Ragnar Árnason
Ragnar Árnason
Samkeppniseftirlitið á ekki að koma í veg fyrir að íslenskt atvinnulíf geti nýtt nútímatækni í framleiðslu og dreifingu og lækkað þannig framleiðslukostnað. Slík framganga mun ekki lækka vöruverð til neytenda eða þjóna hagsmunum þjóðarinnar.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir alþingismaður ritar grein um samkeppnismál í Morgunblaðið 8. mars sl. Í grein þessari segist hún helst skilja mig og raunar einnig Morgunblaðið svo að við viljum að Samkeppniseftirlitið sé veikara. Morgunblaðið er fullfært um að svara fyrir sig. Hvað mig snertir er þetta hins vegar misskilningur hjá Þorbjörgu sem mér er ljúft að leiðrétta.

Öfugt við það sem Þorbjörg heldur vil ég öflugt samkeppniseftirlit. Raunar er ekkert í fyrri greinum mínum um málið um að ég vilji veikja Samkeppniseftirlitið. Skil ég ekki hvaðan Þorbjörg fær þá flugu í höfuðið. Ég vil hins vegar að samkeppniseftirlitið sé framkvæmt á skynsamlegan hátt. Það er auðvitað allt annað en að veikja það.

Kjarni málsins

Þorbjörg segir: „Heilbrigð samkeppni er eitt [leturbr. mín] sterkasta vopnið til að tryggja almenningi lægra verð…“. Þetta er rétt hjá Þorbjörgu svo langt sem það nær. Hængurinn er að þetta nær bara ekki mjög langt. Verðmyndun á markaði er nefnilega talsvert margbrotnari. Eins og Þorbjörg raunar gefur til kynna í tilvitnaðri setningu þarf margt fleira en „heilbrigða samkeppni“ til að tryggja lágt vöruverð. Í hagfræði verðmyndunar (e. price theory) hefur fyrir löngu verið sýnt fram á að samkeppni er hvorki nauðsynleg né nægileg til að tryggja lágt vöruverð.

Kjarni málsins er að vöruverð verður aldrei til lengdar lægra en framleiðslukostnaður, hver svo sem samkeppnin er. Grunnforsenda fyrir lágu vöruverði til neytenda er því lágur framleiðslukostnaður hjá fyrirtækjum. Alþekkt er að framleiðslutækni nútímans er þannig á mörgum sviðum að lægsti kostnaður á hverja framleidda einingu næst með tiltölulega stórum fyrirtækjum. Þetta er stundum kallað stærðarhagkvæmni.

Til að lágmarka vöruverð til neytenda er því nauðsynlegt að fyrirtæki séu af hagkvæmri stærð. Gallinn er að vegna smæðar íslenska hagkerfisins getur þetta hæglega þýtt að fyrirtækin verði stór miðað við innanlandsmarkaðinn og öðlist við það svokallaða markaðsstöðu. Augljóst er að við þessar aðstæður er þjóðhagslega skynsamlegt að leyfa fyrirtækjunum að nýta stærðarhagkvæmni en gæta þess að þau misnoti ekki markaðsstöðu sína til að setja hærra vöruverð en þörf er á.

Skynsamlegt samkeppniseftirlit

Til þess að lágmarka vöruverð til neytenda á Samkeppniseftirlitið alls ekki að standa í vegi fyrir því að stærðarhagkvæmni eða önnur framleiðsluhagkvæmni sé nýtt. Það á jafnvel að greiða fyrir því eftir mætti að það gerist því með því er unnt að lækka vöruverð. Lægsta vöruverð til neytenda næst ekki með aragrúa smáfyrirtækja jafnvel þótt þau eigi í fullkominni samkeppni sín á milli. Samkeppniseftirlitið á hins vegar að gæta þess vandlega að fyrirtæki misnoti ekki þá markaðsstöðu sem þau kunna að hafa. Þetta getur verið nokkuð viðamikið verkefni og til þess að valda því þarf Samkeppniseftirlitið að vera nægilega öflugt.

Sterkt samkeppniseftirlit

Við Þorbjörg virðumst sammála um að samkeppniseftirlit eigi að vera sterkt. Vonandi erum við einnig sammála um að það eigi að vera skynsamlegt. Samkeppniseftirlitið á ekki að koma í veg fyrir að íslenskt atvinnulíf geti nýtt nútímatækni í framleiðslu og dreifingu og lækkað þannig framleiðslukostnað. Slík framganga mun ekki lækka vöruverð til neytenda eða þjóna hagsmunum þjóðarinnar að öðru leyti. Þvert á móti.

Höfundur er prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands.