Íhugull Vignir Vatnar við taflið á Evrópumótinu í Vrnjacka Banja.
Íhugull Vignir Vatnar við taflið á Evrópumótinu í Vrnjacka Banja. — Ljósmynd/Heimasíða EM 2023
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vignir Vatnar Stefánsson á enn allgóða möguleika á að ná lokaáfanganum að stórmeistaratitli þrátt fyrir töp í sjöttu og sjöundu umferð Evrópumóts einstaklinga, sem lýkur á mánudaginn í Vrnjacka Banja í Serbíu

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Vignir Vatnar Stefánsson á enn allgóða möguleika á að ná lokaáfanganum að stórmeistaratitli þrátt fyrir töp í sjöttu og sjöundu umferð Evrópumóts einstaklinga, sem lýkur á mánudaginn í Vrnjacka Banja í Serbíu. Vignir hefur unnið fjórar skákir en tapað þremur. Hann var meðal efstu manna eftir fimmtu umferð með fjóra vinninga en töpin tvö hafa vitanlega sett strik í reikninginn hjá honum. En góður endasprettur getur breytt öllu. Mótið er geysilega vel skipað en þátttakendur eru nálega 500 talsins. Eftir sjöundu umferð sl. fimmtudag var úkraínski stórmeistarinn Anton Korobov efstur með 6½ vinning af sjö og hefur hann teflt af miklum krafti. Í 2. sæti kom Ungverjinn Benjamin Gledura með 6 vinninga og síðan 13 skákmenn með 5 ½ vinning hver.

Vissan um hörmungarnar heima fyrir víkur stundum fyrir jákvæðari þankagangi vegna stuðnings sem Úkraínumenn finna fyrir með þjóðum heims og þessi óútreiknanlegi skákmaður, Korobov, sem kemur frá hinni stríðshrjáðu borg, Kharkiev, hefur bókstaflega farið á kostum. Hann mætti fyrrverandi FIDE- heimsmeistara og landa sínum sl. mánudag:

EM einstaklinga; Vrnjacka Banja 2023; 5. umferð:

Anton Korobov – Ruslan Ponomariov

Bogo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 Bb4 5. Da4 Rc6 6. e3 O-O 7. Bd2 Bd6

Hér er mun algengara að leika 7. ... Bd7 sem hótar 8. ... Rxd4 en Ponomariov er vanur að fara sínar eigin leiðir.

8. c5

Lokar stöðunni sem á eftir að opnast aftur.

8. ... Be7 9. b4 Re4 10. b5 Rxd2

11. Kxd2!?

Vladimir Kramnik hefði verið hrifinn af þessum leik en hann hefur verið að kynna skák án möguleika á hrókeringu.

11. ... Rb8 12. Bd3 c6 13. Hab1 cxb5 14. Bxb5 Dc7 15. Hhc1 f6 16. Bd3 Rc6 17. Dc2 f5 18. Rb5 Db8 19. Dc3 a6 20. Rd6

Skemmtileg peðsfórn sem opnar taflið. Biskupinn á c8 er hálfgerður vandræðagripur.

20. ... Bxd6 21. cxd6 Dxd6 22. Hb6 Dd8 23. Dc5 Hf7

- Sjá stöðumynd 1 -

24. Bxa6 Hc7 25. Re5 Dh4 26. Ke1?

Mun betra var 26. g3!

26. .. Dxh2?

Það er eins og Pono hafi verið undir þeim áhrifum að allt væri glatað. Svo er alls ekki ef svartur hefði hitt á besta leikinn, 26. ... f4! En „vélarnar“ telja þá flóknu stöðu í dýnamísku jafnvægi.

27. Dd6! Dg1+ 28. Ke2 Dxc1

Nú knýr Korobov fram sigur með nokkrum hnitmiðuðum leikjum.

29. Hxc6! Db2+ 30. Kf3 Hf7 31. Hc7! Hxa6 32. Hxc8+

- og svartur gafst upp.

Nokkrir minnisstæðir leikir

Þegar talið berst að Bobby Fischer sem hefði orðið 80 ára þann 9. mars sl. gleymist stundum hversu frábær skákmaður hann var. Greinarhöfundur vill minnast hans með broti úr skák sem geymir litla sögu frá mögnuðum skákferli:

Minningarmót um Capablanca 1965:

Tringov – Fischer

Fischer fékk boð um að tefla á minningarmótinu um kúbverska heimsmeistarann en var synjað um vegbréfsáritun til Kúbu af bandarískum yfirvöldum. Hann bauðst þá til að tefla frá Marshall-skákklúbbnum í New York með aðstoð telex-tækninnar og vakti sú þátttaka heimsathygli. Staðan á borðinu var þekkt úr skákdálkum. Hvítur hótar 19. Df7 og var mælt með 19. ... Dxe5 29. Dxe5 Rxe5 21. Bxc8 b5 með jöfnum möguleikum. Þetta var fyrir daga skákforritanna og okkar maður hafði fundið aðra leið ...

18. ... Rc6! 19. Df7 Dc5+ 20. Kh1 Rf6! 21. Bxc8 Rxe5 22. De6 Reg4

- og Tringov gafst upp.