákveðinn hryggur í starfseminni. Einnig var ÞÞÞ endur fyrir löngu með fólksflutninga frá Akranesi, bæði Reykjavíkurferðir og fasta áætlun í uppsveitir Borgarfjarðar.

„Svo fór að áherslan var lögð á vöruflutninga. Þjónusta við sjávarútveg var alltaf stór hluti í þessum rekstri og mikið er sárt að slík starfsemi hér á Akranesi hafi að mestu lagst af,“ segir Þórður. „En svo hefur annað komið í staðinn svo sem þjónusta við bæði Norðurál og Elkem á Grundartanga. Við förum oft margar ferðir á dag með vörur þangað, auk þess sem við flytjum ýmis aðföng til og frá stóriðjunni. Slíkt geta bæði verið smápakkar eða 40 feta gámar og allt þar á milli. Svo falla líka til allskonar erindi og flutningar fyrir fólkið hér í bænum.“

Þræðir liggja á Smiðjuvelli

Ingþór Guðjónsson, sem er Patreksfirðingur að upplagi, kom inn í rekstur ÞÞÞ fyrir rúmum áratug, þá orðinn maður Önnu Maríu sem er dóttir Þórðar og Fríðu Sigurðardóttur. „Við Anna María erum saman með þennan daglega rekstur. Í því starfi er listin að geta verið með marga bolta á lofti í einu. Þá skiptir miklu að hafa með sér góðan mannskap. Hér vinna 26 manns; frábært fólk þar sem hver gengur að sínu vísu,“ segir Ingþór.

„Fyrstu bílar hjá okkur fara úr húsi um klukkan sjö á morgnana og á dag erum við með sex fastar ferðir til og frá Reykjavík. Í bænum erum við með stráka á tveimur litum bílum sem eru í snatti og sækja ýmsar vörur sem komið er á flutningamiðstöð. Þetta getur verið varningur fyrir verslanir, verkstæði, sjúkrahúsið og bara allt milli himins og jarðar. Þá erum við með umboð á Akranesi bæði fyrir Eimskip og Samskip svo til og frá þessu húsi við Smiðjuvelli liggja ýmsir þræðir,“ segir Ingþór sem fann fljótt þegar hann flutti á Skagann að starfsemi ÞÞÞ hefði mikilvægt hlutverk í bænum, meðal annars félagslegt.

Með 54 tæki í útgerð

„Kaffistofan hér er viðkomustaður margra. Þar er oft þröng á þingi, líflegar umræðu um bæjarmálin, pólitíkina og auðvitað knattspyrnu eins og vera ber í fótboltabænum,“ segir Ingþór, sem er einn þriggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn á Skaganum. Hann fær því oft að heyra í vinnunni hvernig stjórna eigi bænum og hvað megi betur fara.

En nú fellum við tal. Verkefni bíða; Ingþór þarf að skjótast út í bæ, Anna María sest við tölvuna og Þórður ætlar inn í Hvalfjörð með pakkasendingar. Þá er að renna í hlað úr Reykjavíkurferð ÞÞÞ-bíl, en í flota fyrirtækisins eru alls 54 tæki. Þar af eru bílarnir 36 og Mercedes-Benz þar í aðalhlutverki.